Búrfell og Búrfellsgjá eru í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins við suðausturenda Vífilsstaðahlíðar. Þetta er ein af mörgum perlum í Heiðmörk, einu vinsælasta útivistarsvæði landsins. Það er auðvelt að ganga á Búrfell með viðkomu í fjárréttinni sem er í botni gjárinnar. Skammt frá Búfellsgjá eru vallgrónir vellir sem nefnast Garðavellir. Þar eru húsatóftir í brekkurótum sem enginn veit hversu gamlar eru. Sagnir eru um að þar hafi Garðakirkja staðið til forna. Það verður enginn svikinn af gönguferð um Búrfellsgjá. Búrfell er eldgígur í um 7 km fjarlægð suðaustur af Hafnarfirði og Garðabæ. Fellið er nánast hringlaga og hæsti gígbarmurinn er í um 179 m y.s. en dýptin á sjálfum gígnum er 58 m miðað við hæsta barm, en 26 m þar sem hann er lægstur. Ummál gígsins er 140 m þar sem hann er breiðastur. Búrfell og nærliggjandi hraunsvæði eru á misgengisbroti sem hefur sigið talsvert eftir gos. Þegar horft er af gígbrún Búrfells blasir Helgadals sigdældinni við í vestri en Hjallamisgengið í norðri.
Búrfellshraun varð til í einu flæðigosi fyrir um 7200 árum, samkvæmt aldursgreiningu á mó sem fannst undir hrauninu við Bala í Garðahverfi. Stórbrotið apalhraunið hefur myndað mikið landflæmi þegar það rann fram í tveimur megin hraunstraumum eftir dalkvosum og fyllti voga og víkur. Vestari hraunrásin nefnist Lambagjá en nyrðri rásin Búrfellsgjá. Líklega hefur vestasti hlutinn horfið undir yngri hraun og mikið landbrot hefur átt sér stað við strandlengjuna á sjö öldum. Erfitt er að reikna nákvæmlega út hvert heildarflatarmál hraunsins hefur verið en núverandi flatarmál Búrfellshrauns er um 18 ferkílómetrar. Það myndar stóran hluta þess landsvæðis sem byggðirnar í Hafnarfirði og Garðabæ standa á.
Nafnið Búrfellshraun er tiltölulega nýtt og nær yfir heildarfláka þess hrauns sem kom frá gígnum. Áður en jarðfræðingar fóru að kanna svæðið skiptist hraunið í marga mismunandi hluta sem báru margbreytileg nöfn. Suður, vestur og norður af gígnum eru t.d. Kringljóttagjá, Helgadalshraun, Smyrlabúðarhraun, Gjárhraunin og Sléttuhlíðarhraun. Nær Hafnarfirði eru Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjahraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og Hafnarfjarðarhraun, sem nefnist Balahraun norðvestast. Garðabæjarmegin eru Garðaflatir, Búrfellsgjá og Selgjá. Næst eru Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Flatahraun, Hraunholtshraun, Engidalshraun, Klettahraun (Klettar) og Gálgahraun.
Búrfellsgjá
Búrfellsgjá er rómuð fyrir fegurð og þar er vinsælt útivistarsvæði. Gjáin sjálf er 3,5 km löng og þrengst rétt neðan við gíginn þar sem hún er ekki nema 20-30 m breið. Gjáin breikkar eftir því sem fjær Búrfelli dregur og er um 300 m breið þar sem Gjáarrétt og Réttargerðið eru. Framhald Búrfellsgjár er Selgjá sem stendur miklu hærra í landinu vegna misgengisins sem liggur þvert á hrauntröðina. Víða slúta gjárveggirnir bogadregnir inn yfir gjána og mynda skúta. Hlaðið hefur verið fyrir flesta skútana sem voru nýttir sem fjárskjól þegar vetrarbeit var enn stunduð í upplandinu. Stærsti skútinn er í Réttargerðinu og þar skammt frá er fallega hlaðin fjárrétt á sléttum traðarbotninum sem nefnist Gjárétt, en líka nefnd Gjáarrétt og var fjallskilarétt Álftaneshrepps hins forna. Vatnsgjá er þar skammt undan í missgengissprungu. Allar mannvistarminjar s.s. réttin, gerðið og hleðslur við skúta eru friðlýstar.
Gönguferð
Algengast er að leggja í göngu að Búrfelli frá Selgjár misgenginu við suðausturenda Vífilsstaðahlíðar í Heiðmerkurlandi. Leiðin er vel mörkuð að Gjárétt og Réttargerðinu. Síðan liggur leiðin eftir nokkuð sléttri hrauntröðinni sem hækkar þegar komið er að Búrfelli. Umhverfis Búrfell eru laust hraungjall, hvassar hraunstrýtur og goskleprar. Skammt sunnan við fellið, þar sem vestari gosrásin hefur verið er fallega mótuð lægð sem nefnist Kringlóttagjá. Aflíðandi hlíðar fellsins eru að mestu gróðursnauðar, en þegar neðar dregur eru dalkvosir grónar lyngi, mosa, birki, víði, eini og margvíslegum lággróðri sem áhugavert er að skoða nánar.
Þeir sem kjósa að ganga á Búrfell frá Kaldárseli ættu ekki að vera í neinum vandræðum því fellið blasir við, þó svo að ekki sé eins vel mótuð gönguleið og um Búrfellsgjá. Það er kjörið að koma við í Helgadal og skoða hraunhellana þar og ganga síðan á Búrfell. Á bakaleiðinni er nauðsynlegt að koma við í Músarhelli og gróðurreitinn undir Valahnúkum.
© Jónatan Garðarsson