Author Archives: Jónatan Garðarsson

Ársskýrsla stjórnar Hraunavina

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar sem Pétur Stefánsson fromaður Hraunavina flutti á aðalfundi félagsins sem haldinn var laugardaginn 6. nóvember í Haukshúsi á Álftanesi. Á fundinum voru tvö afskaplega fróðleg erindi flutt um deiliskipulag Garðahverfis og Heiðmerkur. read more »

Aðalfundur Hraunavina

Haukshús á Álftanesi

Aðalfundur Hraunavina verður haldinn í Haukshúsi á Álftanesi laugardaginn 6. nóvember kl. 14.00. Þetta er öðrum þræði fræðslufundur þar sem tveir mjög áhugaverðir fyrirlestrar um skipulagsmál verða haldnir. Þeir varða annarsvegar skipulagið á Garðaholti sem er afskaplega spennandi og hinsvegar skipulagið í þeim hluta Heiðmerkur sem tilheyrir Garðabæ.

Félagsmenn eru hvattir til að mæta og taka með sér gesti, því fundurinn er öllum opinn.

Dagskrá:

1. Fundur settur.

2. Halldóra Hreggviðsdóttir og Heiða Aðalsteinsdóttir hjá Alta fjalla um deiliskiplulag Garðahverfis á Garðaholti.

3. Þráinn Hauksson hjá Landslagi fjallar um deiliskipulag í Garðabæjarhluta Heiðmerkurlands.

4. Venjuleg aðalfundarstörf.

5. Önnur mál.

Selhraun og selminjar

Selhraun vestan við Hvaleyrarvatn er hluti af dyngjuhrauni sem er mest áberandi í kringum Skúlatún, sem er grasi gróinn óbrennishólmi rétt vestan við Helgafell. Jarðfræðingar hafa kallað þetta hraun einu nafni Skúlatúnshraun, en það ber líka ýmis önnur nöfn. Þar sem hraunið rann fram í sjó myndar það eldra Hellnahraun og heitir á kafla Hvaleyrarhraun. Aldur Selhrauns er ekki kunnur en það er sennilega ekki eldra en 3000-4000 ára. Þegar það rann myndaðist fyrirstaða í tveimur dalkvosum sem varð til þess að Hvaleyrarvatn og Ástjörn urðu til. read more »

Ný gönguleiðabók

Forsíða bókarinnar

Reynir Ingibjartsson, stjórnarmaður í Hraunavinum, gaf nýverið út bókina: Náttúran við bæjarvegginn – 25 gönguleiðir á höfuðborgarsvæðinu. Eins og nafnið gefur til kynna lýsir Reynir 25 hringleiðum á höfuðborgarsvæðinu. Flestar eru þær í námunda við vötn, ár eða strendur hér í nánasta umhverfi mesta þéttbýlissvæðis landsins. Þeir sem hafa áhuga á að kanna nýjar slóðir eða bæta við þekkingu sína á stöðum sem eru í snertifæri, ættu að tryggja sér eintak og fara út að ganga.    read more »

Suðvesturlína – athugasemdafrestur til 28. júlí 2010. Þeir sem ekki gera athugasemd teljast samþykkir línulögninni.

Suðvesturlína fer inn á óraskað svæði í Almenningi

Ágæt mæting var í göngu Hraunavina um fyrirhugað línustæði Suðvesturlína í Almenningi sem farin var miðvikudagskvöldið 9. júní. Veður var milt en það rigndi aðeins á göngufólkið því það gekk á með skúrum. Veðrið var ekki til trafala, enda gott að fá rigningaskúr þar sem mjög þurrt hefur verið að undanförnu. Gróðurinn í Almenningi er óvenju snemma á ferðinni og gróskan með mesta móti. Allt birki- og víðikjarrið er löngu orðið grænt og sóttist ferðin seint vegna þess að víða þurfti að krækja fyrir þéttvaxnar kjarrbreiður. Gróðurinn hefur tekið gríðarlegan vaxtakipp síðasta áratuginn og eru margar birkirunnar orðnir rúmlega tveggja metra háir.

Fyrst var komið við í Fjárborginni, en ef valkostur B verður valinn fyrir Suðvesturlínur munu háspennumöstrin liggja suðaustan við Fjárborgina á skógræktarsvæði þar sem byrjað var að plantá út fyrir tæplega 60 árum. Ef þessi línuleið verður valin mun nýja spennistöðin vera nokkur hundruð metra frá Gjáseli og línan fara yfir mitt selið og mjög nærri Straumsseli og Óttarsstaðaseli.

Línuleið A er illskárri kostur en línuleið B, þó svo að báðar eigi að fara um mjög merkilegt og fallegt náttúru- og minjasvæði sem nýtur hverfisverndar samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025. Að mati margra Hraunavina eru báðir kostirnir ómögulegir og mun nær hefði verið að setja allar raflínurnar í jörðu í núverandi línuvegastæði eins og gildandi aðalskipulag gerir ráð fyrir.

Línuleið A mun sneiða mjög nærri þremur seljum

Göngufólk lýsti yfir undrun sinni yfir þessum áformum og spurði ítrekað hvaða öfl það væru sem óskuðu eftir að flytja háspennulínuna svo sunnarlega í þetta fallega og gróna land. Svarið er einfalt. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa óskað eftir færslu línunnar.

Hægt er að lesa athugasemdir tveggja stjórnarmanna Hraunavina sem eru báðir Hafnfirðingar, hér fyrir neðan. read more »

Gönguferð miðvikudagskvöldið 9. júní

Fjárborgin verður á vegi göngumanna

Hraunavinir efna til kvöldgöngu í Almenningi næstkomandi miðvikudag 9. júní kl. 20.00. Mæting er kl. 20.00 skammt sunnan við Rallýkrossbrautina við Krýsuvíkurveg. Safnast verður saman við vegslóða sem liggur að skógræktarsvæðinu í Almenningi, en við hann er nokkuð áberandi vatnsverndarskilti. Reikna má með að gangan taki um 2-3 tíma, en tekið verður mið af veðri, skyggni og aðstæðum. read more »

Selja- og beitarhúsatóftir í lögsögu Garðabæjar

Selin voru stór þáttur í bændasamfélaginu á Íslandi frá fyrstu tíð og virðist sem selvenjur hafi að mestu flust hingað til lands frá Noregi. Selstöður voru einnig þekktar víðsvegar í mið og suður Evrópu, þannig að seljabúskapur var greinilega viðtekin venja um aldir. Hér á landi þróaðist seljabúskapurinn með álíka hætti og á norðurlöndum og átti drjúgan þátt í að beitarstýring var með allgóðu móti lengi vel, þó svo að það hafi ekki verið einhlítt. Á nokkrum stöðum voru byggð beitarhús þar sem áður voru sel en sum beitarhúsanna voru reist þar sem haglendi var gott, stundum í námunda við gamla fjárhella eða sauðaskjól. read more »

Sprungur í hraunum

Þriðjudaginn 2. mars 2010 féll kona í hraunsprungu á milli Húsfells og Valahnúka. Hún slapp óvenju vel og var heppin að vera ekki ein á ferð. Konan féll í gegnum u.þ.b. meters þykka snjóþekju og fékk síðan yfir sig töluvert magn af snjó sem hrundi á eftir henni ofan í sprunguna. Vinkona hennar slapp með því að kasta sér til hliðar og gat hringt eftir björgun. Fallið var um 4-5 metrar ofan í sprunguna og urðu björgunarsveitarmenn að síga eftir henni. Komst konan upp úr sprungunni lemstruð, marin og skelkuð, en óbrotin, sem betur fer.

read more »

Hús – House Project

Sex af sextán myndum af Slunkaríki Hreins Friðfinnssonar sem teknar voru sumarið 1974. Þessi mynd er fengin af heimasíðu listamannsins.

Slunkaríki eða House Project var listaverk sem Hreinn Friðfinnsson myndlistarmaður setti upp árið 1974 í Smalaskálakeri, en það er jarðfall í Smalaskálahæð. Jarðfallið er suðvestarlega í Smalaskálahæð í Hraunum suðvestur af Straumsvík, nánar tiltekið skammt frá Óttarstaðafjárborg, sem nefnist einnig Kristrúnarborg. Þangað liggur vegslóði af gamla Keflavíkurveginum, en afleggjarinn er til móts við Lónakots heimreiðina. Vegslóðinn var upphaflega notaður af vörubílstjórum sem sóttu hraungjall í rauðamelshól nærri Smalaskálakeri sem nefndist Óttarstaða Rauðamelur. Þar skammt norður af voru tveir allstórir rauðhólar sem nefndust Rauðamelur stóri og litli.

read more »

Náttúran í vetrarbúningi

Tíðin hefur verið einstaklega góð og varla hægt að tala um að veturinn hafi látið á sér kræla hér sunnanlands þó svo að Vestfirðingar, Norðlendingar og Austfirðingar hafi fengið sinn skammt af snjó og frosti. Lengi leit út fyrir að jólin yrðu rauð á Suðvesturhorninu en á Aðfangadagskvöld þyrluðust örfá snjókorn af himni og snjófölið þakti jörðina nægjanlega til að skapa þá stemningu sem við kjósum okkur yfir jólahátíðina. Hér eru nokkrar náttúrumyndir sem teknar voru í Almenningi í Hraunum á þriðja dag jóla. Njótið vel. read more »