Category Archives: Vötn

Hraun Málefni Vötn

Kynningarfundur vegna Lyklafellslínu í Kópavogi

Bæjaryfirvöld í Kópavogi stóðu fyrir kynningarfundi vegna Lyklafellslínu miðvikudaginn 14. desember 2017.   Fulltrúi Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands og Hraunavina var meðal frummælanda og kynnti sjónarmið samtakanna.

Upptöku af fundinum má sjá hér:

https://www.kopavogur.is/is/frettir-tilkynningar/kynningarfundur-vegna-lyklafellslinu

Hraun Málefni Vötn

Kynning á Lyklafellslínu 1

Á íbúafundi um framkvæmdir við Lyklafellslínu 1 sem haldinn var í Sjálandsskóla í Garðabæ, 21. nóvember 2017, stóðu fulltrúar Hraunavina og Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands kynningu undir undirskriftinni „Gríðarleg áhætta á mengun vatnsbóla fyrir óþarfa framkvæmd“.

Kynninguna má lesa hér:

Kynning á Lyklafellslínu f. Sveitarfélögin 21. nóv. 2017 (pdf)

 

Félagsstarf Hraun Málefni Vötn

Stöndum vörð um vatnsbólin

Hraunavinir hafa undanfarið ásamt Náttúrverndarsamtökum Suðvesturlands reynt að vekja athygli á þeirri ógn sem að vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins steðjar vegna fyrirhugaðrar háspennulínulagnar á viðkvæmum grunnvatnssvæðum.  Félögin hafa staðið að kynningum og kært framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðar og Mosfellsbæjar.

Nokkrar athugasemdir vegna fyrirhugaðrar byggingar Sandskeiðslínu 1 (Lyklafellslínu 1)

  1. Vatnsból höfuðborgarsvæðisins eru meðal mikilvægustu auðlinda þjóðarinnar. Gera verður ráð fyrir áframhaldandi byggð í landinu um langa framtíð og því þarf að tryggja örugga varðveislu þessarar auðlindar fyrir komandi kynslóðir. Fyrirhugaðar stórframkvæmdir og rekstur háspennulína innan grannsvæða vatnsverndar bera vott um fádæma skammsýni.

  1. Bygging Sandskeiðslínu 1 (Lyklafellslínu 1) yfir grannsvæði vatnsverndar alls höfuðborgarsvæðisins er í andstöðu við ákvæði reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Þar segir í 13. gr. Um grannsvæði: “Á þessu svæði skal banna notkun á hættulegum efnum og birgðageymslu slíkra efna. Hér er m.a. Átt við olíu, bensín og skyld efni, salt, eiturefni til útrýmingar á skordýrum eða gróðri og önnur efni sem mengað geta grunnvatn, auk efna sem sérstaklega eru tilgreind í reglugerð um neysluvatn.”
  1. Forsendur fyrir byggingu Sandskeiðslínu 1 (Lyklafellslínu 1) eru nú sagðar vera niðurrif Hamraneslína en ekki styrking raforkukerfisins eins og áður var. (Hamraneslínur með 400 MVA flutningsgetu hvor eru að flytja um 105 MW (eins og Búrfellslína 3B) – Sandskeiðslína 1 er áætluð um 800MVA).

Engin skynsamleg rök hafa verið færð fyrir því að rífa Hamraneslínur í heild þó svo að þær hamli byggð á um 3 km kafla í Hafnarfirði. Engir kostir hafa verið kannaðir eða kynntir aðrir en bygging nýrrar línu yfir vatnsverndarsvæðin.

  1. Skv. dómi Hæstaréttar (mál nr. 575/2016), úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis – og auðlindamála og áliti Skipulagsstofnunar um þýðingu dóms Hæstaréttar (í bréfi til NSVE og Hraunavina) eru matsskýrslan um Suðvesturlínur og tilsvarandi álit Skipulagsstofnunar haldin slíkum ágöllum að á þeim gögnum er ekki hægt að byggja útgáfu framkvæmaleyfis

  1. Með nýjum lögum um náttúruvernd nr. 60/2013, sem tóku gildi 15. nóvember 2015, hefur orðið veruleg áherslubreyting varðandi verndun hrauna sem runnið hafa á síðjökultíma og síðar, en allur þorri þeirra raflína sem kynntar eru í matsskýrslu Suðvesturlína liggja um slík hraun. Fyrirhuguð Sandskeiðslína 1 liggur nær eingöngu um hraunasvæði og á um 10 km kafla um hraun frá síðari hluta 10. aldar (Kristnieldar).

  1. Áhættumat virðist einungis miða að því að koma framkvæmdinni í kring. M.a. liggur ekki fyrir nein viðbragðsáætlun komi til mengunarslyss þannig að loka þurfi vatnsbólum.

Sjá nánar gögn í meðfylgjandi pdf-viðhengjum.

Sjá mynd af grunnvatnsstraumum.  Rauða línan er Hamraneslína sem Hafnarfjörður vill burt vegna nýs hverfis á Völlunum. (vel hægt að leggja í jörð meðfram núverandi vegum. Svarta brotna línan sýnir hvar Lyklafellslína á að liggja meðfram Búrfellslínu 3 sem þar er (var sett upp rétt áður en ný lög um umhverfismat voru sett í gildi. hefði aldrei átt að vera sett upp á þessum stað) bláu örvarnar sýna hvar vatnið rennur í átt að vatnsbólunum, .. undir línustæðin og línuveg.

Mynd af grunnvatnsstraumum (pdf)

Kærur vegna framkvæmdaleyfis Hafnarfjarðar og Mosfellsbæjar í ágúst 2017.

Kæra vegna framkvæmdarleyfis Hafnarfjarðar til Úua – LOKA (pdf)

Kæra vegna framkvæmdarleyfis Mosfellsbæjar til Úua – LOKA (pdf)

Nánari upplýsingar fást hjá formanni Hraunavina, Ragnhildi Jónsdóttur í síma 694-3153.

Félagsstarf Hraun Málefni Vötn

Vatnsból höfuðborgarsvæðisins í hættu

Hraunavinir ásamt Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands hafa sent kjörnum fulltrúum bæjarstjórna á höfuðborgarsvæðinu og skipulagsstjórum eftirfarandi bréf þar sem vakin er athygli á þeirri hættu sem steðjar að vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins vegna fyrirhugaðar lagningar háspennulína um vatnsverndarsvæði.


3. janúar 2017

Ágæti fulltrúi almennings á höfuðborgarsvæðinu

Vatnsból höfuðborgarsvæðisins í hættu

Hraunavinir og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands vilja benda þér á þá alvarlegu ógn sem nú steðjar að vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins þar sem fyrirhuguð er bygging tveggja nýrra háspennulína af stærstu gerð, yfir viðkvæmasta hluta vatnsverndarsvæðanna suður af Heiðmörk,
skammt sunnan við sjálf vatnstökusvæðin. Nýverið samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar línulögnina ogþað vekur hjá okkur spurningar um það hvort kjörnir fulltrúar almennings og embættismenn í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki áttað sig á hættunni. Við hvetjum þig til að ígrunda vel afstöðu þína til þessa máls og skoða með opnum huga aðra möguleika til að tryggja annars vegar öryggi vatnsbólanna og hins vegar nauðsynlega raforkuflutninga.
Áformaðar háspennulínur eru í, um og innan við, 2 km fjarlægð frá vatnsbólunum í Vatnsendakrikum og Kaldárbotnum og um 4 km frá Gvendarbrunnum. Auk þess munu línurnar liggja fast við framtíðarbrunnsvæði Hafnfirðinga í Mygludölum. Þorri grunnvatnsins berst úr suðri frá Bláfjallasvæðinu til brunnsvæðanna (Sjá meðfylgjandi kort) sem eru í sprungurein Krýsuvíkureldstöðvarinnar þar sem hún liggur um Heiðmörk. Nyrðri hluti sprungureinarinnar er sýnilegur þar sem sprungurnar eru opnar til yfirborðs en syðri hlutinn er hulinn ungum hriplekum hraunum. Heiðmerkursvæðið er af þessum sökum einstaklega viðkvæmt fyrir hverskyns mengun sem auðveldlega getur borist niður í grunnvatnið og það ekkert síður á hraunasvæðunum þó svo að sprungur sjáist þar ekki á yfirborði. Reyndar má furðu sæta að strangari hömlur hafi ekki verið settar á umferð farartækja um svæðið í ljósi hugsanlegrar olíumengunar. Ljóst er að öll olía og önnur mengandi efni sem berast til grunnvatns sunnan við brunnsvæðin munu berast í vatnsbólin fyrr eða síðar.

Bygging tveggja 400 kV háspennulína 16 km leið um grannsvæði vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins, þar af 10 km yfir viðkvæmasta hluta grannsvæðanna er stóralvarlegt mál. Ljóst er að mengunarslys meðan á framkvæmdum stendur gæti spillt vatnsvernd og vatnstöku á stóru svæði um langan tíma. Auk þess ríkir algjör óvissa um áhrif á vatnsbólin vegna sinkmengunar frá háspennumöstrum.
Bygging háspennulínanna er stórframkvæmd. Þar er m.a. notaður fjöldi vinnutækja á borð við liðtrukka, vörubíla, beltagröfur, steypubíla og krana þar sem hvert tæki um sig er með nokkur hundruð lítra olíutank og því má lítið út af bregða ef slys ber að höndum.  Sérstök ástæða er til að benda á að í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns m.s. br. Segir m.a. um grannsvæði:

„Ekki skal leyfa nýjar byggingar, sumarbústaði eða þess háttar á svæðinu. Vegalagnir, áburðarnotkun og önnur starfsemi innan svæðisins skal vera undir ströngu eftirliti.“

Það má öllum vera ljóst að háspennumastur af stærstu gerð er bygging.
Þá skal bent á að skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd njóta eldhraun sérstakrar verndar og ekki má raska þeim nema brýna nauðsyn beri til.

Línulagning yfir hraun í Húsfellsbruna og bygging tengivirkis í hrauninu í Almenningum vestan Krýsuvíkurvegar munu jafnframt hafa í för með sér afar neikvæð áhrif á náttúru og ásýnd þessara svæða. Á síðustu áratugum hafa verið framin alvarleg landspjöll á hraunum og hraunamyndunum í
upplandi höfuðborgarsvæðisins, m.a. vegna efnistöku, vegagerðar og nýrra byggingasvæða. Iðulega hefur verið gengið fram af meira kappi en forsjá í þessum efnum. Þetta svæði er nú að verða eitt vinsælasta útivistarsvæði íbúa höfuðborgarsvæðisins og gesta þeirra og er því mál að linni hvað varðar óþarfa eyðileggingu hrauna.

Hraunavinir og Náttúruverndasamtök Suðvesturlands setja fram ákveðnar efasemdir um nauðsyn lagningar Sandskeiðslína. Þær línur eru hluti af stærri framkvæmd Landsnets sem ber nafnið Suðvesturlínur og má benda á að Héraðsdómur Reykjaness kvað nýverið upp dóm um að unhverfismat Suðvesturlína sé haldið slíkum annmörkum að óheimilt hafi verið að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 á grundvelli þess. Hæstiréttur hefur einnig fellt bæði eignarnám og leyfisveitingu Orkustofnunar úr gildi vegna þess að aðrir valkostir en háspennulína hafa ekki verið skoðaðir með raunhæfum hætti. Þá verður ekki annað séð en að bygging tveggja 400 kV lína sem mun tvöfalda núverandi flutningsgetu, sé langt fram yfir það sem fyrirsjáanleg þörf krefur. Þegar framkvæmdin var kynnt í upphafi var gert ráð fyrir stórum álverum á Keilisnesi og í Helguvík auk stækkunar álversins í Straumsvík. Ekki hefur orðið af þessum áformum en þau voru forsenda
þarfagreiningar um úrbætur á dreifikerfi raforku til Suðurnesja og því er engin sýnileg þörf á Sandskeiðslínum.

Einnig er ljóst að virkjunarkostir í nýtingaflokki rammaáætlunar gefa ekki tilefni til byggingar þessara lína. Styrking og stækkun núverandi Suðurnesjalínu og nýting raforkuframleiðslu heima í héraði á Suðurnesjum uppfyllir bæði orkuþörf almennings og venjulegrar atvinnustarfsemi á svæðinu um fyrirsjáanlega framtíð. Eins er flutningseta núverandi lína, Hamraneslínu 1 og 2 ásamt Búrfellslínu 3B, nægjanleg fyrir íbúa Hafnarfjarðar, núverandi starfsemi álvers í Straumsvík og aðra atvinnustarfsemi.  Framkvæmdir við Suðvesturlínur yrðu sóun á almannafé og líklegt að almennir neytendur þyrftu að bera kostnaðinn með hækkun á rafmagnsverði.

Við ítrekum loks hvatningu okkar til þín ágæti fulltrúi okkar almennings, og biðjum þig að kynna þér allar forsendur, áhættuþætti og rök varðandi þetta mál. Það er ekki ásættanlegt að kjörnir fulltrúar íbúa, samþykki framkvæmdir sem geta hæglega leitt til þess að neysluvatni almennings verði spillt.

Fylgiskjöl:
Meðfylgjandi kort eru fengin af heimasíðu Orkuveitu Reykjavíkur og úr skýrslu Verkfræðistofunnar Vatnaskila frá árinu 2015: Vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu. Greinargerð um heildarendurskoðun.

Vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu (Vatnsvernd.pdf): Nýtt vatnsverndarkort frá 2015.

Vatnsvernd (pdf)

Líkan af grunnvatnsstraumum (Vatn_straumar_línur.jpg): Inn á kortið hefur verið bætt legu fyrirhugaðra Sandskeiðslína (svört brotin lína) og legu Hamraneslína (rauð lína). Neysluvatnsborholur eru sýndar með rauðum lit. Glöggt má sjá hvernig allt grunnvatn streymir úr suðri undir fyrirhugað línustæði áður en það berst í vatnsbólin.

Kort af Vatnsendakrikum (Vatnsendakrikar.jpg): Lega Sandskeiðslína hefur verið merkt með svartri brotinni línu. Aðstreymi grunnvatns til Vatnsendakrika liggur undir línustæði Sandskeiðslína og
samkvæmt líkani er vatnið aðeins um 4 sólarhringa (100 klst) að berast þaðan í vatnsbólin.

Öllum framkvæmdum þarf að velja stað þar sem grunnvatnsstramar liggja frá vatnsbólunum.

Með bestu kveðjum
fyrir hönd Hraunavina og Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands

Ragnhildur Jónsdóttir, Hraunavinir og Helena Mjöll Jóhannsdóttir, NSVE

Vatnsból höfuðborgarsvæðisins í hættu (pdf)

Vötn

Hraunstífluð vötn og tjarnir

HrauntjörnHraunstífluð vötn og tjarnir eru merkileg náttúrufyrirbæri sem finnast ekki á mörgum stöðum á Íslandi. Stærsta hraunstíflaða vatnið á Reykjanesskaga er Kleifarvatn en þrjú hraunstífluð vötn er að finna innan þess svæðis sem félagsskapurinn Hraunavinir leggur mesta rækt við; Ástjörn, Urriðakotsvatn og Hvaleyrarvatn. Þessi þrjú vötn hafa myndast í dalkvosum þegar hraunstraumar runnu þvert fyrir eða yfir dali og girtu fyrir læki og aðrar vatnsuppsprettur.

read more »