
Slunkaríki eða House Project var listaverk sem Hreinn Friðfinnsson myndlistarmaður setti upp árið 1974 í Smalaskálakeri, en það er jarðfall í Smalaskálahæð. Jarðfallið er suðvestarlega í Smalaskálahæð í Hraunum suðvestur af Straumsvík, nánar tiltekið skammt frá Óttarstaðafjárborg, sem nefnist einnig Kristrúnarborg. Þangað liggur vegslóði af gamla Keflavíkurveginum, en afleggjarinn er til móts við Lónakots heimreiðina. Vegslóðinn var upphaflega notaður af vörubílstjórum sem sóttu hraungjall í rauðamelshól nærri Smalaskálakeri sem nefndist Óttarstaða Rauðamelur. Þar skammt norður af voru tveir allstórir rauðhólar sem nefndust Rauðamelur stóri og litli.