12. 11. 2013 – 21.25
Í þeirri baráttu sem staðið hefur yfir um lagningu nýs Álftanesvegar yfir Gálgahraun, hefur Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, æ ofan í æ haldið því fram að félagið Hraunavinir hafi á sínum tíma samþykkt legu vegarins yfir hraunið. Er þá vísað til bréfs sem stjórn Hraunavina sendi þann 28. maí 2008 til skipulagsstjóra Garðabæjar. Síðast var þetta bréf lagt fram á fundi bæjarráðs 29. okt. sl.
Vegur á allt öðrum stað.
En hvað stendur þá í þessu bréfi og hvers vegna var það sent á sínum tíma? Tilefnið var að eigendur jarðarinnar Selskarðs kröfðust breyttrar legu vegarins í gegnum land jarðarinnar, augljóslega til að fá þar meira byggingarland fyrir sig. Þess vegna auglýsti skipulagsstjórinn tillögu að breyttri legu vegarins. Til upplýsingar þá liggur land Selskarðs utan við Gálgahraun.
Hraunavinum þótti ástæða til að skoða málið og í umræddu bréfi segir m.a.:
,,Hin nýja tillaga gerir ráð fyrir því að hinn nýi Álftanesvegur sveigi inn í væntanlega byggð á Garðaholti, kljúfi hana og liggi gegnum byggðina á alllöngum kafla”. Síðar segir: ,,Þegar og einkum af þessari ástæðu teljum við ríka ástæðu til að andmæla hinni framkomnu tillögu”.
Til upplýsingar þá er gert ráð fyrir því í aðalskipulagi Garðabæjar, að á Garðaholti rísi íbúabyggð með þúsundum íbúa. Eigendur Selskarðs vildu losna við veginn úr sínu landi og láta hann í þess stað liggja að hluta í gegnum fyrirhugað byggingarland Garðabæjar á Garðaholti, en það land er í eigu bæjarins.
Nú reynir hinn rökþrota bæjarstjóri að klína því á Hraunavini, að félagið hafi á sínum tíma samþykkt legu hins umdeilda vegar yfir Gálgahraun eða Garðahraun eins og bæjarstjórinn vill kalla það. Þvílík fjarstæða.
Skömmu eftir stofnun Hraunavina í apríl 2007, fór stjórn félagsins í gönguferð að hinum svokölluðu Kjarvalsklettum í Gálgahrauni ásamt bæjarfulltrúum og æðstu embættismönnum Garðabæjar. Þá stóð til að úthluta 10-12 lóðum til viðbótar í Prýðishverfinu norðan núverandi Álftanesvegar m.a. þar sem Kjarvalsklettar eru. Eftir þessa gönguferð hurfu þessar lóðir þegjandi og hljóðalaust út af skipulagi Garðabæjar. Svo leit út um tíma að ráðamenn bæjarins ætluðu að hlífa hrauninu við frekara raski.
read more »