Author Archives: Jónatan Garðarsson

Ganga sunnudaginn 2. desember kl. 11:00

Hraunavinir efna til gönguferðar um Gálgahraun sunnudaginn 2. desember, fyrsta sunnudag í aðventu. Safnast verður saman við innkeyrsluna inn í Prýðahverfi við Álftanesveg kl. 11:00 og gengið að Garðastekk. Á leiðinni verður staldrað við á nokkrum merkum stöðum og sagt frá því helsta sem fyrir augu ber. Öllum er frjálst að mæta og taka þátt í göngunni. Meðal annars verður komið við hjá Kjarvalsklettum en þeir eru á meðal allra merkilegustu fyrirmynda Jóhannesar Kjarvals myndlistarmanns sem kom að þessum klettum á hverju einasta ári í rúmlega 20 ár og málaði þar fjölmörg málverk sem eru til víða um landið. Nokkur málverk frá þessum stað eru í eigu erlendra safna, þjóðhöfðingja og listaverkasafnara. read more »

Tímamótafundur í Garðabæ

Borgarafundurinn um verndun Gálgahrauns sem Hraunavinir efndu til í safnaðarheimili Vídalínskirkju á fimmtudagskvöldinu 29. nóvember, tókst í alla staði mjög vel. Salurinn var þétt skipaður og fundarmenn sýndu fundarefninu mikinn áhuga. read more »

Samþykkt borgarafundar i Garðabæ 29.11.2012 um verndun Gálgahrauns og gerð Álftanesvegar

Borgarafundur  haldinn að frumkvæði Hraunavina í safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ 29. nóvember 2012 beinir þeim eindregnu tilmælum til bæjarstjórnar Garðabæjar að öllum  framkvæmdum við fyrirhugaða vegagerð í Gálgahrauni verði frestað meðan leitað verði annarra leiða til að finna endurbættum og öruggari Álftanesvegi stað í sátt við umhverfi og óspillta náttúru. read more »

Borgarafundur 29. nóvember í safnaðarheimili Vídalínskirkju

Borgarafundur um verndun Gálgahrauns

Borgarafundur um verndun Gálgahrauns

Fimmtudaginn 29. nóvember n.k. verður borgarafundur í safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ og hefst kl. 20. read more »

Keyrt á Kjarvalskletta

Fyrir skömmu skrifaði sá mæti verkfræðingur, Jónas Frímannsson grein í Morgunblaðið og gerði fyrirhugaðan nýjan Álftanesveg að umtalsefni. Greinin er skrifuð út frá sjónarmiði bíleigenda, sem aka um landið og virða útsýnið fyrir sér út um bílrúðurnar. Jónas sá þann kost mestan við nýjan veg um Gálgahraun (líka kallað Garðahraun), að þá gæfist svo gott tækifæri að horfa yfir Gálgahraunið, rifja upp sögur af sakamönnum sem hengdir voru í Gálgaklettum og hafa svo Bessastaði í baksýn. Þessi upplifun væri gott nesti í heimsóknum á forsetasetrið og kjörið umræðuefni við forsetann. 

Jónas nefndi í þessu samhengi, Höfðabakkabrúna yfir Elliðaárdalinn sem margir hefðu mótmælt, en allir væru sáttir við í dag, enda nyti fólk útsýnis yfir dalinn. Ég held nú að flestir séu fullhertir með að fylgjast með umferðinni á brúnni, en bæti sér það kannski upp með gönguferð um Elliðárdalinn.

En hvað um það.  Ýmsir muna kannski líka eftir umræðunni um lokun vegar um Almannagjá og fólk gæti ekki notið þess lengur að aka niður gjána og horfa út um bílrúðurnar. En gjánni var lokað fyrir bílum og nú er Almannagjá, líklega vinsælasta gönguleið á Íslandi. Engum myndi detta í hug nú að taka aftur upp bílaakstur um gjána, enda líka varasamt eins og dæmin sanna. Og hverjum myndi t.d. detta í hug að leggja veg gegnum Dimmuborgir í Mývatnssveit? Kæmist slík hugmynd í umræðu, myndi sá sem hampaði henni, ekki aka óhultur um Mývatnssveit ef ég þekki Mývetninga rétt.

Það var léttur húmor yfir grein Jónasar Frímannssonar, en það sama verður ekki sagt um bæjarstjórann í Garðabæ, sem í sjónvarpsviðtali, notaði sömu rök og Jónas, graf alvarlegur í bragði. Vegurinn sem átti að flýta för fyrir Álftnesinga og auka jafnframt á umferðaröryggi, var kynntur sem útsýnisvegur, þar sem njóta mætti Kjarvalskletta við vegbrúnina.

Fram að þessu hefur allur málflutningur gegn núverandi vegi byggst á því að hann væri svo hættulegur og slysagildrur við hvert bílmál (fótmál). Halda menn virkilega að bílstjórar sem horfa á aðra hönd á Kjarvalskletta og á hina til Bessastaða og Gálgakletta, auki á umferðaröryggið? Ekki einu sinni útskot eru sjáanleg á teikningum.  Reyndin yrði líklegast sú með nýjum vegi, að það verði frekar gefið í í hrauninu og tæpast mun hraunið hlífa þeim sem út af lenda. Ef einhver skynsemi er til staðar, ætti frekar að minnka umferðarhraða á nýjum vegi s.s. með ljósum, hringtorgum og þrengingum.  Og allt þetta er auðveldast að gera á núverandi en endurbættum vegi.

Það er nú orðið fátt um rök hjá ráðamönnum Garðabæjar fyrir fyrirhuguðum vegi um Gálgahraunið. Þvergirðingsháttur meirihlutans ræður för og ekki er hlustað á neinar tillögur og sáttaleiðir. En það er alltaf ljós í myrkrinu. Vonandi sér meirihlutinn í bæjarstjórn Garðabæjar, ljósið von bráðar. Það er betra en að ,,keyra á Kjarvalskletta”.

Reynir Ingibjartsson,

formaður Hraunavina.

FUNDUR UM VERNDUN GÁLGAHRAUNS

Fimmtudaginn 29. nóvember n.k. kl. 20 verður fundur í safnaðarheimili Vídalínskirkju að Kirkjulundi í Garðabæ.

 
Fundarefni er verndun Gálgahrauns og áform um nýjan Álftanesveg um hraunið.
 
Nánari dagskrá verður kynnt síðar.
 
HRAUNAVINIR.
 

Ályktun ársfundar Hraunavina

Ályktun sem samþykkt var á ársfundi Hraunavina og send til bæjarstjórnar Garðabæjar:

Ársfundur Hraunavina haldinn í Haukshúsi á Álftanesi 3. nóvember 2012 fagnar ákvörðun um sameiningu Álftaness og Garðabæjar í eitt sveitarfélag. Fundurinn beinir þeim eindregnu tilmælum til sveitarstjórnar hins nýja sveitarféags að hafist verði handa sem fyrst um gerð nýs aðalskipulags fyrir hið sameinaða sveitarfélag og framkvændum við fyrirhugaðan nýjan Álftanesveg verði frestað meðan sú skipulagsvinna fer fram. Öryggi vegfarenda og íbúa við Álftanesveg verði tryggt með einföldum skammtímalausnum uns endanleg lausn er fengin.

Áskorun til Alþingis

Eftirfarandi áskorun til Alþingis Íslendinga var samþykkt samhljóða á ársfundi Hraunavina: 

Á fjárlögum þessa árs eru markaðar 550 m.kr í nýjan Álftanesveg. Væntanlega hefur háttvirtru Alþingi verið ókunnugt um að hinn nýji Álftanesvegur styðst við nær 20 ára gamalt aðalskipulag Garðabæjar og er áformaður eftir endilöngu Gálgahrauni. Gálgahraun er á náttúruminjaskrá og er eina óraskaða apalhraunið sem eftir er á höfuðborgarsvæðinu. Hraunið geymir fyrirmyndir að miklum fjölda hraunmynda meistara Kjarvals, varðveitir fornar leiðir til Bessastaða og er einstök náttúru- og útilífsperla. Aðalfundur Hraunavina haldinn á Álftanesi 3. nóvember 2012 mótmælir því harðlega að skattfé borgaranna sé varið með þeim hætti að stórfelld og óafturkræf náttúruspjöll hljótist af og krefst þess að umræddri fjárveitingu verði frestað uns nýtt vegarstæði hefur verið valið sem samræmist nútíma sjónarmiðum um umhverfisvernd og sjálfsögðum rétti ófæddra Íslendinga.

Samþykkt samhljóða.

Frá Hraunavinum, félagi áhugamanna um byggðaþróun og umhverfisvernd í Álftaneshreppi hinum forna.

Stjórn Hraunavina

Stjórn Hraunavina sem kosin var á aðalfundi félagsins 1. nóvember 2014:

Aðalstjórn:

Gunnar Örvarsson

Gunnsteinn Ólafsson

Kristinn Guðmundsson

Margrét Pétursdóttir

Ragnhildur Jónsdóttir

Varamenn eru:

Ragna Dagbjört Davíðsdóttir

Ragnar Unnarsson