1. 1. Ársfundur 2011
Ársfundur Hraunavina 2011 var haldinn í Haukshúsi á Álftanesi, laugardaginn 12. nóvember 2011.
Á fundinum var kjörin stjórn félagsins fyrir næsta starfsár. Jónatan Garðarsson ritari félagsins sem verið hefur í stjórninni frá upphafi baðst undan endurkjöri, en Guðfinna Guðmundsdóttir úr Hafnarfirði gaf kost á sér í hans stað. Aðrir stjórnarmenn gáfu kost á sér og var stjórnin þannig kjörin:
Guðfinna Guðmundsdóttir, Hafnarfirði
Reynir Ingibjartsson „
Pétur Stefánsson, Garðabæ
Þorsteinn Þorsteinsson „
Ólafur Proppé, Álftanesi
Jónatan Garðarssyni var þakkað mikið og óeigingjarnt í þágu félagsins.
Reikningar voru lagðir fram og samþykktir samhljóða.
Á fundinum flutti Sigríður Auður Arnardóttir lögfræðingur í Umhverfisráðuneytinu erindi um Árósasamþykktina og tengsl hennar við EES reglur. Í máli hennar kom m.a. fram að formleg umhverfissamtök með 30 félagsmenn og fleiri hafa nú kærurétt varðandi umhverfis og auðlindamál, jafnframt að kæruréttur myndast ekki fyrr en framkvæmdaleyfi hefur verið gefið út. Erindið var í senn mjög fröðlegt og upplýsandi fyrir félagsmenn.
1. 2. Starfsemi félagsins.
Á fyrsta fundi stjórnar skipti stjórn með sér verkum þannig:
Pétur Stefánsson, formaður
Ólafur Proppé, ritari
Þorsteinn Þorsteinsson, gjaldkeri
Stjórnin ákvað jafnframt að tilnefna sömu ármenn áfram næsta starfsár, þ.e.
Af Álftanesi: Elín Jóhannesdóttir
Gunnsteinn Ólafsson
Janus Guðlaugsson
Sveinbjörn Baldvinsson
Í Garðabæ: Eymundur S. Einarsson
Jón Hjaltalín Ólafsson
Ólafur G. Einarsson
Óli Björn Hannesson
Í Hafnarfirði: Margrét Guðmundsdóttir
Pétur Óskarsson
Sigurður Einarsson
Stjórnin hélt 11 bókaða fundi á árinu auk fundar með umhverfisstjóra Garðabæjar og ýmsum ráðamönnum. Efnt var til gönguferða og unnið að enurskoðun laga félagsins. Þá var gert hreinsunarátak í hrauninu sunnan við Hafnarfjörð en sérstök áhersla lögð á að hafa áhrif á legu nýs Álftanesvegar og verndun Garðahrauns. Skal hér nokkuð drepið á það helsta.
1. 3. Einstök mál:
Lega nýs Álftanesvegar. Undanfarin ár hefur stjórn Hraunavina hvatt til þess að fyrirhuguð lega nýs Álftanesvegar yrði endurskoðuð og frekar valin eftir sléttlendinu milli Gálgahrauns og núverandi Álftanesvegar og Gálgahrauni alfarið þyrmt. Í janúarmánuði áttu stjórnarmennirnir Þorsteinn Þorsteinsson og Pétur Stefánsson fund með bæjarverkfræðingi Garðbæjar og var þá ljóst að þessar tilraunir höfðu enn engan árangur borið og þess mundi ekki að vænta að óbreyttu. Stjórn Hraunavina ritaði þá samhljóða bréf dags 1. febrúar 2012 til bæjarstjórna í Garðabæ og á Álftanesi, innanríkisráðherra, formanns samgöngunefndar Alþingis og vegagerðarinnar og lagði þar enn til að önnur veglína yrði valin fyrir hinn nýja Álftanesveg. Bréfi þessu var fylgt eftir með fundum bæði með innanríkisráðherra og formanni samgöngunefndar Alþingis. Virtist Sjónarmið Hraunavina njóta mikils skilnings á þeim fundum en tekið fram að skipulagsvaldið lægi alfarið hjá Garðabæ. Allt kom fyrir ekki og var útboð á hinum nýja Álftanesvegi gegnum Gálgahraun auglýst síðla sumars. Stjórn Hraunavina ritaði þá nýtt bréf til bæjarstjórnar Garðabæjar, dags. 15. ágúst 2012 með afriti á sömu aðila og ritað var áður. Í bréfinu eru sjónarmið Hraunavina enn ítrekuð, skipulagið sé að stofni til 20 ára gamalt og að framkvæmdin muni valda óafturkræfum spjöllum á einstæðri náttúru Garðahrauns. Bæjarritari Garðabæjar svaraði þessu erindi með bréfi 3. september og eru þar talin öll tormerki á því að endurskoða hina fyrirhuguðu legu vegarins. Var nú ljóst að bæjarstjórn Garðabæjar hugðist sitja fast við sinn keip. Tilboð í lagningu vegarins voru opnuð 18. september. Stjórn Hraunavina ritaði bæjarstjórn Garðabæjar enn bréf 24. septmnber 2012 og lýsti vonbrigðum sínum með afstöðu bæjarins og ítrekaði fyrri skoðun. Afrit af bréfi þessu var sent innanríkisráðherra, vegamálastjóra og forseta Íslands. Var nú ljóst orðið að hefðbundin embættismannaleið mundi ekki skila árangri og almenningsálitið væri það eina sem hugasanlega kynni að hrófla við þessum fyrirætlunum. Öflugir hraunavinir, þeir Reynir Ingibjartsson og Gunnsteinn Ólafsson riðu á vaðið með greinaskrifum í blöð og ýmsir menn utan félagsins, bæði myndlistarmenn og fleiri fóru að fordæmi þeirra. Samhliða var ákveðið að nota hin litlu fjárráð félagsins til að kosta auglýsingar í blöð og naut þar félagið dýrmætrar aðstoðar Gunnars Júlíussonar. Gunnsteinn Ólafson dreif jafnfrant í því að koma á fót sérstökum kynningarvef og hefja á ný undirskriftasöfnun á netinu, en það hafði áður verið gert á árinu 2009 þegar þessi mál voru á dagskrá. Þessir undirskriftalistar hafa verið keyrðir saman til að forðast tvískráningu, og innheldur sameinaður listi nú um 3500 nöfn sem andmæla skerðingu Gálgahrauns. Öll hefur þessi umfjöllun vakið verðskuldaða athygli. Forseti Íslands kallaði Reyni Ingibjartsson á sinn fund hinn 22. október sl. til að kynna sér málið og greindi forseti frá þeim fundi á vef sínum samdægurs. Þá boðaði innanríkisráðherra að beiðni Hraunavina til fundar 24. október, þar sem auk ráðherra og fulltrúa Hraunavina, þeirra Gunnsteins Ólafssonar og Péturs Stefánssonar voru mættir bæjarstjóri og bæjarritari í Garðabæ, yfirlögfræðingur og umdæmisstjóri vegagerðarinnar og tveir fulltrúar ráðuneytisins. Á fundinum kom m.a. fram hjá vegagerðinni að útboðið hefði verið kært og ekki yrði skrifað undir verksamning við verktaka, fyrr en niðurstaða lægi fyrir, væntanlega eftir 4 vikur. Sunnudaginn 28. október var síðan efnt til mótmælagöngu um hið fyrirhugaða vegarstæði í samvinnu við Samband íslenskra myndlistarmanna. Leiðsögn í göngunni annaðist Jónatan Garðarsson, Ólafur Gíslason listfræðingur flutti ávarp og Háskólakórinn söng undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar. Í gönguna mættu um 220 manns.
Hreinsun í landi Óttarstaða. Í tilefni að degi íslenskrar náttúru hinn 16. september 2012 var á ný ákveðið að efna til hreinsunarátaks í hrauninu sunnan við Rauðamelsnámu í Óttarstaðalandi í samvinnu við grunnskólana í Hafnarfirði o.fl. aðila. Þrátt fyrir sams konar átak á síðasta ári er enn mikið af drasli í hrauninu við gamla Keflavíkurveginn og víðar í landi Óttarstaða. Föstudaginn 14. september mættu um 170 börn úr 3 skólum í Harfnarfirði ásamt kennurum sínum og fleiri sjálfboðaliðum í góðu veðri á bílastæði á gamla Keflavíkurveginu sunnan við Straum. Skólabörnin hreinsuðu allt hraunið báðum megin við Keflavíkurveginn sunnan Rauðamelsnámunnar. Nokkur hópur hraunavina og fleiri sjálfboðaliða hélt hreinsunarstarfinu áfram laugardaginn og sunnudaginn þar á eftir. Þótt hreinsun alls hraunsins á svæðinu yrði vissulega ekki lokið, þá náðist á þessum tveim dögum mikill árangur þó enn sé af nógu að taka. Framtak þetta vakti sem áður verðskuldaða athygli og gerðu fjölmiðlarnir því góð skil.
Þeir aðilar sem töku þátt í þessu verkefni með okkur voru:
Áslandsskóli
Hraunvallaskóli
Hvaleyrarskóli
Sorpa
Gámaþjónustan
Fura
Hópbílar
Framkvæmdasvið Hafnarfjarðar
Rio Tinto Alcan sem gaf 100 þús. kr. til verkefnisins.
Þá gaf Innnes sælgæti til að næra og gleðja þátttakendur.
Lög félagsins: Í samræmi við ákvörðun síðasta aðalfundar hefur stjórnin unnið að endurskoðun á lögum félagsins, einkum með hliðsjón af breytingu á lögum í kjölfar gildistöku Árósasamþykktarinnar. Stjórnin naut þar aðstoðar Stefáns Boga Sveinssonar lögfræðings hjá Umhverfisstofnun. Drög að hinum endurskoðuðu lögum voru send til félagsmanna með fundarboði þessa fundar og eru þau á dagskrá hans til umræðu og afgreiðslu.
Vettvangsgöngur: Hinn 8. janúar 2012 var að frumkvæði Hraunavina á 100 ára afmælisdegi Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings efnt til táknrænnar athafnar við Grænavatn í Krýsuvík til að minnast setningu fyrstu náttúruverndarlaga á Íslandi. Tíu félög stóðu að athöfninni og mætti á annað hundrað manns þrátt fyrir erfiða færð. Athöfnin tókst vel og vakti athygli fjölmiðla.
Hraunavinir efndu að venju til sólstöðugöngu, nú um „Alfaraleið“ sunnan Hafnarfjarðar. Góð þátttaka var í göngunni þrátt fyrir slæmt veðurútlit, sem brá þó skjótt til hins betra og lauk með blíðviðri.
Fleiri mál hafa vissulega verið á borði stjórnar á árinu, þó svo að nýr Álftanesvegu hafi mjög svo upptekið tíma stjórnarinnar.