Monthly Archives: október 2012

Félagsstarf

Ljósmyndasamkeppni í Gálgahrauni

Hraunavinir efna til ljósmyndasamkeppni í Gálgahrauni. Tilgangur keppninnar er að vekja athygli á óafturkræfum skemmdum á hrauninu vegna fyrirhugaðra vegaframkvæmda, minna á sögu svæðisins og fegurð náttúrunnar sem og hvetja til verndunar Gálgahrauns. Þema keppninnar er: Haust í Gálgahrauni. Gálgahraun nær frá Álftanesvegi við Prýðahverfi í Garðabæ niður að sjó. Ljósmyndirnar verða að vera teknar í Gálgahrauni, þær mega vera teknar hvenær sem er og getur hver keppandi sent inn eins margar myndir og hann vill. Myndir skulu sendar inn á facebook-síðuna Verndum Gálgahraun. Verðlaun verða veitt fyrir þrjár bestu myndirnar. Skilafrestur er til 25. október 2012 og verða úrslit kynnt 31. október 2012. Nánari upplýsingar um keppnina er að finna á heimasíðu Hraunavina og á facebook-síðunni Verndum Gálgahraun.

Skilmálar og reglur:

1. Ljósmyndir verða að vera teknar í Gálgahrauni.

2. Myndirnar mega vera teknar hvenær sem er.

3. Hver keppandi getur sent inn eins margar myndir og hann vill.

4. Keppandi verður að hafa tekið myndirnar sjálfur og eiga höfundarréttinn.

Myndir skulu sendar inn á Verndum Gálgahraun á Facebook. Skilafrestur er til miðnættis 25. október 2012.  Úrslit verða kynnt 31. október 2012.

Aðstandendur keppninnar gætu óskað eftir að nota vinningsmyndir í baráttunni gegn eyðileggingu Gálgahrauns, en það verður gert í samráði við réttthafa myndanna.

Veitt verða þrenn verðlaun fyrir bestu myndirnar:

1. verðlaun: Bókin Ljósmyndarar á Íslandi eftir Ingu Láru Baldvinsdóttur http://www.forlagid.is/?p=4053

2.  og 3. verðlaun: Bókin um Kjarval http://nesutgafan.is/index.asp?q=kjarval

Dómnefnd skipa:

Bragi J. Ingibergsson, áhugaljósmyndari, formaður

Andri Snær Magnason, rithöfundur

Ragnheiður Arngrímsdóttir, ljósmyndari

 

Greinar

Ögurstund runnin upp í Gálgahrauni

Gunnsteinn Ólafsson skrifar:

Skýrt er kveðið á um það í lögum að eldhraun á Íslandi njóti sérstakrar verndar. Allar framkvæmdir í eldhrauni eru því strangt til tekið ólöglegar. Gálgahraun á Álftanesi er eldhraun og auk þess á náttúruminjaskrá sem eykur enn á verndargildi þess. Garðabær fer með skipulagsvald í Gálgahrauni. Bærinn hefur þegar látið reisa heilt íbúðahverfi í hrauninu. Ennfremur á að leggja nýjan Álftanesveg þvert yfir hraunið og aðra stoðbraut í kross frá norðri til suðurs. Bærinn sá reyndar sóma sinn í að friða nyrsta hluta Gálgahrauns en tveimur þriðju hlutum þess á að fórna undir vegi og lóðir. read more »