Athugasemdir við greinargerð Vegagerðarinnar og Garðabæjar um Álftanesveg.

Hér er hægt að lesa athugsemdir sem stjórn Hraunavina gerði við greinargerð vegamálastjóra og bæjarstjóra Garðabæjar:

Stofnun Hraunavina og markmið.

 Á árinu 2006 hófust umræður um stofnun félags sem hefði það að markmiði að sporna gegn stöðugri eyðingu ósnortinna hrauna og fleiri landslagsverðmæta í bæjarlandi Garðabæjar og Hafnarfjarðar.

Þann 11. apríl 2007 var félagið Hraunavinir stofnað og í fyrstu grein laga félagsins segir: ,,að Hraunavinir sé félagsskapur sem lætur sér annt um byggðaþróun og umhverfismál í Álftaneshreppi hinum forna, einkum hið sérstæða umhverfi, hraun, vötn og strendur sem teljast til bæjarlands í Garðabæ, Hafnarfirði og á Álftanesi”.

Allt frá stofnun félagsins hafa félagsmenn fylgst náið með fyrirhuguðum framkvæmdum í hraununum, ekki síst í Garðahrauni og Gálgahrauni sem eru hluti Búrfellshrauns. Hefur félagið margítrekað varað við áformum um lagningu nýs Álftanesvegar um ósnortið hraunið.

Afskipti innanríkisráðherra og greinargerð um Álftanesveg.

Þann 21. apríl skrifaði þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson bréf til Vegamálastjóra og bæjarstjóra Garðabæjar og mæltist til þess að farið yrði að nýju yfir forsendur fyrir nýjum vegi um hraunið og leitast verði við að fyrirhugaðar framkvæmdir verði í sátt við málsvara náttúrunefndar. Ekki verði skrifað undir verksamning á meðan.

Þann 16. maí sl. skiluðu vegamálastjóri og bæjarstjóri drögum að greinargerð og töldu ekki þörf á að fara að nýju yfir forsendur verksins m. a. hvort skoða þyrfti betur núverandi vegarstæði Álftanesvegar yfir hraunið.

Aftur skrifaði þáverandi innanríkisráðherra bréf til vegamálastjóra og bæjarstjóra þann 22. maí sl. Mæltist hann til þess að ráðuneytinu gæfist tækifæri að fara yfir greinargerðina og efnt yrði til fundar með viðkomandi aðilum. Einnig gefist tími til að fara yfir athugasemdir við greinargerðina frá öðrum aðilum og ekki verði skrifað undir neina samninga á meðan.

Þann 21. maí sl. sendu Hraunavinir tölvubréf til vegamálastjóra og tilkynntu honum að félagið tæki sér tveggja vikna frest til að gera athugasemdir við umrædda greinargerð. Ekki yrði skrifað undir verksamning á meðan.

Loks hefur nýr innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir boðað fulltrúa Vegagerðarinnar og Garðabæjar á sinn fund. um lagningu nýs Álftanesvegar. Hún leggur áherslu á að ná sátt í málinu.

 Löng barátta fyrir verndun Gálgahrauns og Búrfellshrauns alls.

 Áður en grein verður gerð fyrir einstökum athugasemdum Hraunavina við greinargerð vegamálastjóra og bæjarstjóra Garðabæjar, er rétt að fara yfir söguna og baráttuna fyrir vernd Gálgahrauns og Búrfellshrauns alls.

Í grein sem Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur skrifaði í Náttúrufræðinginn 1972-73 um aldur og kortlagningu Búrfellshrauns, leggur hann áherslu á friðun hraunsins og því verði ekki raskað með mannvirkjum. Hann minnist á að grjótnám hafi verið stöðvað í Urriðakotshrauni (Búrfellshrauni) vegna afskipta Náttúruverndarráðs og þáverandi bæjaryfirvöld í Hafnarfirði og Garðabæ hafi hafnað áformum um skálabyggingar í nágrenni við Búrfell og Búrfellsgjá.

Við kynningu á nýju aðalskipulagi fyrir Garðabæ 1995 til ársins 2016 voru strax gerðar alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaða vegi í Garðahrauni/Gálgahrauni og íbúabyggð í hrauninu. Náttúruverndarráð taldi mikilvægt að tryggja verndun Gálgahrauns vegna fjölbreytts gróðurs, söguminja, sögustaða, fornra gatna og búsetuminja frá ýmsum tímum. Búrfellshraun væri í hópi merkra náttúruminja sem forðast bæri að raska frekar en orðið er. Þá hefði Ísland alþjóðlegar skyldur varðandi verndun jarðmyndana.

Fleiri aðilar s.s. Hið íslenska náttúrufræðifélag og Fuglaverndarfélag Íslands gerðu einnig athugasemdir við hið nýja aðalskipulag. Þá skrifaði Árni Björnsson læknir og Álftnesingur grein í Morgunblaðið þann 19 febrúar 1997 undir fyrirsögninni: Gefið Gálgahrauni gálgafrest. Þar varaði hann mjög við röskun hraunsins.

Náttúruvernd ríksins sem tók við af Náttúruverndarráði gerði margvíslegar athugasemdir vegna umhverfismats sem gert var 2002 vegna áforma um lagningu nýs Álftanesvegar og framlengingu Vífilsstaðavegar um Gálgahraun og Garðahraun. Fram að því hafði allt hraunið norðan núverandi Álftanesvegar verið skilgreint sem bæjarverndað svæði.

Í umsögninni segir að náttúruleg landslagsheild verði eyðilögð og ekki sé ásættanlegt að fórna þessum náttúruverðmætum. Þá er lagt til að núverandi vegur verði endurbættur. Loks er minnt á að hraunið hafi alþjóðlegt verndargildi.

Í umhverfismatinu frá 2002 er bent á það að hraunið muni skiptast í fjóra parta með umræddum vegum. Það sé einstakt í okkar heimshluta að finna svo ósnortið hraun inni í miðri byggð og runnið frá gíg og alla leið til sjávar. Vegir um hraunið muni leiða til hljóðmengunar, sjónmengunar og efnamengunar.

Á árinu 2005 var bæjarvernd létt af Vífilsstaðahrauni við Urriðakotsvatn og aðalskipulagi breytt svo hægt væri að byggja þar verslanahverfi með IKEA í fararbroddi. Þau Ólafur G. Einarsson fyrverandi alþingismaður og fyrsti sveitarstjóri í Garðabæ, Pétur Stefánsson verkfræðingur og Sigrún Gísladóttir fyrrverandi formaður skipulagsnefndar í Garðabæ, skiluðu ítarlegum athugasemdum við þessa breytingu á aðalskipulagi. Þar mótmæltu þau breytingunni og bentu á þau ómetanlegu verðmæti sem fælust í óröskuðu hrauni og lögðu áherslu á að nábýli við óspillta náttúru hefði frá upphafi Garðabæjar, verið aðall sveitarfélagsins.

Þegar Hraunavinir hófu baráttu sína árið 2007 voru framkvæmdir á fullu í nýju hverfi norðan núverandi Álftanesvegar – Prýðishverfi. Til stóð að bæta þar við 10-12 lóðum norðan núverandi byggðar. Á því svæði eru Kjarvalsklettar, þar sem Jóhannes S. Kjarval málaði áratugum saman. Vegna afskipta Hraunavina var hætt við að byggja á þessum lóðum.

Baráttan hefur því skilað árangri.

Greinargerð Hreins og Gunnars – nýtt aðalskipulag fyrir Garðabæ.

Víkjum nú að greinargerð vegamálastjóra og bæjarstjóra Garðabæjar. Á sínum tíma var Garðabær varaður við að hefja uppbyggingu á íbúahverfi norðan núverandi Álftanesvegar. Þeim aðvörunum var ekki sinnt. Margar vegtengingar inn á núverandi veg eru því á ábyrgð bæjarfélagsins (10 tengingar). Í þéttbýli hefur í vaxandi mæli verið beitt þeirri lausn að setja hringtorg þar sem tenginga er þörf. Þetta hefur reynst besta lausnin og á höfuðborgarsvæðinu má sérstaklega benda á Mosfellsbæ og Hafnarfjörð í þessu sambandi. Prýðishverfi er lítið hverfi og ekki verður séð að þar sé erfiðara að finna varanlega lausn en í öðrum íbúahverfum.

Hringtorgin hafa einnig sýnt að þau taka við mun meiri umferð en ætlað var. Gott dæmi er Hlíðartorg á mótum Reykjanesbrautar og Lækjargötu í Hafnarfirði. Mislæg gatnamót þar reyndust óþörf og mikill kostnaður sparaðist. Í aðalskipulagi Reykjavíkur er nú ekki lengur gert ráð fyrir miklum nýjum umferðarmannvirkjum þrátt fyrir þéttingu byggðar. Aðrar lausnir eru fundnar og áhersla að auki lögð á bættar almenningssamgöngur.

Allar götur og vegir í þéttbýli kljúfa byggð eðli málsins samkvæmt. Til að draga úr þessum ókostum er dregið úr umferðarhraða, settar hindranir, byggð hringtorg, búnar til hliðargötur og lagðir göngustígar, gangbrautir yfir vegi og gangstéttar. Öllum þessum úrræðum má beita þar sem núverandi vegur er, eins og gert er annars staðar í Garðabæ, á Álftanesi og verður væntanlega í nýju íbúahverfi á Garðaholti. Með sameiningu Garðabæjar og Álftaness er Álftanesvegur ekki lengur þjóðvegur milli byggða heldur innanbæjarvegur í Garðabæ.

Eins og fram kemur í greinargerðinni á að ráðast í gerð nýs aðalskipulags fyrir hið nýja, sameinaða sveitarfélag og er stefnt að staðfestingu þess árið 2016. Hraunavinir mæltust til þess á sl. ári þegar sameining sveitarfélagana var að eiga sér stað, að þá væri tækifæri að endurskoða aðalskipulagið og fresta fyrirhugaðri lagningu Álftanesvegar um ósnortið hraun á meðan. Ekki var talin þörf á því þá að endurskoða skipulagið.

Nú er hins vegar tækifærið að tengja saman – nýtt aðalskipulag og endurskoðun á fyrri ákvörðunum um legu Álftanesvegar.

Átta þúsund manna byggð á Garðaholti?

Nú er kannski komið að kjarna málsins – uppbyggingu nýs íbúahverfis á Garðaholti með allt að átta þúsund íbúum. Um það hefur þó ekki verið mikið talað í umfjöllun um Álftanesveginn. Greinargerðin tekur nú af allan vafa um það.

En hið nýja hverfi átti að fá sérstakan veg – framlengingu Vífilsstaðavegar frá Arnarnesvogi og yfir þvert Gálgahraun/Garðahraun á Garðaholt. Þessi vegur er á aðalskipulagi Garðabæjar og hefur verið frá 1995. Með honum myndi hraunið skiptast í fjóra parta eins og Náttúruvernd ríkisins benti á. Í miðju hrauninu sköruðust þá fyrirhugaður Álftanesvegur og áformaður Vífilsstaðavegur.

Hver segir svo að það muni rísa átta þúsund manna byggð á Garðaholti þó að núverandi aðalskipulag geri ráð fyrir því? Tillögur frá ráðgjafafyrirtækinu Alta um breytt deiliskipulag benda í reynd til annars, en þær eru nú til umfjöllunar hjá Garðabæ. Garðaholt er mjög ríkt af sögulegum minjum og það virðist vaxandi áhugi á að varðveita þær. Þá er unnið að friðlýsingu allrar standlengjunnar og Garðaholtið er frábært útivistarsvæði. Þá gerir nálægð þess við Hafnarfjörð, væntanlega kröfu til þess að skipulag Garðaholts sé gert í sátt við grannann í suðri. Svo þurfa nýjar íbúabyggðir sín útivistarsvæði. Þá er Gálgahraunið skammt undan.

Þegar allt þetta mál er skoðað, jaðrar það við hreint ábyrgðarleysi að leggja ósnortið hraun inni í byggð á höfuðborgarsvæðinu undir vegi og hugsanlega meiri byggð, þegar ekkert liggur í raun fyrir um íbúabyggð í framtíðinni og þær breytingar gætu orðið á bílaumferð sem drægju úr frekar en yku, þörf á meiri og breiðari vegum. Tölur í greinargerðinni um allt að þrettán þúsund manna byggðir á Garðaholti og á Álftanesi eiga meira skylt við loftkastala en raunveruleika. Íbúar á Álftanesi hafa reyndar staðið lengi gegn stjórnlausri íbúafjölgun á svæðinu.

Umferð og slysatíðni.

Í greinargerðinni er enn hamrað á þeim rökum að slysatíðni sé óeðlilega há á núverandi Álftanesvegi, auk þess að umferð muni stóraukast og slysatíðni þá aukast.

Í greinargerðinni eru birtar tölur um slysatíðni og samanburður við landsmeðaltal. Þessar tölur eru athyglisverðar. Á árinu 2000 var hlutfallið 2,66 á Álftanesvegi en 2,07 á landinu öllu. Fram að árinu 2011 var slysatíðnin að meðaltali 2,12 á Álftanesvegi en meðaltalið 1,65 fyrir allt landið. Slysatíðni hefur því minnkað umtalsvert sem betur fer. Í þrjú ár í þessum samanburði er slysatíðni lægri á Álftanesvegi en landsmeðaltalið. Enginn samanburður er hins  vegar gerður við sambærilega vegi og því ónákvæmt að miða við landsmeðaltal. En vegurinn hefur ekkert breyst á þessum tíma. Samt var slysatíðnin komin niður í 0,28 á Álftanesveginum árið 2010.

Þessar tölur segja svo ekkert um það að ekki sé hægt að lækka slysatíðni á núverandi vegi. Augljósar bætur er hægt að gera og það eitt að setja hringtorg í stað umferðarljósa eða mislægra gatnamóta, hefur yfirleitt frekar lækkað slysatíðni. Þá ræður umferðarhraði miklu.

Nýr vegur utan byggðar í hrauninu getur hins vegar kallað á aukna slysahættu.

Bent er á í greinargerðinni að sólarhringsumferð um Álftanesveg hafi aukist um 70% frá árinu 2000 til 2012. Var 3.309 bílar árið 2000 en 5.614 árið 2012. En hver er aukningin á landinu öllu á þessum tíma? Engar tölur birtar um það. Engar stórfelldar íbúðabyggingar eru á dagskrá á allra næstu árum utan við hraunið. Fólk er svo frekar hvatt til þess að draga úr bílaakstri. Þeir sem reglulega fara um Álftanesveg hafa ekki rekist á það fram að þessu að mikil umferð, hamli för.

Rök um það að það þurfi að vera sem beinastur og breiðastur vegur til og frá forsetasetrinu á Bessastöðum eru heldur ekki trúverðug. Núverandi forseti hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að varðveita sögulegar minjar í Gálgahrauni og Garðahrauni og fyrrverandi forseti hefur ítrekað, eindregið varað við röskun hraunsins.

Núverandi vegur ónothæfur!

Þá eru það rökin um að núverandi vegarstæði sé óbrúklegt og þess vegna þurfi nýjan veg úti í hrauninu. Sagt er að vegurinn hafi lítið burðarþol. Þó er hann á hrauni og nýr vegur á að vera á því sama hrauni! Hvers konar rök eru þetta? Með sömu rökum á vegurinn ekki að þola aukinn umferðarþunga! Er eitthvað flóknara að undirbyggja þennan veg en nýjan? Undirstaðan í raun sú sama – hraun. Þá eru það beygjurnar – of krappar. Er nú ekki hægt að laga þær?

Blindhæð á veginum utan við hraunið er  hægt að sneiða hjá með nýjum vegi og kemur vegi yfir hraunið ekki við. Svo má alltaf breikka vegi ef leitað er að lausnum. Þeir möguleikar eru ekki verri en víða annars staðar þar sem leysa þarf slík mál. Bætt vegasamband – hvað þýðir það? Ekki styttist vegalengdin út á Álftanes. Verður þá hægt að aka hraðar eða? Ekki fjölgar vegum nema Vífilsstaðavegurinn verði framlengdur. Það er kannski málið að leggja hann næst? Svo verður ekki séð annað en að viðhalda þurfi núverandi vegi sem húsagötu. Ekki er hægt að rjúfa tenginguna við Hrafnistu. Álftnesingar hafa þá kannski um þrjá vegi að ræða í framtíðinni og jafnvel fjóra ef vegi um Garðaholtið er bætt við.

Augljósustu rökin eru væntanlega þau að fá aukið byggingarland á norðanverðu Garðaholti og fórna þá hrauninu í staðinn. Það er kannski kjarni málsins.

Nú er það í lögum að kanna skuli s.k. 0 – kost áður en ráðist er í framkvæmdir á nýjum stað. Með öðrum orðum að kanna þurfti núverandi vegstæði. Þessi kostur var blásinn út af borðinu í frummatsskýrslu með ofangreindum rökum ef rök skyldi kalla. Þau rök kallast líka – vegtæknileg. Gott væri að fá útskýringu á því orði. Heimreiðarnar hefur áður verið minnst á. Hringtorg og hjáleiðir myndu leysa þann vanda.

Stokkur – hringtorg.

Hraunavinir hafa verið ásakaðir fyrir það að leggja fram dýrar lausnir eða jafnvel engar lausnir. Íbúar næst núverandi Álftanesvegi sitji þá uppi með veginn þrátt fyrir gefin loforð bæjaryfirvalda.

Vinsælast hefur verið að benda á þann kost að leggja veginn í stokk gegnum hraunið. Með þeirri lausn væri umræðan slegin út af borðinu strax – kostnaðar vegna. Í greinargerðinni er nefnd talan 2.8oo m kr. og örugglega í lægri kantinum. Ekki er hins vegar nefndur sá kostur að með þeirri leið (stokki) væri byggðin norðan og sunnan núverandi vegar, tengd saman og svæðið nýttist augljóslega betur. Vegur í stokk hefur hins vegar aðeins verið nefndur sem einn af kostunum af hálfu Hraunavina.

Flestir hafa hallast að því að endurbættur vegur með hringtorgum, tveim eða fleiri væri besti kosturinn. Félagsmenn í Hraunavinum s.s. Pálmi Freyr Randversson og Sigmundur Einarsson hafa kynnt nánari útfærslur á vegi með hringtorgum og fleiri félagsmenn s.s. Gunnsteinn Ólafsson og Andri Snær Magnason hafa ítrekað skrifað og kynnt lausnir í þessa veru. Þá hefur fyrrum formaður Hraunavina, Pétur Stefánsson verkfræðingur ítrekað bent á lausnir í sambandi við núverandi Álftanesveg.

Fullyrða má, þó ekki hafi verið lagðar fram neinar tölur um það, að endurbættur Álftanesvegur yrði ódýrari lausn en nýr vegur í hrauninu og er þá sleppt eyðileggingu hraunsins sem aldrei er verðmetið.

Vegagerðin hefur nú sett fram þann kost til lausnar og sátta í þessari deilu, að breyta mislægum gatnamótum á nýjum vegi í hringtorg. Sjálfsagt í ljósi þess að Hraunavinir hafa verið að benda á hringtorg sem lausn!. Gallinn er hins vegar sá að tillaga Vegagerðarinnar er á vitlausum stað. Málið snýst um að vernda hraunið og fara ekki með veginn út í ósnortið hraun. Hringtorg í hrauninu breytir því engu í þessu máli.

Að sama skapi breytti það engu hvort valin var leið A, B, C eða D í hrauninu. Allar röskuðu þær hrauninu.

Skaðabótakröfur.

Í greinargerðinni eru tíundaðar hugsanlega bótakröfur á hendur Vegagerðinni og Garðabæ frá íbúum í Prýðishverfi og sunnan núverandi vegar. Vegurinn sé hættulegur og verðfelli þær fjárfestingar sem fólk hefur gert í húsum sínum. Þá hafi því verið lofað við úthlutun lóða að vegurinn fari. Reyndar virðist sem lofað hafi verið hálfgerðri sveitasælu með tilheyrandi ró og friði. Þá megi reikna með að verktakinn sem samið hefur verið við, Íslenskir aðalverktakar muni krefast bóta, verði ekki af lagningu nýs vegar.

Það gleymist í þessu að margir íbúar í Prýðishverfi eru mjög mótfallnir lagningu nýs vegar í hrauninu og munu hugsanlega hafa uppi bótakröfur, verði af lagningu hans. Hér skiptist afstaða fólks mjög í tvö horn.

Sveitarfélög standa iðulega frammi fyrir þeim kostum að bæta verði íbúum og eigendum húsnæðis og annarra mannvirkja, fyrir rask og önnur óþægindi. Enn sem komið er hefur ekki komist á sú regla að bæta fyrir land sem eyðilagt er með tilliti til útvistargildis og verndar. Menn láta sig jafnvel hafa það að beita þeim rökum, að nóg sé af hraunum. Er þá bent á Ódáðahraun sem dæmi. Það gleymist að af hrauni eigum við ekki nóg inni í miðri íbúðabyggð. Búrfellshaun í heild sinni býður upp á ómetanleg útivistargæði við fæturna á okkur.

Fornleifar.

Í athugasemdum Náttúruverndarráðs á sínum tíma var mjög bent á þau verðmæti sem felast í sögulegum minjum s.s. um búskaparhætti og samgöngur. Búrfellshraun geymir miklar minjar frá fyrri tímum, ekki síst Gálgahraunið/Garðahraunið. Hinar gömlu götur bera nöfn sem tengjast háum sem lágum áður fyrr s.s. Fógetagata, Móslóði og Sakamannastígur. Sambærileg nöfn er ekki að finna annars staðar.

Fornleifaskráning fór fram árið 1999 og byggir umhverfismatið frá 2002 á henni. Þar er ekki minnst á Móslóða eða Garðagötu og Engidalsstíg. Ekki heldur rústir af fornri fjárborg við Garðastekk eða garðsveggi við hraunbrúnina norðvestan stekksins. Hugsanlega eru þessir garðar tilheyrandi einum fyrsta matjurtagarði á Íslandi. Þá er ekki minnst á álfaklettinn Ófeigskirkju við Engidalsstíg eða rúst á Grænhóli þar rétt hjá .

Verði af framlengingu Vífilsstaðavegar mun Móslóði hverfa undir hann. Ekki var þó talin ástæða til að gera þar fornminjaskáningu. Eftir stígnum sóttu kynslóðirnar í Garðahverfi sér mó í mýrar þar sem nú er byggð í Garðabæ upp af Arnarnesvogi.

Mikið hefur verið fjallað um klettinn Ófeigskirkju. Talið er að hann hafi verið brotin niður við vegabætur árið 1908, þegar verið var að gera veg yfir hraunið út á Álftanes. Um þetta eru skiptar skoðanir. Jónatan Garðarsson sem er allra manna fróðastur um örnefni í Búrfellshraunum og víðar, hefur það eftir afa sínum að Ófeigskirkja sé umræddur klettur við Engidalsstíg. Talin var vera álfabyggð í klettinum og litið á hann sem álagaklett og náttúruvætti. Enginn hefði vogað sér að brjóta niður álfaklett.

Fyrirhugaður Álftanesvegur mun koma mjög nærri Ófeigskirkju og Grænhóli og liggja síðan að hluta á þeirri leið þar sem Engidalsstígur er. Þá mun vegurinn liggja þvert yfir Móslóða og Garðagötu og rétt við garðrústirnar hjá Garðastekk. Það er mikil firra að halda því fram að fornminjum sé bjargað, fari þær ekki undir mannvirki. Nálægð við vegi og umferðarhávaða sviftir fornminjarnar þeirri tímalausu ró sem þar hefur ríkt og rífur tengslin við umhverfið.

Jóhannes S Kjarval og Kjarvalsklettar.

Nefnt hefur verið að aðkoma Hraunavina hafi á sínum tíma bjargað Kjarvalsklettum frá því að þeir hefðu farið undir byggingarlóðir. Því miður liggur hluti af byggðinni í Prýðishverfi allt of nærri klettunum og ræður því væntanlega þekkingarskortur. Um 20 ára skeið málaði Kjarval þessa kletta og umhverfi þeirra. Er talið að málverkin séu milli 50 og 70 og sum hver þeirra voru sögð máluð á Þingvöllum. Margar af þeim eru taldar með bestu myndum Kjarvals. Kjarval málaði einnig víðar í Búrfellshrauni s.s. í Vífilsstaðahrauni og Svínahrauni.

Ólafur Gíslason listfræðingur hefur lýst einstöku sambandi Kjarvals við Kjarvalskletta (Kjarvalsklett) en listamaðurinn kallaði klettinn gjarnan Gálgaklett. Engar tvær myndir voru eins og það var sem listamaðurinn sæi inn í klettinn og kletturinn væri orðinn hluti af Kjarval. Þessi staður væri merkur staður í listfræðilegu tilliti og dæmi um tengsl náttúru og listar.

Fleiri málarar hafa eytt mörgum stundum við að mála í Gálgahrauni og víðar í hraununum. Má þar nefna Eirík Smith, Pétur Friðrik og Guðmund Karl.

Meistari Kjarval opnaði á sínum tíma augu Íslendinga fyrir töfrum og dulúð hraunsins.Fram að því þótti flestum hraunið ljótt og torfarið. Nú eru myndir Kjarvals úr Gálgahrauni notaðar við kennslu í listaheimspeki við Listaháskóla Íslands.

Því er haldið fram að fyrirhugaður Álftanesvegur raski ekki Kjarvalsklettum þar sem vegurinn liggi ekki yfir þá. Verði hins vegar af framlengingu Vífilsstaðavegar, verða klettarnir eins og innilokaðir í búri og búið að rjúfa tengsl þeirra við hraunið í kring. Nú stendur til að friðlýsa hluta Búrfellshrauns m.a. þann hluta Gálgahrauns/Garðahrauns sem liggur næst Hraunsholti og Ásahverfi í Garðabæ. Það er athyglisvert að ekki á að friðlýsa Kjarvalskletta eða fyrirhugað vegstæði Vífilsstaðavegar í hrauninu.

Hringtorgið á Álftanesi.

Í allri umfjöllun um fyrirhugaðan Álftanesveg er því jafnan haldið fram að framkvæmdir hafi hafist við veginn árið 2009 með gerð hringtorgs á Álftanesi við vegamótin að Bessastöðum. Þar með sé enn í gildi umhverfismat frá 2002 til tíu ára en umhverfismat fellur úr gildi, hefjist framkvæmdir ekki innan tíu ára frá gerð þess.

Í umhverfismatsskýrslunni 2002 frá Skipulagsstofnun er jafnan notað orðalagið ,,að hringtorgi í Bessastaðahreppi”þegar fjallað er um Álftanesveginn fyrirhugaða. Samkvæmt því orðalagi virðist ekki litið svo á að umrætt hringtorg sé hluti vegarins, heldur sjálfstæð framkvæmd. Engum sem fer um þetta hringtorg dettur í hug að þar með sé viðkomandi kominn á Álftanesveg. Torgið þjónar augljóslega innanbæjarumferð á Álftanesi, ekki síst til og frá Bessastöðum.

Þá er framkvæmdaleyfi fyrir veginum hengt á þetta hringtorg á sömu forsendum og þar með sé það enn í gildi.

Hraunavinir hafa ítrekað gert athugasemdir við og mótmælt þeirri niðurstöðu að umhverfismat og framkvæmdaleyfi séu enn í gildi . Þá hafa íbúar í Prýðishverfi haldið því sama fram með bréfum til Vegagerðarinnar og fleiri. Alltaf kemur sama svarið – Skipulagsstofnun úrskurðaði að hvorutveggja sé í fullu gildi. Með gerð hringtorgsins hófst því vinna við Álftanesveginn nýja! Löglegt en siðlaust? Kannski er það þannig. Upp á þetta allt hefur svo úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skrifað! Ekki verði svo gengið gegn skipulagsvaldi Garðabæjar.

Í þessari umfjöllun um Álftanesveginn og hringtorgið, kemur vel í ljós hvernig stofnanavaldið stendur saman gegn almannavaldi og rétti sem umhverfis- og náttúruverndarsamtök byggja stöðu sína á.

Allt óbreytt – ekki þörf á neinni endurskoðun.

Það er niðurstaða greinargerðar þeirra Hreins og Gunnars að engar forsendur hafi breyst og því þurfi ekki að endurmeta eitt eða neitt. Þetta þýðir m.a. að áform um framlengingu Vífilsstaðavegar samkvæmt skipulaginu frá 1995 eru óbreytt. Einnig áform um allt að átta þúsund manna byggð á Garðaholti. Umhverfismatið frá 2002 miðast svo við þessar forsendur.

Þá er enn opinn sá möguleiki að fjölga akreinum fyrirhugaðs Álftanesvegar úr tveim í fjórar. Einnig að það þurfi hugsanlega að gera hljóðmanir við veginn.

Langtímamarkmiðið er að tengja saman sem eina heild: Hraunsholtið og Ásahverfið, byggðina í Garðahrauni/Gálgahrauni og síðan á Garðaholti. Til að ná þessu markmiði er hrauninu ,,fórnað”. Þannig var það í Vífilsstaðahrauninu og þannig verður það áfram.

Það er gott að menn geri sér grein fyrir þessu, ekki síst þeir sem vilja standa vörð um möguleika fólks til útivistar og náttúruskoðunnar. Nýr Álftanesvegur er bara byrjunin.

Á sl. 10-15 árum hafa viðhorf til umhverfis- og náttúruvendarmála gjörbreyst. Fólki sem nýtur útivistar fjölgar með ári hverju. Hreyfing er lykill að betri heilsu. Útivistarsvæði í þéttbýli verða því stöðugt verðmætari. Að ekki sér þörf á nýju umhverfismati um vegi í Gálgahrauni er því eins og að fá framan í sig kalda vatnsgusu.

Friðlýsing alls Búrfellshrauns.

Til að stöðva áframhaldandi eyðileggingu í Búrfellshrauni er aðeins eitt ráð – að friðlýsa það sem eftir er.

Þann 21. maí sl. var haldið mjög fróðlegt málþing um Búrfellshraun og helgað minningu Guðmundar Kjartanssonar jarðfræðings. Í erindum á málþinginu kom vel fram hversu margbrotið og fjölbreytt Búrfellshraunið er en það er samheiti á fjölda hrauna, bæði í Garðabæ og Hafnarfirði.

Þegar norðurbærinn byggðist upp í Hafnarfirði, hvarf stór hluti af þessu hrauni – Hafnarfjarðarhrauninu. Eftir eru að mestu klettar á stangli, einkum í elstu hverfunum. Nú má helst ekki snerta þessa kletta. Framsýnir menn björguðu og bjuggu til Hellisgerði. Víðistaðatúnið er á sínum stað og það er nýbúið að friða hluta af Mölunum og Hleinunum. Ofan Hafnarfjarðar er Gráhelluhraun og það er stöðugt sótt inn í hraunið. Hið sama á við um Urriðakotshraun meðfram golfvellinum. Golfarar vilja leggja golfbrautir í hrauninu. Jafnvel skógræktarmenn hafa sótt í hraunin og breytt mjög ásýnd þeirra. Það má því segja að það eru síðustu forvöð að bjarga því sem eftir er af Búrfellshrauni, bæði í Hafnarfirði og Garðabæ.

Á sínum tíma voru stórir hlutar Búrfellshrauns innan bæjarmarka Garðabæjar settir undir bæjarvernd. Almennt var litið svo á að hraunið norðan við Álftanesveginn ætti að vernda.

Það var svo sett á náttúruverndarskrá  árið 1996 en á þá skrá eru settir staðir, sem talið er að ætti að friðlýsa síðar.

Í lögum um náttúruvernd frá 1999 er ákvæði, þar sem tekið er fram að eldhraun skuli njóta sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er. Við síðustu breytingar á náttúruverndarlögum er skerpt á þessu ákvæði.

Bent hefur verið á að Ísland hafi alþjóðlegar skyldur varðandi verndun einstakra jarðmyndana. Jafnvel hefur  verið rætt um að setja ætti Gálgahraun á heimsminjaskrá UNESCO – Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Eftir fund Hraunavina með Ólafi Ragnari Grímssyni forseta í október sl. var bókað á heimasíðu forsetaembættisins:

,,Mikilvægt sé að framkvæmdir á þessu svæði leiði ekki til þess að fórnað sé stöðum sem hafa mikið gildi í menningar- og listasögu Íslendinga og að hin einstæða náttúra Álftaness sé varðveitt í þágu komandi kynslóða”

Álfar og dvergar.

Í deilunum um Álftanesveginn og Gálgahraunið  hefur álfa og aðrar vættir nokkuð borið á góma. Ýmsir skopast að þjóðtrúnni og aðrir lýsa vanþóknun sinni á því að gera ,,meinta” búsetu þeirra í hrauninu að forgangsmáli fram yfir hagsmuni íbúa á svæðinu.

Það er ekki síst Ófeigskirkja sem er tekist á um.

Fyrir nokkru gerði Erla Stefánsdóttir tónlistarkennari og sjáandi vættakort af Hafnarfirði. Nú eru farnar vinsælar ferðir um vættaslóðir í Hafnarfirði sem annar sjáandi, Ragnhildur Jónsdóttir stendur fyrir. Vættakort hafa nú verið gerð af mörgum öðrum stöðum. Margir bera virðingu fyrir vættatrúnni og líta svo á að hún sé þáttur í þjóðmenningu Íslendinga.

Þær Erla og Ragnhildur hafa báðar nýlega komið að Ófeigskirkju og Ragnhildur kom einnig að Kjarvalsklettum. Þær vöruðu báðar mjög við framkvæmdum á þessum stað.

Nokkur mál hafa komið upp á liðnum árum og áratugum þar sem varað hefur verið við vegalagninu á tilteknum stöðum vegna meintra álaga. Hvað sem líður trú manna, þá hefur Vegagerðin oft tekið tillit til þessa og reynt að haga framkvæmdum í sátt við ,,hulduheima”.

Niðurstaða Hraunavina.

Afstaða Hraunavina til nýs Álftanesvegar hefur frá stofnun félagins verið ljós: Hlífa hrauninu eins og kostur er. Nú er framundan að endurskoða það aðalskipulag sem gilt hefur fyrir Garðabæ og Álftanes fram að þessu og eiga hugsanlegar breytingar að eiga sér stað eigi síðar en árið 2016. Við þá endurskoðun leggja Hraunavinir eftirfarandi til:

Stefna að friðlýsingu alls Búrfellshrauns innan marka Garðabæjar eins fljótt og kostur er. Beina því sama til Hafnarfjarðarbæjar.

Hætta við lagningu Álftanesvegar um ósnortið hraunið og nýta í þess stað, núverandi vegstæði yfir hraunið.

Laga núverandi veg með tilliti til umferðaröryggis tímabundið, þar til gerð nýs vegar liggur fyrir samkvæmt nýju aðalskipulagi.

Fella framlengingu Vífilsstaðavegar um Gálgahraun og Garðahraun út af aðalskipulagi.

Skipulagning nýs íbúahverfis á Garðaholti verði með þeim hætti að tekið sé tillit til merkra sögulegra minja, búskaparhátta í dag og sérstakrar náttúru.

Í lokin.

Á þeim árum sem Hraunavinir hafa starfað hefur flestum ráðum verið beitt til að vekja athygli á því umhverfisslysi, sem hlytist af lagningu nýs Álftanesvegar um ósnortið hraun. Haldnir hafa verið fundir með ráðamönnum m.a. nokkrum umhverfisráðherrum, fjöldi bréfa skrifuð, margar greinar birst í blöðum og viðtöl í ýmsum fjölmiðlum, farið í göngur um hraunin, haldnir mótmælafundir m.a. fjölmennur fundur í félagsheimili Vídalínskirkju sl. haust og svona má halda áfram. Allt snýst þetta um að varðveita umhverfi okkar eins og kostur er til komandi kynslóða.

En það hefur ekki bara verið mótmælt. Hraunavinir hafa í góðu samstarfi við Garðabæ staðið fyrir uppsetningu gönguleiðaskilta um Gálgahraun og farið í hreinsunarátak í hraunum sunnan Hafnarfjarðar í samstafi við Hafnarfjarðarbæ. Síðast stóðu Hraunavinir að málþingi um Búrfellshraun í samstarfi við Garðabæ og Hafnarfjarðarbæ ásamt Náttúrufræðistofnun Íslands. Að henni lokinni var safnast saman á Bala á mörkum Garðabæjar og Hafnarfjarðar og þar staðfestu bæjarstjórarnir með innilegu faðmlagi, samstarf um verndun hrauna, stranda og sögulegra minja sem tengir þessi bæjarfélög saman. Þannig vilja Hraunavinir sjá framtíðina.

3. júní 2013.

Í stjórn Hraunavina,

 

Reynir Ingibjartsson

Eiður S. Guðnason

Guðfinna Guðmundsdóttir

Gunnsteinn Ólafsson

Ingvar Arnarson.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *