Fyrir skömmu skrifaði sá mæti verkfræðingur, Jónas Frímannsson grein í Morgunblaðið og gerði fyrirhugaðan nýjan Álftanesveg að umtalsefni. Greinin er skrifuð út frá sjónarmiði bíleigenda, sem aka um landið og virða útsýnið fyrir sér út um bílrúðurnar. Jónas sá þann kost mestan við nýjan veg um Gálgahraun (líka kallað Garðahraun), að þá gæfist svo gott tækifæri að horfa yfir Gálgahraunið, rifja upp sögur af sakamönnum sem hengdir voru í Gálgaklettum og hafa svo Bessastaði í baksýn. Þessi upplifun væri gott nesti í heimsóknum á forsetasetrið og kjörið umræðuefni við forsetann.
Jónas nefndi í þessu samhengi, Höfðabakkabrúna yfir Elliðaárdalinn sem margir hefðu mótmælt, en allir væru sáttir við í dag, enda nyti fólk útsýnis yfir dalinn. Ég held nú að flestir séu fullhertir með að fylgjast með umferðinni á brúnni, en bæti sér það kannski upp með gönguferð um Elliðárdalinn.
En hvað um það. Ýmsir muna kannski líka eftir umræðunni um lokun vegar um Almannagjá og fólk gæti ekki notið þess lengur að aka niður gjána og horfa út um bílrúðurnar. En gjánni var lokað fyrir bílum og nú er Almannagjá, líklega vinsælasta gönguleið á Íslandi. Engum myndi detta í hug nú að taka aftur upp bílaakstur um gjána, enda líka varasamt eins og dæmin sanna. Og hverjum myndi t.d. detta í hug að leggja veg gegnum Dimmuborgir í Mývatnssveit? Kæmist slík hugmynd í umræðu, myndi sá sem hampaði henni, ekki aka óhultur um Mývatnssveit ef ég þekki Mývetninga rétt.
Það var léttur húmor yfir grein Jónasar Frímannssonar, en það sama verður ekki sagt um bæjarstjórann í Garðabæ, sem í sjónvarpsviðtali, notaði sömu rök og Jónas, graf alvarlegur í bragði. Vegurinn sem átti að flýta för fyrir Álftnesinga og auka jafnframt á umferðaröryggi, var kynntur sem útsýnisvegur, þar sem njóta mætti Kjarvalskletta við vegbrúnina.
Fram að þessu hefur allur málflutningur gegn núverandi vegi byggst á því að hann væri svo hættulegur og slysagildrur við hvert bílmál (fótmál). Halda menn virkilega að bílstjórar sem horfa á aðra hönd á Kjarvalskletta og á hina til Bessastaða og Gálgakletta, auki á umferðaröryggið? Ekki einu sinni útskot eru sjáanleg á teikningum. Reyndin yrði líklegast sú með nýjum vegi, að það verði frekar gefið í í hrauninu og tæpast mun hraunið hlífa þeim sem út af lenda. Ef einhver skynsemi er til staðar, ætti frekar að minnka umferðarhraða á nýjum vegi s.s. með ljósum, hringtorgum og þrengingum. Og allt þetta er auðveldast að gera á núverandi en endurbættum vegi.
Það er nú orðið fátt um rök hjá ráðamönnum Garðabæjar fyrir fyrirhuguðum vegi um Gálgahraunið. Þvergirðingsháttur meirihlutans ræður för og ekki er hlustað á neinar tillögur og sáttaleiðir. En það er alltaf ljós í myrkrinu. Vonandi sér meirihlutinn í bæjarstjórn Garðabæjar, ljósið von bráðar. Það er betra en að ,,keyra á Kjarvalskletta”.
Reynir Ingibjartsson,
formaður Hraunavina.