Reynir Ingibjartsson skrifar:
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ fer nú mikinn og reynir að verja lagningu nýs Álftanesvegar. Það er auðvitað vinnan hans að gera það, sjá greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu sl. laugardag.
Hann segir allt í samræmi við náttúruverndarlög, mat á umhverfi og fornleifakönnun. Samt er hraunið sem fara á undir veg á náttúruminjaskrá, umhverfismatið í raun fallið úr gildi og fornminjaskráin ófullkomin. Hlutverk náttúruminjaskrár er að skrásetja svæði sem æskilegt er að friðlýsa. Garðabær hefur lýst þeim vilja sínum að friðlýsa Búrfellshraun sem Gálgahraun er hluti af, en af því að vegur hefur forgang fram yfir friðun, þá á að sleppa friðlýsingu á þessum hluta hraunsins.
Fornminjaskrá ræðst af þeim heimildum sem stuðst er við. Í ljós hefur þó komið að þekkt kennileiti og merkar minjar vantar í skrána. Ég nefni þann magnaða álfaklett – Ófeigskirkju og fjárborgina fornu við Garðastekk sem dæmi. Þá skortir mjög á að skrásetja og varðveita fornar leiðir. Ég nefni: Móslóða, Engidalsstíg og Garðagötu sem verða bara nöfnin tóm, verði af hinum nýja vegi.
Móslóði er afar áhugaverður stígur. Hann liggur um þvert Gálgahraun frá Arnarnesvogi að Garðaholti. Um hann fóru kynslóðirnar með mó á baki úr mógröfunum innan við Arnarnesvoginn og í kotin í Garðahverfi og Hafnarfirði. Nýr Álftanesvegur rífur þennan slóða í sundur og það sem kannski verra er – eftir honum endilöngum er fyrirhugaður framhaldsvegur af Vífilsstaðavegi og suður á Garðaholt samkvæmt aðalskipulagi Garðabæjar.
Þótt þessi vegur sé ekki nefndur beint í greinum Gunnars, er samt áréttað að vegartenging þurfi að koma við fyrirhugaða 8 þúsund manna íbúðabyggð á Garðaholti.
Stundum er sagt að sporin hræða. Um miðjan síðasta áratug var felld úr gildi, bæjarvernd yfir hrauninu hjá Urriðakotsvatni, þar sem IKEA stendur nú. Framsýnir stjórnendur Garðabæjar vildu vernda þetta hraun fyrir komandi kynslóðir. En á einni nóttu breyttist allt. Þeir sem áttu þarna leið um fyrrum, geta nú dæmt um breytinguna. Þetta gerðist á vakt núverandi og fyrrverandi bæjarstjóra í Garðabæ.
Þrír virtir Garðbæingar reyndu að hafa vit fyrir sínu fólki og sendu inn athugasemdir í apríl 2005. Það voru þau; Ólafur G. Einarsson, Pétur Stefánsson og Sigrún Gísladóttir. Þau rekja gildi óspilltrar náttúru við bæjardyrnar, nefna hinar einstöku hraunmyndanir í Búrfellshrauninu öllu og vitna í lög um sérstaka vernd eldhrauna. Í lokin segja þau:
,,Undirrituð leyfa sér með hliðsjón af öllu framansögðu að beina þeim eindregnu tilmælum til bæjarstjórnar Garðabæjar að fallið verði frá umræddri breytingartillögu að aðalskipulagi Garðabæjar. Það er að þeirra mati ein af höfuðskyldum bæjarstjórnar að standa vörð um þau einstöku umhverfisgæði sem henni hefur verið trúað fyrir. Hennar er ábyrgðin á framtíðarumhverfi komandi kynslóða í Garðabæ”.
Á árunum kringum 1970 stóðu harðar deilur um stækkun Laxárvirkjunnar og miðlunarlón í Laxárdal. Neðsti hluti dalsins átti að stórum hluta að fara undir vatn. Það voru bæjarstjórarnir á Akureyri og á Húsavík sem fremstir fóru í baráttunni fyrir virkjuninni. Það vantaði rafmagn á þessum stöðum. Þessir mætu menn voru að sjálfsögðu að gæta hagsmuna þeirra sem réðu þá til starfa. En Laxárdali var hlíft. Það var ekki bæjarstjórunum að þakka.
Bæjaryfirvöld í Garðabæ hafa margt gott gert í umhverfismálum og má nefna friðlýsingu Vífilsstaðavatns sem dæmi. En nú er eins og bundið sé fyrir augu á mönnum. Fimmtán ára gamalt skipulag eins og heilög kú. Ekki vantaði þó viðvörunarorðin á sínum tíma t.d. frá Náttúruverndarráði. En það var vaðið í að byggja í hrauninu og það væri búið að byggja yfir Kjarvalsklettana, ef vökulir náttúruverndarmenn hefðu ekki komið í veg fyrir slysið. Í ljósi reyslunnar m.a. í Urriðakotshrauninu, eru mestar líkur á að ekki verði stoppað við nýjan Álftanesveg, heldur haldið áfram með vegagerð og íbúðabyggingar í Gálgahrauni.
Enn á þó að vera hægt að skoða alla kosti þar sem núverandi vegur er og tryggja öryggi þeirra sem þarna eiga leið um. Það er nóg rafmagn á Húsavík og Akureyri í dag. Það finnast alltaf lausnir, sé þeirra leitað.
Reynir Ingibjartson,
í stjórn Hraunavina.