Dagur íslenskrar náttúru var haldinn 16. september 2012 í annað sinn og heppnaðist vonum framar. Fjöldi fólks víða um landið tók þátt í verkefnum dagsins á einn eða annan hátt og það er nokkuð ljóst að þessi dagur verður í hávegum hafður næstu árin.
Hraunavinir efndu til hreinsunarátaks í Hraunum sunnan Straumsvíkur í fyrra á þessum merka degi, sem er afmælisdagur Ómars Ragnarssonar. Þá voru hreinsuð nokkur tonn af drasli úr gjótum, námum og klettaskorum, en það sá varla högg á vatni þar sem umgengnin hefur verið mjög slæm í marga áratugi á þessu landsvæði. Skólabörnin sem tóku þátt í fyrra sýndu að þau voru vandanum vaxin og leikurinn endurtók sig í ár. Krakkarnir voru stórkostlegir, allir með tölu, og það þarf ekki að kvíða framtíðinni ef æska landsins sýnir jafn mikinn dugnað og þessir krakkar gerðu. Nemendur úr þremur grunnskólum í Hafnarfirði mættu föstudaginn 14. september ásamt kennurum og öðru starfsliði skólanna og skiluðu frábæru starfi. read more