Í þeirri baráttu sem staðið hefur yfir um lagningu nýs Álftanesvegar yfir Gálgahraun, hefur Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, æ ofan í æ haldið því fram að félagið Hraunavinir hafi á sínum tíma samþykkt legu vegarins yfir hraunið. Er þá vísað til bréfs sem stjórn Hraunavina sendi þann 28. maí 2008 til skipulagsstjóra Garðabæjar. Síðast var þetta bréf lagt fram á fundi bæjarráðs 29. okt. sl.
Vegur á allt öðrum stað.
En hvað stendur þá í þessu bréfi og hvers vegna var það sent á sínum tíma? Tilefnið var að eigendur jarðarinnar Selskarðs kröfðust breyttrar legu vegarins í gegnum land jarðarinnar, augljóslega til að fá þar meira byggingarland fyrir sig. Þess vegna auglýsti skipulagsstjórinn tillögu að breyttri legu vegarins. Til upplýsingar þá liggur land Selskarðs utan við Gálgahraun.
Hraunavinum þótti ástæða til að skoða málið og í umræddu bréfi segir m.a.:
,,Hin nýja tillaga gerir ráð fyrir því að hinn nýi Álftanesvegur sveigi inn í væntanlega byggð á Garðaholti, kljúfi hana og liggi gegnum byggðina á alllöngum kafla”. Síðar segir: ,,Þegar og einkum af þessari ástæðu teljum við ríka ástæðu til að andmæla hinni framkomnu tillögu”.
Til upplýsingar þá er gert ráð fyrir því í aðalskipulagi Garðabæjar, að á Garðaholti rísi íbúabyggð með þúsundum íbúa. Eigendur Selskarðs vildu losna við veginn úr sínu landi og láta hann í þess stað liggja að hluta í gegnum fyrirhugað byggingarland Garðabæjar á Garðaholti, en það land er í eigu bæjarins.
Nú reynir hinn rökþrota bæjarstjóri að klína því á Hraunavini, að félagið hafi á sínum tíma samþykkt legu hins umdeilda vegar yfir Gálgahraun eða Garðahraun eins og bæjarstjórinn vill kalla það. Þvílík fjarstæða.
Skömmu eftir stofnun Hraunavina í apríl 2007, fór stjórn félagsins í gönguferð að hinum svokölluðu Kjarvalsklettum í Gálgahrauni ásamt bæjarfulltrúum og æðstu embættismönnum Garðabæjar. Þá stóð til að úthluta 10-12 lóðum til viðbótar í Prýðishverfinu norðan núverandi Álftanesvegar m.a. þar sem Kjarvalsklettar eru. Eftir þessa gönguferð hurfu þessar lóðir þegjandi og hljóðalaust út af skipulagi Garðabæjar. Svo leit út um tíma að ráðamenn bæjarins ætluðu að hlífa hrauninu við frekara raski.
Stöðug barátta í fjögur og hálft ár.
Þá gerðist það 5. mars 2009 að Garðabær samþykkir framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Álftanesvegar meðal annars yfir ósnortið Gálgahraun. Strax hófst barátta Hraunavina gegn þessari vegarlagninu og þann 6. apríl ritaði stjórn Hraunavina, ítarlegt bréf til bæjarstjórnar Garðabæjar og lagði til að framkvæmdum yrði frestað og aðrir möguleikar skoðaðir. Lagning vegarins á fyrirhuguðum stað væri tímaskekkja og hreint og klárt stórslys.
Þessi barátta hefur staðið nær látlaust síðan eða í fjögur og hálft ár.
Gunnar Einarsson bæjarstjóri sækist nú eftir fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ í sveitastjórnakosningum að vori. Hann tók við bæjarstjórastarfinu af Ásdísi Höllu Bragadóttur, sem á sínum tíma opnaði allar dyr í hrauninu sunnan Vífilsstaða með þeim afleiðingum sem allir sjá í dag. Eftir það slys vonuðu margir að nýi bæjarstjórinn hefði dregið af því lærdóm og bæði meirihlutann að fara varlega í Gálgahrauni og Garðahrauni. Svo virðist hins vegar að fremstur í baráttunni fyrir nýjum Álftanesvegi á undanförnun árum sé sjálfur bæjarstjórinn.
Ímynd Garðabæjar stórlöskuð.
Garðabær hefur hælt sér af því á góðum stundum og oft með réttu að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum. Þar hafa komið að ýmsir mætir menn m.a.fyrsti sveitarstjóri í Garðabæ, þá Garðahreppi, Ólafur G. Einarsson, fyrrv. ráðherra og Pétur Stefánsson, verkfræðingur og fyrsti formaður Hraunavina. Hætt er við að ekki fái Garðabær háa einkunn í dag fyrir vörslu náttúruverðmæta.
Það vegarnesti sem Gunnar bæjarstjóri leggur með sér í umhverfisverndarmálum er ekki glæsilegt. Deilan um Álftanesveg og Gálgahraun mun verða svartur blettur á ímynd Garðabæjar um ókomin ár. Bæjarstjórinn er sannarlega kominn á gálgafrest.
Reynir Ingibjartsson,
formaður Hraunavina.