Monthly Archives: maí 2015

Dómsmál

Ýmsum spurningum enn ósvarað

20131023_144330

Reykjavík vikublað fjallar ítarlega um dóm Hæstaréttar yfir níumenningunum sem sættu ákæru fyrir að vilja standa vörð um náttúruperlur í Gálgahrauni og voru handteknir ásamt fjölda annarra í viðamiklum og þrautskipulögðum aðgerðum lögreglu þann 21. október 2013.

Ingimar Karl Helgason ritstjóri fjallar um málið í leiðara.  Þar segir m.a.

Enda þótt hér hafi Hraunavinir sannarlega unnið sigur, þá er hér hópur fólks sem hefur þurft að glíma við handtöku, ákærur og dóma um margra mánaða skeið. Og fyrir hvað? Fyrir að sitja á rassinum fyrir íslenska náttúru.

Því hefur ekki enn verið svarað hvernig á því stóð að allir þessir lögreglumenn voru staddir í Hrauninu þennan morgun. Lögreglumenn kunna jafnvel að hafa verið fleiri en þau sem söfnuðust saman snemma dags til friðsamlegra mótmæla.

Leiðara Ingimars, Dagsform og duttlungar, má lesa í heild sinni hér:

https://rvkv.wordpress.com/2015/05/30/dagsform-og-duttlungar/

Umfjöllun blaðsins má sjá hér:

https://rvkv.wordpress.com/2015/05/30/nyr-tonn-i-natturuverndarmalum/

Dómsmál

Dómar Hæstaréttar í máli Hraunavina

9mdv

Hæstiréttur hefur nú fellt dóma í máli níu Hraunavina sem ákærðir voru fyrir að hafa óhlýðnast fyrirmælum lögreglu og neitað að færa sig um set við mótmæli gegn lagningu nýs Álftanesvegar um Gálgahraun 21. október 2013.  Rétturinn frestar ákvörðun refsingar, sem fellur niður haldi ákærðu almennt skilorð í tvö ár.  Héraðsdómur Reykjaness hafði áður dæmt ákærðu til sektargreiðslu og fangelsisvistar til vara.

Varðstaða um náttúrverðmæti viðurkennd

Hæstiréttur vísar m.a. til ákvæða stjórnarskrár um tjáningarfrelsi og rétt manna til mótmæla.  Ennfremur er litið til þes að tilgangur mótmælanna hafi verið að standa vörð um náttúruverðmæti.  Segir svo í dómunum:

Við ákvörðun refsingar ákærðu verður litið til þess að hún hefur ekki áður hlotið refsingu, að fyrir henni vakti að standa vörð um náttúruverðmæti, sem hún og fleiri töldu að verið væri að vinna óbætanlegan skaða, og að það gerði hún með því að nýta á friðsaman hátt stjórnarskrárvarinn rétt sinn til að mótmæla þó svo að í þessu tilviki hafi hún gengið lengra en heimilt var.

Þótt dómar Hæstaréttar komi ekki í veg fyrir að lögregla geti að eigin geðþótta misbeitt 19. grein lögreglulaga þá ber engu að síður að fagna því að þeir hafi verið mildaðir að verulegu leyti og ákvörðun refsingar frestað.  Einnfremur er mikilvægt að Hæstiréttur líti sérstaklega til þess að fyrir ákærðu hafi vakað að standa vörð um náttúruverðmæti.  Hlýtur það að verða náttúruverndarsinnum hvatning að láta hvergi deigan síga í þeirri baráttu sem vænta má um náttúru Íslands í náinni framtíð.

Dómarnir eru samhljóða.  Þá má lesa þá í heild sinni á vef Hæstaréttar.  Sjá dæmi hér:

http://haestirettur.is/domar?nr=10480

(Mynd fengin af vef dv.is)

Dómsmál

Níumenningarnir fyrir Hæstarétti

9menningar

Fimmtudaginn 21. maí kl. 9:00 verður málfutningur máli þeirra níu sem ákærð voru fyrir að sitja kyrr í Gálgahrauni 21. okt. 2013, þegar lögreglan fyrirskipaði að fólk „færði sig um set“.

Þetta mál fjallar um svo margt fleira en níumenningana. Það fjallar um rétt okkar til friðsamra mótmæla og að vernda náttúruna.Réttarhaldið er opið svo allir sem áhuga hafa geta komið og fylgst með. 21.05 – kl. 9:00 – Hæstiréttur – Dómsalur II.

Skúli Bjarnason lögfræðingur okkar mun flytja málið.
Stjórn Hraunavina.
Málefni

Athugasemdir Hraunavina vegna Suðurnesjalínu 2

Hraunavinir mótmæla harðlega fyrirætlunum Landsnets um lagningu Suðurnesjalínu 2 í loftlínum í gegnum Vallahverfið í Hafnarfirði og í gegnum ósnortin hraunsvæði í Almenningi. Einnig er mótmælt byggingu tengivirkis í Hrauntungum. Hraunavinir fara því fram á að Hafnarfjörður veiti Landsneti ekki framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 að óbreyttu.

Sjá bréf stjórnar Hraunavina til skipulags- og byggingarsviðs Hafnarfjarðar 4. apríl 2015 í pdf viðhengi.

Athugasemdir Hraunavina vegna Suðurnesjalínu 2