Fimmtudaginn 25. nóvember 2009 mættu stjórnarmenn Hraunavina ásamt einum ármanni félagsins á fund á bæjarskrifstofu Garðabæjar til að afhenda ályktun sem samþykkt var á ársfundi félagsins sem haldinn var 31. október. Einnig afhenti Gunnsteinn Ólafsson, einn af ármönnum félagsins á Álftanesi, undirskriftarlista vegna tilfærslu Álftanesvegar til norðurs í Garða- og Gálgahrauni. Gunnar Einarsson bæjarstjóri tók á móti hópnum, en fundinn sátu einnig af hálfu Garðabæjar Erling Ásgeirsson formaður bæjarráðs, Stefán Konráðsson formaður skipulagsnefndar, Eysteinn Haraldsson bæjarverkfræðingur og Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsstjóri.
Ályktunin sem samþykkt var á ársfundi Hraunavina sem Pétur Stefánsson formaður Hraunavina afhenti Gunnari Einarssyni bæjarstjóra er svohljóðandi:
Ársfundur Hraunavina, haldinn 31. október 2009, fagnar friðun á nyrsta hluta Gálgahrauns ásamt fjörum og grunnsævi Skerjafjarðar í landi Garðarbæjar, sem staðfest var 6. október 2009 með undirskrift bæjarstjóra Garðabæjar og Umhverfisráðherra.
Skorað er á bæjaryfirvöld í Garðabæ að flýta friðun hraunrásar Búrfellshrauns, þ.m.t. Búrfellsgjár, Selgjár, Flatahrauns (Hraunflata) og Maríuhella, ásamt hraunbrúnum frá Búrfelli til sjávar. Mikilvægt er að þyrma því sem eftir er af Vífilsstaðahrauni, Urriðakotshrauni og Hraunsholtshrauni (Svínahraun allt). Sama gildir um Garða- og Gálgahraun frá Engidal að hinum nýfriðaða hluta Gálgahrauns.
Samkvæmt náttúruminjaskrá afmarkast Gálgahraun af núverandi legu Álftanesvegar að sunnan, en hraunjöðrum að austan og vestan. Gálgahraun er tilkomumikið nútímahraun sem hefur mikið gildi frá umhverfislegum, sögulegum og náttúrfræðilegum sjónarmiðum. Nýstaðfest friðun spannar um helming Gálgahrauns þó mun stærri hluti þess sé á náttúruminjaskrá. Þessa náttúruperlu ber að varðveita á heildrænan hátt. Fari svo að Álftanesvegur verði færður út í hraunið og ef hugmyndir um framlengingu Vífilsstaðavegar ná fram að ganga verða rofin óafturkræf sár í Gálgahraun. Ársfundur Hraunavina hvetur bæjaryfirvöld Garðabæjar til að friða Gálgahraunið í heild svo að komandi kynslóðir fái notið þeirra náttúrugæða og menningarminja sem þar er að finna.
Gunnsteinn Ólafsson afhenti bæjarstjóra undirskriftalista tæplega 1900 einstaklinga sem rituðu undir eftirfarandi mótmæli og áskorun:
Við undirituð mótmælum fyrirhuguðum framkvæmdum við færslu Álftanesvegar út í Garðahraun og Gálgahraun. Framkvæmdin byggir á forsendum sem ekki standast lengur því ekki verður farið í byggingaframkvæmdir á Garðaholti í nánustu framtíð. Þar að auki hefur fornminjum í Garðahrauni ekki verið nægjanlegur gaumur gefinn við undirbúning verksins né heldur menningarminjum sem tengjast Jóhannesi Kjarval listmálara. Þá er svæðið á náttúruminjaskrá.
Þess er krafist að farið verði í lagfæringar á núverandi vegstæði Álftanesvegar og vankantar sniðnir af honum í stað þess að ráðast í óafturkræfar framkvæmdir sem munu rjúfa sögulega og náttúrulega heild Garðahrauns og Gálgahrauns og valda óþarfa spjöllum á viðkæmu landsvæði.