Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar sem Pétur Stefánsson fromaður Hraunavina flutti á aðalfundi félagsins sem haldinn var laugardaginn 6. nóvember í Haukshúsi á Álftanesi. Á fundinum voru tvö afskaplega fróðleg erindi flutt um deiliskipulag Garðahverfis og Heiðmerkur.
Starfsárið 2009 – 2010
Ársfundur Hraunavina var haldinn í Haukshúsi á Álftanesi, laugardaginn 31. október 2009.
Á fundinum var kjörin stjórn í félaginu fyrir næsta starfsár. Klara Lísa Hervaldsdóttir, Garðabæ, hafði beðist undan endurkjöri og var stjórnin kjörin þannig:
Jónatan Garðarsson, Hafnarfirði
Reynir Ingibjartsson „
Pétur Stefánsson, Garðabæ
Þorsteinn Þorsteinsson „
Ólafur Proppé, Álftanesi.
Engir reikningar voru lagðir fram enda hafði félagið hvorki haft tekjur né gjöld og eignir eru engar.
Á fundinum kynnti Kristinn Guðmundsson líffræðingur friðunaráform í Skerjafirði og nefndi hann erindi sitt „ Búsvæðavernd við Skerjafjörð “. Fundurinn fagnaði sérstaklega nýstaðfestri friðun nyrsta hluta Gálgahrauns og samþykkti að því tilefni eftirfarandi ályktun:
Ársfundur Hraunavina, haldinn 31. Oktober 2009,fagnar friðun á nyrsta hluta Gálgahrauns ásamt fjörum og Grunnsævi Skerjafjarðar í landi Garðabæjar, sem staðfest var 6. október 2009 með undirskrift bæjarstjóra Garðabæjar og Umhverfisráðherra.
Skorað er á bæjaryfirvöld í Garðabæ að flýta friðun hraunrásar Búrfellshrauns, þ.m.t. Búrfellsgjár, Selgjár, Flatahrauns (Hraunflata) og Maríuhella, ásamt hraunbrúnum frá Búrfelli til sjávar. Mikilvægt er að þyrma því sem eftir er af Vífilsstaðahrauni, Urriðakotshrauni og Hraunsholtshrauni (Svínahraun allt). Sama gildir um Garða- og Gálgahraun allt frá Engidal að hinum nýfriðaða hluta Gálgahrauns.
Samkvæmt náttúruminjaskrá afmarkast Gálgahraun af núverandi legu Álftanesvegar að sunnan, en hraunjöðrum að austan og vestan. Gálgahraun er tilkomumikið nútímahraun sem hefur mikið gildi frá umhverfislegum, sögulegum og náttúrufræðilegum sjónarmiðum. Nýstaðfest friðun spannar um helming Gálgahrauns þó mun stærri hluti þess sé á náttúruminjaskrá. Þessa náttúruperlu ber að varðveita á heildrænan hátt. Fari svo að Álftanesvegar verði færður út í hraunið og ef hugmyndir um framlengingu Vífilsstaðavegar ná fram að ganga verða rofin óafturkræf sár í Gálgahraun. ÁrsfundurHraunavina hvetur bæjaryfirvöld Garðabæjar til að friða Gálgahraunið í heild, svo að komandi kynslóðir fái notið þeirra náttúrgæða og menningarminja sem þar er að finna.
- 2. Starfsemi félagsins.
Á fyrsta fundi stjórnar skipti stjórn með sér verkum þannig:
Pétur Stefánsson, formaður
Jónatan Garðarsson, ritari
Ólafur Proppé, gjaldkeri
Stjórnin ákvað jafnframt að tilnefna sömu ármenn áfram næsta starfsár, þ.e.
Af Álftanesi: Elín Jóhannesdóttir
Gunnsteinn Ólafsson
Janus Guðlaugsson
Sveinbjörn Baldvinsson
Í Garðabæ: Eymundur S. Einarsson
Jón Hjaltalín Ólafsson
Ólafur G. Einarsson
Óli Björn Hannesson
Í Hafnarfirði: Margrét Guðmundsdóttir
Pétur Óskarsson
Sigurður Einarsson
Starfsárið einkenndist mjög af yfirstandandi kreppu og ládeyðu í framkvæmdum. Stjórnin leitaðist við að þoka áleiðis stefnumálum félagsins í samvinnu við sveitastjórnir og hagsmunaaðila á svæðinu. Stjórnin hélt 8 bókaða fundi á árinu auk óformlegra funda og vettvangsathugana.
- 3. Einstök mál:
Árósarsamþykktirn: Fulltrúar Hraunavina áttu fund með Umhverfisráðherra og lögfræðingi ráðuneytisins 27. Janúar 2010. Unnið er að því í ráðuineytinu að lögfesta samþykktina en jafnframt þarf að breyta nokkrum lögum sem hún hefur áhrif á. Raðherra sagði að stefnt væri að því að ljúka málinu á yfirstandandi ári.
Suðvesturlína: Tveir af stjórnarmönnum Hraunavina, þeir Jónatan Garðarsson og Reynir Ingibjartsson, rituðu Hafnarfjarðarbæ bréf, dags. 23. febrúar 2010 vegna fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi Hafnarfjarðar með hliðsjón af fyrirhugaðri suðvesturlínu.
Vettvangsganga: Hraunavinir efndu til vettvangsgöngu að kvöldi miðvikudagsins 9. Júní m.a. til að kynna sér fyrirhuguð línustæði SV – línu. Gengið var í Gjásel í Almenningi og var góð þátttaka í göngunni.
Merking sögulegra göngustíga: Fulltrúar Hraunavina áttu fund í maímánuði með bæjarstjóra og formanni skipulagsnefndar í Garðabæ. Fulltrúar Hraunavina kynntu áhuga félagsins á merkingu göngustíga og sér í lagi merkingar hinna sögulegu stíga í Garðahrauni og Gálgahrauni. Erindi þessu var mjög vel tekið af hálfu fulltrúa Garðabæjar sem vísaði málinu til garðyrkjustjóra og umhverfisnefndar Garðabæjar.
Garðyrkjustjóri Erla Bil Bjarnadóttir kom á stjórnarfund Hraunavina 18. ágúst sl., þar sem hugsanlegar merkingar og framkvæmdi voru ræddar. Fulltrúar Hraunavina mættu loks á fund umhverfisnefndarinnar 7. september 2010, en þar var talið æskilegt að taka stíga í Garðahrauni / Gálgahrauni fyrir í einum áfanga, með upplýsingaskiltum og viðeigandi merkingum. Málið er nú í meðferð yfirvalda í Garðabæ.
Oddvellowvöllur og friðun Búrfellshrauns: Stjórn Hraunavina er kunnugt um áhuga bæjaryfirvalda í Garðabæ að friða hraunstrauminn frá Búrfellsgjá til sjávar, skv. náttúruverndarlögum. Á fundi fulltrúa Hraunavina með bæjarstjóra og formanni skipulagsnefndar í Garðabæ í maí sl. kom fram að full samstaða um málið hafi enn ekki náðst við landeigendur, en hluti Svínahrauns er í eigu Oddfellowreglunnar á Íslandi. Munu golfáhugamenn innan reglunnar hafa áhuga á að stækka núverandi golfvöll út í hraunið.
Stórsír Oddfellowreglunnar á Íslandi, Stefán Veturliðason, verkfræðingur mætti á stjórnarfund Hraunavina 20. október sl. að ósk stjórnarinnar. Þar gerði stjórnin Stefáni grein fyrir minjum í Svínahrauni og mikilvægi þess sem hluta af Búrfellshrauni og lýsti áhyggjum Hraunavina af áformum um að raska hrauninu. Eftir jákvæðar umræður fullyrti Stefán Veturliðason, að Oddfellow menn mundu ekki raska Svínahrauni í andstöðu við hagsmunahópa eins og Hraunavini.