Almannagjá-Gálgahraun

AlmannagjaÁ síðustu vikum hefur dregið til tíðinda í umhverfismálum landsins.  Baráttan um Gálgahraun í Garðabæ kemur til með að marka  djúp spor í náttúruverndarsögu Íslands.  Undirrituð var í fremstu víglínu þegar lögreglan handsamaði og setti í einangrun,  þ. 21. okt. s.l.,  níu Hraunavini en fyrr um morgunin hafði hún  ekið með tugi Hraunavina á lögreglustöðina í Rvík., boðið þeim sektarsátt (10 þús., sem enginn þáði) og sleppt síðan.  Níumenningarnir, handteknir í  annað sinn, voru beittir ótrúlegu harðræði af lögreglumönnum. Myndir af þeim  misþyrmingum verða lagðar til grundvallar kærum sem lögmenn Hraunavina eru með vinnslu.

Fyrir stuttu fékk ég málverk í hendur  (Hreinn Guðm., acryl, 70×100 cm) sem hefur verið nokkra mánuði á trönum en það sýnir Almannagjá framtíðar, ef  fer sem horfir, og  við túlkun þess tek ég  mið af örlögum Gálgahrauns nú.  Málarinn vissi ekkert af Hraunabaráttunni  en hafði í huga grjóthrun úr gjánni sem og sprungur sem nú er búið að ‚yfirdekkja‘ með tréverki;  úr útlendum grenitrjám Skorradals. „Handrið er úr ryðlituðum pípum sem boltaðar eru í brúargólfið en á milli þeirra er strengt net, “.   Nú í nóv. féll grjót úr bergvegg Almannagjár niður á  göngustíginn  fyrir neðan brúargólfið og var lögreglunni tilkynnt um sem og sérfræðingum Ofanflóðaseturs Veðurstofunnar.

Lögreglunni var líka tilkynnt um spjöllin á Gálgahrauni þ. 21. okt. en þar voru Hraunavinir óðara  handteknir og settir í eingangrun.

Náttúrspjöll  stjórnar Garðabæjar verða  ólíkt meiri  en þau sem náttúruöflin  (og menn) hafa unnið á Almannagjá á árunum 2011-2013.  Öryggisráðstafanir Garðabæjar til verndar mannfólki með nýrri vegarlagningu um friðlýst Gálgahraunið vísar  beint til manngerðar framtíðar Almannagjár á Þingvöllum, eins og málverkið sýnir:   Veggir gjárinnar  steyptir upp (eða álgerðir), álrör lagt eftir endilangri gjánni   með rúnnuðum útgönguopum sem og plastgluggum.  Vegfarendur geta ýmist skroppið út úr rörinu  eða tölt um það í skjóli fyrir veðrum og litið  út um gluggana – svona í framhjágöngu.

Óafturkræfar náttúruskemmdir hafa verið unnar í friðuðu Gálgahrauni. Hvað um framtíð Almannagjár á Þingvöllum?

Höfundur greinar: Sesselja G. Guðmundsdóttir, félagsliði, Mosfellsbæ

Höfundur málverks: Hreinn Guðmundsson

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 25. nóv. 2013                                                                                                

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *