Category Archives: Félagsstarf

Félagsstarf

Félagsstarf

Sólstöðuganga 21. júní 2012 kl. 20.00

Fimmmtudagskvöldið 21. júní kl. 20.00 efna Hraunavinir til Sólstöðugöngu í Hraunum við Straumsvík. Öllum er velkomið að taka þátt í göngunni og ekki þarf að greiða neitt gjald enda er gangan farin til að kynna hvað hraunin á félagssvæði Hraunavina hafa upp á að bjóða.   

Safnast verður sama við húsið Gerði skammt frá álverinu í Straumsvík.

Reynir Ingibjartsson leiðir gönguna en gönguleiðabók hans um 25 gönguleiðir á Reykjanesskaga er nýlega komin út. Ætlunin er að fylgja Alfaraleiðinni frá Gerði að Kristrúnarborg og síðan að fara gamla Keflavíkurveginn til baka að Gerði. Þetta er sama leið og merkt er nr. 2 í bók Reynis, þannig að göngufólk fær smjörþefinn af því hverskonar leiðir um er að ræða. Reynir mun fræða fólk á leiðinni og leggja áherslu á merka staði, mannvistarminjar og náttúrufyrirbæri. Hann mun  rifja upp sitthvað sem tengist örnefnum, kennileitum og staldra við á nokkrum stöðum á leiðinni. Það er sjálfsagt að hafa nesti meðferðist og svo er skynsamlegt að hafa skjólfatnað því að kólnar þegar líður að kvöldi.  read more »

Félagsstarf

Gönguferð að Lónakoti notuð til að fræðast og hreinsa drasl við ströndina

Sunnudaginn 22. apríl 2012 efndu Hraunavinir, Fugla- og náttúruverndarfélag Álftaness og Félag áhugamanna um sögu Bessastaðaskóla til göngu um Hraunin að Lónakoti.

Klukkan hálf tvö var fjölmenni mætt á bílaplanið hjá listamiðstöðinni í Straumi eða 55 manns og síðan var gengið um Straums- og Óttarstaðaland og að Lónakoti í blíðskaparveðri. Oft var stoppað á leiðinni og skoðaðar minjar um búsetu í Hraunum og fræðst um mannlíf að fornu og nýju. Er hægt að fullyrða að allt þetta svæði kom fólki þægilega á óvart.

Á bæjarhólnum í Lónakoti var nestissnæðingur og á leiðinni til baka var hugað frekar að ströndinni og minjum þar. Þá höfðu göngumenn með sér svarta ruslapoka og fylltust þeir allir af ýmis konar plastrusli. Ekki var hins vegar hreyft við rekavið og netakúlum.

Þetta var því hin besta þrifaferð og viðkomandi félögum til sóma.

Félagsstarf

Gönguferð um Hraunin að Lónakoti

Sunnudaginn 22. apríl standa Hraunavinir, Fugla- og náttúruverndarfélag Álftaness og Félag áhugamanna um sögu Bessastaðaskóla að gönguferð um Hraunin að Lónakoti kl. 13:30. Allir eru hvattir til að mæta og uppgötva þennan stórmerkilega stað með fjölda náttúru- og mannvistarminja svo nærri höfuðborgarsvæðinu.   read more »

Félagsstarf

Viltu gerast félagi í Hraunavinum

Hraunavinir er félag fjölmargra áhugamanna um náttúruvernd og byggðaþróun í Hafnar­firði, Garðabæ og á Álftanesi. Félagið leggur einkum áherslu á hið sérstæða umhverfi, hraun, vötn og strendur sem teljast til bæjarlanda þessara þriggja sveitarfélaga. Skiplagsmál snerta félagsmenn til jafns við umgengni við náttúruna og nærumhverfið. Félagið leggur áherslu á samvinnu við sveitastjórnir og aðra um að skipulag framkvæmda fari fram í góðri sátt við íbúana og með virðingu fyrir fallegu umhverfi og náttúru.

Þeir sem skipa stjórn Hraunavina eru:

Pétur Stefánsson, formaður pshs@internet.is

Ólafur Proppé, ritari proppe@hi.is

Þorsteinn Þorsteinsson, gjaldkeri thorst@fg.is

Guðfinna Guðmundsdóttir, meðstjórnandi gudfinna@hafnarfjordur.is

Reynir Ingibjartsson, meðstjórnandi reyniring@internet.is

Ef þú hefur áhuga á að gerast félagi getur þú sent tölvupóst á netfang einhvers stjórnamanna eða á Jónatan Garðarsson umsjónarmann heimasíðu Hraunavina jonatang@simnet.is. Ekkert félagsgjald er innheimt.

Það sem þarf að koma fram í tölvupóstinum er nafn, kennitala, heimilisfang, netfang og símanúmer.

Félagsstarf

Grænavatnsganga í tilefni aldarminningar Sigurðar Þórarinssonar

Þann 8. janúar 2012 verða liðin 100 ár frá fæðingardegi Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings, eins ástsælasta vísindamanns þjóðarinnar á síðustu öld.

Á þessum degi ætla félög og samtök sem tengjast náttúruvísindum, náttúruvernd og útiveru að efna til blysfarar kringum Grænavatn í Krýsuvík.  

Brottför með rútu frá skrifstofu Ferðafélags Íslands Mörkinni 6 kl. 14, sunnudaginn 8. janúar. Fargjald í rútur er kr. 1000 og greiðist við brottför.  Þeir sem fara á einkabílum greiða ekki gjald.  Þátttakendum í gönguferðinni eru útveguð blys en fólk er einnig hvatt til að taka með sér eigin blys eða kyndla.  read more »

Félagsstarf

Gleðileg jól

Hraunavinir fagna Vetrarsólstöðum sem voru 22. desember að þessu sinni og nú er sólin farin að hækka á lofti á nýjan leik. Nýtt tungl, sjálft jólatunglið, kviknaði 24. desember og þar með hófst 10. vika vetrar. Stutt er til áramóta en að fornu voru áramót við þessi tvenn tímamót þegar sól tók að hækka á lofti og jólatunglið kviknaði.

Svo vel vill til að margar þjóðir halda hátíðir um þessar mundir til að fagna væntanlegum umskiptum náttúrunnar og einnig til að einblína á kærleikann, nýtt og betra líf og bjartari framtíðarhorfur. read more »

Félagsstarf

Hraunavinir fá viðurkenningu

Stjórn Hraunavina var boðið að mæta í húsnæði Framkvæmdasviðs Hafnarfjarðarbæjar á Norðurhellu 2 þriðjudaginn 8. nóvember 2011. Ástæðan var sú eftirfarandi bókun hafði verið gerð á fundi Umhverfis- og framkvæmdasviðs 5. nóvember:  

Skipulags- og byggingarráð og Umhverfis- og framkvæmdaráð fagna því hve vel tókst til með hreinsun hraunsins þann 16. september og færa þeim sem þar tóku þátt bestu þakkir fyrir þeirra framlag. Sérstaklega er Hraunavinum þakkað þeirra frumkvæði að þessu hreinsunarátaki. Lagt er til að 16. september verði árlega dagur hreinsunar og er umhverfisteymi ráðanna falið að vinna áfram að því máli.

read more »

Félagsstarf

Aðalfundur Hraunavina 12. nóvember kl. 11:00

Þetta er leiðin að Haukshúsi

Aðalfundur Hraunavina verður haldinn í Haukshúsi á Álftanesi laugardaginn 12. nóvember kl. 11.00 um morguninn.

Aðalfundurinn er jafnframt kynningarfundur á gildi Árósarsamningsins um umhverfisvernd og mannréttindi sem nýlega var samþykktur á Alþingi. Samningurinn veitir áhugafólki um umhverfismál og náttúruvernd möguleika á að hafa áhrif á og gera athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir sem snerta ósnortna náttúru eða tengjast menningarminjum.  read more »

Félagsstarf

Vel heppnað hreinsunarátak

Dagur íslenskrar náttúru var haldinn hátíðlegur með ýmsu móti föstudaginn 16. september á 71. árs afmælisdegi Ómars Ragnarssonar fjölmiðlamanns og náttúruunnanda. Var þetta í fyrsta sinn sem Dagur íslenskrar náttúru var haldinn og Hraunavinir notuðu tækifærið og efndu til hreinsunarátaks í hrauninu sunnan og vestan Straumsvíkur í góðri samvinnu við Framkvæmdasvið Hafnarfjarðarbæjar, landeigendur, skóla, sjálfboðaliða og nokkur fyrirtæki. Félagsmenn fjölmenntu í Hraunin eins og svæðið heitir frá fornu fari og nutu liðsinnis fjölda sjálfboðaliða við að hreinsa allskyns rusl og drasl sem hefur verið skilið eftir úti á víðavangi í fallegri náttúrunni. Vakti þetta athygli fjölmiðlanna og var fjallað um hreinsunarátakið í kvöldfréttum RÚV og Stöðvar 2 á föstudag og í laugardagsblaði Morgunblaðsins.

read more »

Félagsstarf

Afhjúpun gönguleiða skilta

Meðal þeirra verkefna sem Hraunavinir hafa unnið að síðustu mánuði er gerð tveggja skilta sem sýna fornar leiðir í Gálgahrauni. Stjórn félagsins hefur unnið að þessu máli í góðri samvinnu við Umhverfisnefnd og  bæjarstjórn Garðabæjar. Nú er verkefnið komið á það stig að afhjúpun fer fram fimmtudaginn 25. ágúst kl. 17.00. Athöfnin verður í hraunjaðri Gálgahrauns á móts við hringtorgið á mótum Hraunsholtsbrautar og Vífilsstaðarvegar vestan við Sjálandshverfið í Garðabæ.

read more »