Hér birtist frásögn eftir Guðrúnu Sveinsdóttur sem prentuð var í blaðinu Melkorku 10. árgangi, 2. tölublaði árið 1954:
Á Álftanesi við Arnarnesvog er Gálgahraun. Fram við sjóinn, beint á móti Bessastöðum gnæfa Gálgaklettar. Við klettaræturnar þekur grasið gömul tóftarbrot. Í klettaskorum vex ljónslöpp, tófugras, burkni, þursaskegg o.fl. Efst uppi situr svartbakur, einn síns liðs, en annars er hér urmull fugla. Í sandbleytunni og smá tjörnunum, sem útfirið hefur skilið eftir, á milli grasigróinna sandbala, vaða stelkar og sendlingar, en í þangbendunni, sem öldurnar hafa skolað langt upp á land, gösla úfnar og óhreinar rolluskjátur með lömbin sín. Smáfuglar þjóta milli klettanna, sem endur fyrir löngu báru uppi líkama ógæfusamra vesalinga, sem mannanna réttlæti dæmdi til lífláts á þessum stað. read more