Fimm svæði innan marka Hafnarfjarðar voru friðlýst þann 5. apríl 2009. Aldrei áður hafa svo mörg svæði verið friðlýst í sama sveitarfélaginu í einum vettvangi. Kolbrún Halldórsdóttir þáverandi umhverfisráðherra undirritaði friðlýsingarnar við athöfn að Hleinum á Langeyrarmölum og Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, staðfesti friðlýsingarnar af hálfu bæjarfélagsins.
Þrír fólkvangar og tvö náttúruvætti voru friðlýst til útivistar og verndunar á lífríki og hraunmyndunum. Fólkvangar voru stofnaðir við Hvaleyrarlón, Hleina og í Stekkjahrauni. Litluborgir og hluti af Kaldárhrauni voru friðlýst sem náttúruvætti.
Litluborgir við Helgafell voru friðlýstar sem náttúruvætti til að vernda sérstæðar jarðmyndanir. Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Aðrar merkar og áhugaverðar myndanir á svæðinu eru dropsteinar og kísilgúr.
Kaldárhraun og Gjárnar, þ.e. Norðurgjá, Suðurgjá og Lambagjá, voru friðlýst sem náttúruvætti til að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli. Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur.
Fólkvangur var stofnaður á Hleinum að Langeyrarmölum til að vernda fjöru og útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi sem vaxið er náttúrulegum gróðri svo sem mosa- og lynggróðri. Jafnframt er það markmið friðlýsingarinnar að vernda búsetulandslag og menningarminjar, en á svæðinu eru tóftir, fiskreitir, grjóthleðslur, gerði, garðar og vagnslóðar. Aðgengi að svæðinu er gott og það er því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Svæðið er hluti af friðlýsingu búsvæða fugla við Álftanes og Skerjafjörð í samræmi við náttúruverndaráætlun 2004-2008.
Hvaleyrarlón og Hvaleyrarhöfði voru friðlýst sem fólkvangur til að vernda lífríki og leirur svæðisins sem eru m.a. mikilvægt búsvæði fugla og til að tryggja útivistar- og fræðslusvæði til útiveru og fuglaskoðunar. Dýralíf í leiru er allauðugt og er fuglalíf sérlega auðugt á svæðinu. Aðgengi fyrir íbúa er gott og einnig eru grunnskóli og leikskóli í nágrenninu og svæðið því tilvalið til útikennslu. Svæðið hefur lengi verið vinsælt til útivistar og er ákjósanlegt til fuglaskoðunar allt árið, en oft má sjá á svæðinu sjaldséða gesti eins og t.d. gráhegra.
Stekkjarhraun var friðlýst sem fólkvangur er að vernda útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi þar sem jafnframt er athyglisvert gróðurlendi og sérstakar menningarminjar. Stekkjarhraun er hluti af hraunum sem runnu í Búrfellseldum fyrir um 7000 árum. Hraunið er í beinu framhaldi af Gráhelluhrauni og hefur hraunið runnið um þröngan farveg milli Setbergshlíðar og Mosahlíðar. Aðgengi að svæðinu er gott og er það því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Með friðlýsingunni er einnig verið að vernda votlendisbletti við Lækinn þar sem hann rennur með Stekkjarhrauni, en þar vaxa m.a horblaðka og starir sem eru fágætar tegundir í þéttbýli.