Aðventuganga Hraunavina að Garðastekk

Það blés hressilega í suðaustan rigningarhraglanda, þegar gengið var að Garðastekk í annarri raðgöngu Hraunavina um hraunin sem kennd eru við Búrfell. En göngumennirnir fjórir létu veðrið ekkert á sig fá og heilsuðu aðventunni með eftirminnilegri gönguferð.
 
Rúmlega klukkan ellefu á sunnudagsmorgni var fyrst gengið frá innkeyrslunni í Prýðahverfið og eftir slóðum Flatahraunsgötu að Álftanesstíg. Síðan niður með hraunjarðrinum vestan Klettahrauns að Garðastekk. Allir í hópnum voru sammála um að ekkert væri að því að nýta núverandi vegstæði Álftanesvegar undir nýjan og betri veg. Mikil óprýði er hins vegar að jarðvegstipp við vestanverðan hraunjaðarinn.
 
Við Garðastekk er gönguleiðaskilti um Gálgahraun og Garðahraun sem Hraunavinir og Garðabær létu setja upp fyrir rúmu ári og nú voru leiðirnar um hraunið grandskoðaðar. Haft var á orði að göngur fólks um þetta svæði hefðu stóraukist á þessum tíma.
 
Hinar fornu minjar við Garðastekk voru skoðaðar og komu á óvart. Á það ekki síst við um grjóthringinn á hraunbrúninni, þar sem líklega má finna ævaforna fjárborg. Þá voru skoðaðir garðarnir, þar sem einn fyrsti matjurtagarður á Íslandi hefur hugsanlega verið.
 
Nú hafði heldur bætt í vindinn og úrkomuna og var þessu næst stefnan tekin til baka yfir Klettahraunið og að Kjarvalsklettum. Þar í góðu skjóli áttu göngumenn hálfgildis helgistund við þann magnaða klett sem Kjarval nefndi Gálgaklett. Yfir og allt um kring gnauðuðu náttúruöflin. Sannarlega stund við hæfi.
 
Síðan lá leiðin aftur á malbikið, þar sem aðeins munaði hársbreidd að steinsteypan fyllti gjótur og glufur í Kjarvalsklettum. Reyndar hefur tekist að planta niður á áberandi stað, einstaklega athyglissjúku íbúðarhúsi, sem hrópar á Kjarvalskletta – hér er ég.
 
Hringnum var svo lokað eftir eins og hálftíma göngu og allir voru sammála um að þetta hefði verið einstaklega hressileg ganga. Það á ekki alltaf að láta veðrið stjórna, ekki frekar en misviturt mannfólkið. Lagt var svo til að næsta ganga eftir hálfan mánuð verði um Vatnagarða að Gálgaklettum.
 
Leiðsögumaður í þessari göngu var Reynir Ingibjartsson.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *