Category Archives: Greinar

Greinar

Friðlýsingar Garðabæjar – ekki allt sem sýnist

Reynir Ingibjartsson skrifar:

Undanfarið hefur fjöldi fólks barist gegn því að nýr Álftanesvegur verði lagður um ósnortið hraun í landi Garðabæjar. Bæjaryfirvöld halda hins vegar sínu striki og að óbreyttu munu framkvæmdir við veginn hefjast á fullu á næstu dögum.

Á sama tíma er verið að friðlýsa ýmsa hluta s.k. Búrfellshrauns sem er samheiti á hrauninu frá Búrfellsgíg og til sjávar við Lambhúsatjörn, gegnt Bessastöðum. Að sjálfsögðu er þetta hið þarfasta mál og allir ættu að vera glaðir og þakklátir. En ekki er allt sem sýnist.

Fyrst er að nefna Búrfell og furðusmíðina, Búrfellsgjá sem friðlýsa á nú sem náttúruvætti.  Svo vill til að Búrfell og Búrfellsgjá eru hluti af Reykjanesfólkvangi sem friðlýstur var árið 1975. Þá sá hugsjónafólk um náttúruvernd fyrir sér friðland, allt frá Elliðaárdal að Krýsuvíkurbergi og á þessum slóðum liggja mörk Heiðmerkur og Reykjanesfólkvangs saman. Friðlýsing nú bætir því litlu við.

Næst er það hraunið meðfram Vífilsstaðahlíðinni sem fólk þekkir sem vinsælt gönguland og nefnt er Svínahraun. Þar á að friða austasta hlutann þar sem Selgjá er, en síðan kemur langur kafli niður að Maríuhellum sem ekki á að friðlýsa. Þessi hluti hraunsins er í eigu Oddfellowreglunnar og á þeim bæ er áhugi á að leggja golfbrautir í hrauninu. Nú er hér vinsæll göngustígur og þessi hluti Búrfellshraunsins er mikið augnayndi, ekki síst ef horft er yfir hraunið úr lofti. Þá er að sjá eins og hér hafi brotist fram mikið ,,hraunflóð”.

Neðan Maríuhella er komið að Vífilsstaðahrauni, en stór hluti þess (Urriðakotshraun) er nú horfinn undir vegi, bílastæði og verslanir með IKEA í broddi fylkingar.  Þetta hraun naut á sínum tíma, bæjarverndar Garðabæjar og væntanlega er svo enn með þann hluta sem ekki fór undir byggingar. Hinir framsýnu Garðbæingar sem stóðu að bæjarverndinni, stóðu allt í einu frammi fyrir því að öllum hömlum var aflétt, vinnuvélarnar mættar á staðinn og skaðinn var skeður. Friðun nú breytir því litlu.

Loks er komið að þeim hluta Búrfellshraunsins sem samkvæmt friðlýsingunni er kallað Garðahraun – neðra. Ætla mætti í augum ókunnugra að nú sé verið að friða hraunið sem jafnan er kallað, Garðahraun eða Gálgahraun. Sé hins vegar rýnt í hið friðaða svæði, sést glöggt að það mun aðeins liggja að hinum fyrirhugaða Álftanesvegi og það sem kannski er enn verra: sleppt er hrauninu þar sem fyrirhuguð tengibraut (Vífilsstaðavegar) frá Sjálandshverfi að Garðaholti, á að koma. Þessi vegur með tilheyrandi slaufum og gatnamótum við Álftanesveginn nýja í miðju hrauninu, á að liggja þar sem gamli stígurinn – Móslóði er nú. 

Grandalausir íbúar í Ásahverfunum á Hraunsholtinu halda að nú sé ,,hraunið” þeirra í góðum málum!. Það er hins vegar þvert á móti. Þessi tengibraut er inni í aðalskipulagi Garðabæjar og hún átti að þjóna nýju íbúahverfi á Garðaholtinu. Verði af sameiningu Garðabæjar og Álftaness, mun líklega aukast þrýstingu á lagningu þessa vegar, ekki síst ef nýr Álftanesvegur verður þegar kominn úti í hrauninu.

Staðsetning þessarar tengibrautar er rétt hjá Kjarvalsklettunum og reyndar mun hún liggja yfir ýmsa þá staði í hrauninu, þar sem Kjarval málaði.  Nú er talið að margar af þeim myndum sem meistarinn var sagður hafa málað á Þingvöllum, voru málaðar á þessum slóðum. Það ætti því að tala um Kjarvalshraun – ekki aðeins Kjarvalskletta.

Friðlýsingar eru af hinu góða og fagna ber áhuga ráðamanna í Garðabæ. En sá áhugi verður að ná lengra. Annars er eins og verið sé að kasta ryki í augu fólks. Nú er það í höndum yfirvalda í Garðabæ að stíga skrefið til fulls og friðlýsa allt sem eftir er af Búrfellshauninu. Á meðan svo er ekki, verður almenningur að halda vöku sinni.

Reynir Ingibjartsson,

Í stjórn Hraunavina – umhverfissamtaka á Álftanesi, í Garðabæ og Hafnarfirði og höfundur gönguleiðabóka.

Greinar

Vegagerðin heitir Vegagerðin af ástæðu. Það er hlutverk skipulagsyfirvalda í Garðabæ að koma fram með fleiri möguleika og velta þeim upp með bæjarbúum.

Pálmi Freyr Randversson skrifar:

Hvers vegna nýjan Álftanesveg?

Til stendur að leggja nýjan Álftanesveg í gegnum Garðahraun eins og flestum ætti að vera kunnugt. En er þörf á nýjum Álftanesvegi? Á akstur í gegnum Garðabæ til Álftaness að eiga sér stað á vegi sem býður upp á hraðakstur og óhindrað umferðarflæði? Er hægt að bæta umferðaröryggi með öðrum lausnum en nýjum vegi? Hvernig lítur dæmið út þegar/ef Garðabær og Álftanes sameinast? Væri þá ekki eðlilegra að tengja svæðin saman með rólegri bæjargötu frekar en því sem fyrirhugað er? read more »

Greinar

Bæjarstjórar eru ekki trygging fyrir náttúruvernd

Reynir Ingibjartsson skrifar:

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ fer nú mikinn og reynir að verja lagningu nýs Álftanesvegar. Það er auðvitað vinnan hans að gera það, sjá greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu sl. laugardag.

Hann segir allt í samræmi við náttúruverndarlög, mat á umhverfi og fornleifakönnun. Samt er hraunið sem fara á undir veg á náttúruminjaskrá, umhverfismatið í raun fallið úr gildi og fornminjaskráin ófullkomin. Hlutverk náttúruminjaskrár er að skrásetja svæði sem æskilegt er að friðlýsa. Garðabær hefur lýst þeim vilja sínum að friðlýsa Búrfellshraun sem Gálgahraun er hluti af, en af því að vegur hefur forgang fram yfir friðun, þá á að sleppa friðlýsingu á þessum hluta hraunsins. read more »

Greinar

Um Gálgahraun og sýn Kjarvals

Halldór Ásgeirsson myndlistarmaður skrifar:

Áður fyrr þótti Íslendingum fjöllin ljót en það var ekki fyrr en á 19.öld með þýsku rómantíkinni að sýn skáldanna fór að breytast og gerði okkur fjöllin kær. Þessi viðhorfsbreyting kenndi m.a. Jónasi Hallgrímssyni bæði að rannsaka þau sem fræðimaður og yrkja um þau ljóð sem leiddi okkur í nýtt landnám náttúrufegurðar. read more »

Greinar

Sáttahönd í Gálgahrauni

Gunnsteinn Ólafsson skrifar:

Hart er tekist á þessa dagana um Gálgahraun á Álftanesi. Vegagerðin situr að samningum við verktaka til að leggja nýjan veg um hraunið. Skammt er þess að bíða að stórvirkar vinnuvélar verði gangsettar og einstök náttúruperla eyðilögð. Andstæðingar framkvæmdarinnar  hafa bent á ótvírætt verndargildi hraunsins, það sé á náttúruminjaskrá samkvæmt undirritun ráðherra. Ráðaherraundirskriftin er bæjaryfirvöldum í Garðabæ samt ekki pappírsins virði: þau sitja fast við sinn keip, harðákveðin í að leggja veg yfir merkustu söguslóðir bæjarins. Í hrauninu eru fornir stígar frá landnámi, klettar sem Kjarval málaði,  jarðhringur sem gæti verið frá heiðnum tíma, að ógleymdu verðmæti hraunsins sem ósnortins víðernis í þéttbýli.

Margir furða sig á þessari miklu vegarlagningu. Undrun vekur t.d. að aldrei var annað vegstæði kannað fyrir nýjan Álftanesveg en um Gálgahraun sem þó nýtur ótvírætt verndar samkvæmt náttúruverndarlögum um vernd eldhrauna. Í umhverfismati var heldur engin tilraun gerð til þess að sníða agnúa af núverandi vegi og finna viðunandi lausn þeim megin.

Styrinn stendur um 500 metra vegkafla fram hjá nýreistum húsum í Prýðahverfi. Hans vegna á að fara með Álftanesveg út í hraunið, tveggja kílómetra leið. Hægt væri að hafa veginn á sama stað og leggja hann í skála eða stokk við hverfið. Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ hafnar þeirri leið. Í viðtali við Morgunblaðið 27. september sl. segir hann: „Auðvitað væri það ágætt að taka veginn í stokk og hlífa öllu en veruleikinn er sá að við höfum ekki marga milljarða til slíkra framkvæmda“. Með þessum orðum slær bæjarstjórinn ryki í augu almennings. Í fyrsta lagi gefur hann til kynna að Garðabær standi straum af framkvæmdinni en ekki ríkið. Í öðru lagi er kostnaðarhugmynd bæjarstjórans út úr öllu korti. Árið 2001 var gert umhverfismat vegna stokks á Hallsvegi í Reykjavík. Þar segir að „lauslega áætlað sé aukinn kostnaður vegna 400 m langs vegstokks í Hallsvegi og mislægra gatnamóta við Víkurveg áætlaður um 480 milljónir króna“ (um 900 milljónir á núverandi verðlagi samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands). Þarna er um samskonar stokk að ræða eins og kæmi til greina að reisa á 500 metra kafla við Prýðahverfi. Kostnaðaráætlun vegagerðarinnar vegna nýs Álftanesvegar með mislægum gatnamótum hljóðaði upp á 865 milljónir króna. Lægsta tilboð verktaka var 660 milljónir króna. Mislægu gatnamótin við Prýðahverfi mætti leysa með einföldu hringtorgi sem sparar tugi ef ekki hundruði milljóna. Þannig myndi gamli Álftanesvegurinn í stokki líklega kosta um milljarð. Hvers vegna var þessi möguleiki aldrei kannaður?

Friður um nýjan Álftanesveg næst ekki nema menn slíðri sverðin og leiti sátta. Yfirvöld í Garðabæ hafa með friðlýsingum innan bæjarmarkanna sýnt í verki að þau eru hliðholl náttúrunni. Það er því óskiljanlegt að mesta náttúruundrið innan bæjarmarkanna, sjálft Gálgahraun, skuli nú verða eyðilagt að tveimur þriðju með vegum og húsalóðum. Með því að kanna til hlýtar nýjan Álftanesveg í núverandi vegstæði, annað hvort ofan jarðar eða í stokki, myndu Vegagerðin og Garðabær rétta fram langþráða sáttahönd í málinu.

 

Greinar

Ögurstund runnin upp í Gálgahrauni

Gunnsteinn Ólafsson skrifar:

Skýrt er kveðið á um það í lögum að eldhraun á Íslandi njóti sérstakrar verndar. Allar framkvæmdir í eldhrauni eru því strangt til tekið ólöglegar. Gálgahraun á Álftanesi er eldhraun og auk þess á náttúruminjaskrá sem eykur enn á verndargildi þess. Garðabær fer með skipulagsvald í Gálgahrauni. Bærinn hefur þegar látið reisa heilt íbúðahverfi í hrauninu. Ennfremur á að leggja nýjan Álftanesveg þvert yfir hraunið og aðra stoðbraut í kross frá norðri til suðurs. Bærinn sá reyndar sóma sinn í að friða nyrsta hluta Gálgahrauns en tveimur þriðju hlutum þess á að fórna undir vegi og lóðir. read more »

Greinar

Grein um Gálgahraun – Garðahraun eftir Eið Guðnason

Þessi blaðagrein eftir Eið Guðnason fyrrverandi umhverfisráðherra birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 24. september 2012.

Tvísmellið til að stækka greinina og lesa hana í góðum gæðum:

 

Greinar

Nýr Álftanesvegur – enginn gálgafrestur lengur

Hor<br /><br />
<div style=

Reynir Ingibjartsson skrifar:

Í ársbyrjun 1997 kynntu bæjaryfirvöld í Garðabæ, nýtt aðalskipulag til ársins 2015. Þar var gert ráð fyrir færslu núverandi Álftanesvegar lengra út í hraunið og norður fyrir væntanlega íbúabyggð í hrauninu. Þar var einnig gert ráð fyrir vegi þvert yfir Gálgahraunið frá Arnarnesvogi og að Garðaholti.

Þáverandi Náttúruverndarráð fjallaði um aðalskipulagið og í umsögninni kom m.a. fram, að mikilvægt væri að tryggja verndun Gálgahrauns sem hingað til hafi fengið að vera óraskað. Í hrauninu sé fjölbreyttur gróður en þar væru einnig söguminjar, sögustaðir, fornar götur og búsetuminjar frá ýmsum tímum. read more »

Greinar

Kershellir við Sléttuhlíðarhorn

Kershellir er rétt norðan við Sléttuhlíðarhorn í jarðfalli sem er stutt frá hinni fornu þjóðleið Selvogsgötu, eða Selvogsvegi eins og leiðin var kölluð í upphafi 20. aldar. Hellirinn er í hrauntröð frá þeim tíma er gaus í Búrfells eldstöðinni fyrir um 7000 árum. Þak hrauntraðarinnar hefur hrunið á nokkrum stöðum og opnað leið inn í hellakerfi sem auðvelt er að skoða. Austast er Kershellir og norður af honum er Hvatshellir, en það er ekki auðvelt að komast að honum. Nokkrum tugum metrum neðar, þar sem hraunrausin er fallin saman að hluta, er skjólsæll slakki og niður af honum er Selhellir. Hann er opinn í báða enda og nefnist syðri hlutinn Selhellir en nyrðri hlutinn var nefndur Kethellir í Jarðarbók Árna Magnússonar og Bjarna Vídalín. Hleðsla í miðjum hellinum náði áður fyrr upp í loft, en er núna fallin að stórum hluta. Neðstur og nyrstur er svonefndur Sauðahellir, sem var notaður um tíma fyrir sauðfé, en þótti ekki alveg nógu góður til slíkra nota. Skammt frá honum er vallgróinn stekkur og austan hans er nátthaginn í jarðfalli. Þessir hellar voru í eina tíð nefndir einu nafni Kershellar, en einnig sundurgreindir með mismunandi nöfnum eftir því hverskonar not voru höfð af þeim í gegnum tíðina. read more »

Greinar

Nytsemdarjurtin beitilyng

Beitilyngsmói í austanverðri Smalaskálahæð í september 2010.

Beitilyngið er áberandi í grónum hraunum og á heiðum landsins og all útbreidd nema á Vestfjörðum og miðhálendinu. Þetta er ein algengasta heiðaplantan á norðurlöndunum og á norðanverðu Bretlandi og víðast kölluð Heiðalyng (hedelyng/ heather).

Þegar búið var að eyða skógum á jósku og norðurþýsku heiðunum tók beitilyngið við. Með tímanum myndaðist sérstakt jarðvegslag, svonefndur lyngskjöldur og við það varð landið mjög ófrjótt. Með barrskógarækt og akuryrkju eyddu Danir heiðalynginu en skildu nokkur svæði eftir sem sýnishorn. Geldneyti var oft beitt á beitilyngið sem og hrossum og sauðfé. Kýr sem fengu beitilyng í bland við heytuggu mjólkuðu betur og Norðmenn tóku eftir því að riddarliðshross urðu fjörugri af beitilynginu, sem var ekki slæmt þegar til bardaga dró. read more »