Fundargerð ársfundar 2011

Ársfundur Hraunavina var haldinn í Haukshúsi á Álftanesi laugardaginn 12. nóvember 2011 og hófst hann klukkan 11:00. Hér er hægt að lesa fundargerð ársfundarins.

1. Fundur settur.

Pétur Stefánsson formaður setti fundinn og lagði til að Þorsteinn Þorsteinsson væri settur fundarstjóri og Jónatan Garðarsson fundarritari. Pétur lýsti því að rétt hefði verið boðað til fundarins með 11 daga fyrirvara og ítrekun send út 3 dögum fyrir fundinn. Samkvæmt lögum félagsins á að halda aðalfund fyrir lok október ár hvert en ákveðið var að fresta honum þar til Sigríður Auður Arnardóttir lögfræðingur og skrifstofustjóri í Umhverfisráðuneytinu hefði tíma til að mæta og kynna Árósarsamninginn og breytingar á lögum vegna hans. Fundarmenn gerðu ekki athugasemd við fundartímann þegar fundarstjóri bar málið upp og var staðfest að aðalfundurinn væri löglegur. Samþykkt var að haga fundinum þannig að Sigríður Auður fengi tækifæri til að flytja erindi sitt í upphafi og síðan gengið til hefðbundinnar aðalfundardagskrár.  

2. Erindi um Árósarsamninginn og tengsl hans við EES reglur.

Sigríður Auður Arnardóttir hefur starfað í Umhverfisráðuneytinu frá 1998. Sagði hún að Hraunavinir væri fyrsta félagið sem óskaði eftir kynningu á Árósaramningnum eftir gildistöku laga nr. 130/2011. Dreifði hún útprentuðum kynningarskyggnum og hvatti viðstadda til að spyrja hana út úr á meðan farið væri í gegnum skyggnurnar. Sigríður skýrði fyrst frá því að erfiðlega hafi gengið að koma Árósarsamningnum í gegn hér á landi og margir ráðherrar komið að málinu. Íslendingar hefðu verið á meðal þeirra 38 þjóða sem undirrituðu samninginn í upphafi og núna eru 44 þjóðir aðilar að honum. Ísland er síðast í röðinni til að fullgilda öll ákvæði hans. Samningurinn er lagatæknilega flókinn, óárennilegur og ekkert allt of skýr á köflum, en komin er ágæt reynsla í hinum löndunum á virkni samningsins.

Árósarsamningurinn byggir á þremur meginstoðum. Sú fyrsta mælir fyrir um skyldur ríkja til að tryggja að almenningur hafi aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Önnur skyldar ríkin til að tryggja almenningi rétt til þátttöku í undirbúningi að ákvörðunum sem snerta umhverfið. Evrópusambandið hefur verið aðili að samningnum frá því í maí 2005. Fyrstu tvær stoðirnar falla að undir EES samninginn og hafa gengið í gildi hér á landi í gegnum tilskipanir ESB: Lög um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006; Lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, sbr. lög nr. 74/2005 og Lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006.

Þriðja stoðin snýr að þeirri skyldu ríkja að tryggja almenningi réttláta málsmeðferð og opinn aðgang að endurskoðunarleið fyrir dómstólum eða öðrum hlutlausum og óháðum aðila vegna ákvarðana stjórnvalda sem varða aðgang að upplýsingum. Þriðja stoðin var innleidd síðastliðið vor eftir margra ára undirbúningsvinnu enda þurfti að breyta fjölda lagagreina sem snertu mörg ráðuneyti. Hún tryggir að umhverfissamtök með að lágmarki 30 félagsmenn, sem eru opin öllum, gefa út ársskýrslu og endurskoðaða ársreikninga og hafa umhverfismál á sinni könnu, eiga ætíð nægjanlegra hagsmuna að gæta til að vera málsaðilar kærumála varðandi umhverfi og auðlindir. Einstaklingar þurfa hinsvegar að hafa lögvarinn rétt.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála mun taka til starfa um áramótin, en á sama tíma verða úrskurðarnefnd skipulags- og byggingamála og úrskurðarnefnd hollustuhátta og mengunarmála lagðar niður. Sjö aðilar skipa nýju nefndina, þar af einn skipaður af ráðuneytinu en aðra skipar Hæstiréttur. Þeir eiga að hafa breiðan þekkingargrunn og munu þrír úrskurða í flestum málum, stundum fimm, en einfaldari mál getur formaður afgreitt. Hjalti Steinþórsson verður formaður nefndarinnar, en aðrir hafa ekki verið skipaðir. Gert er ráð fyrir að ráða tvo lögfræðinga til starfa við nefndina til að hraða afgreiðslu mála sem taka í dag allt að 12 mánuði, en þessu ferli á að flýta þannig að úrskurðir liggi fyrir innan 3-6 mánaða.

Fundarmenn urðu fyrir vonbrigðum þegar í ljós kom að ekki verður hægt að kæra mál fyrr en búið er að gefa út framkvæmdaleyfi. Eftir sem áður er ekki hægt að kæra skipulag sveitarfélaga. Fram kom að það er afar æskilegt að skipulagsáætlanir sveitarfélaga séu vel grundvallaðar og stefnumótandi svo að íbúar fái glögga vitneskju um verk sem áætluð eru áður en til þeirra kemur. Reynslan sýnir annað og sveitastjórnir taka mismunandi mikið tillit til athugasemda sem berast og stundum alls ekki þannig að þetta ferli er meingallað að mati þeirra sem sátu fundinn. Samtakamáttur íbúanna getur verið það mikill að sveitastjórn ákveði að breyta skipulagsáformum sínum, en vitundarvakning þarf að eiga sér stað hér á landi. Landsmenn þurfa að vera meira vakandi gagnvart umhvefinu og sveitastjórnir ættu að leita meira til íbúana og fá viðbrögð frá þeim áður en ákvarðanir um meiriháttar skipulagsmál eru staðfestar. Að þessu leyti er íslenska þjóðin langt á eftir helstu nágrannaþjóðum þar sem ferlarnir eru mun skýrari og sveitastjórnir ekki eins afgerandi í framgöngu þegar kemur að slíkum málum. Sveitastjórnir hér á landi hafa gríðarlega sterkan rétt og ríkisvaldið lítinn sem engan inngripsrétt, nema lög hafi verið brotin, eða þegar lögformlegum ferlum hefur ekki verið fylgt. Mat á áhrifum allra framkvæmda á að liggja fyrir, sem er ekki reyndin sérstaklega þegar ákveðnir þættir hafa verið inni í aðalskipulagi árum og áratugum saman. Þá gildir þetta ákvæði ekki þar sem lögin eru ekki afturvirk. Upphaflega hugmyndin með landsskipulagsstefnu var sú að ríkið gæti gripið inn í mál og hafnað ákveðnum þáttum, en sveitarstjórnir landsins voru algjörlega á öndverðum meiði. Gert er ráð fyrir því í landskipulaginu að lögð verði fram stefnumörkun á ýmsum sviðum og mótaðar skýrar línur sem sveitafélögin eiga að fara eftir. Staðreyndin er sú að sveitarfélögin á landinu eru 77 talsins og sum eru það smá að þau eru ekki í stakk búin að fylgja málum eftir eins og nauðsynlegt er.

Hægt er í undantekninga tilvikum að biðja um endurupptöku mála ef nýjar upplýsingar koma fram og þá er niðurstaða úrskurðarnefndar endanleg. Ekki er hægt að fara með málið til æðra úrskurðarstigs og meginreglan í allri stjórnsýslunni er sú að það myndast ekki kæruréttur fyrr en niðurstaða s.s. framkvæmdaleyfi liggur fyrir. Eftir það er kæruréttur 4 vikur og þykir rétt að bíða með framkvæmdir á meðan úrskurðarnefnd fjallar um kæruna. Samt sem áður gildir framkvæmdaleyfið þannig að framkvæmdir geta í reynd hafist. Ef framkvæmdir eru hafnar og úrskurðurinn fellur kærendum í vil hefur framkvæmda aðili bakað sér skaðabótaskyldu og væntanlega kröfu um að færa allt í fyrra horf, sem getur reynst erfitt ef framkvæmdin er á einstöku náttúrsvæði s.s. í hrauni, mýrlendi, skógarreitum eða einhverju ámóta svæði.

Kærur eiga að vera skriflegar, undirritaðar, fram þarf að koma hver kærandinn er og kæran vel rökstudd. Þetta ferli á að tryggja hlutlausan úrskurð. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úrskurðar í kærumálum vegna stjórnvalds ákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnarmála á sviði umhverfis- og auðlindamála. Að auki endurskoðar hún stjórnvaldsákvarðanir á verkefnasviði umhverfisráðuneytis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og iðnaðaráðuneytis sem eiga samleið með ofangreindum ákvörðunum og eðlilegt þykir að fella undir verksvið nefndarinnar. Allar stjórnvaldsákvarðanir sem varða útgáfu leyfa, endurskoðun og afturköllun leyfa vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum eru kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar. Þegar kæra berst úrskurðarnefndinni tilkynnir hún stjórnvaldi því sem tók hina kærðu ákvörðun um kæruna og veitir því allt að 30 daga frest til að skila gögnum og umsögn um málið. Stjórnvaldinu er skylt að láta nefndinni í té þau gögn og upplýsingar sem tengjast málinu og nefndin telur þörf á að afla. Í viðamiklum málum getur nefndin veitt allt að 15 daga viðbótarfrest. Nefndin kveður upp úrskurð eins fljótt og kostur er og jafnan innan þriggja mánaða frá sama tímaramma sé mál viðamikið.

Sigríði Auði var þakkað fyrir erindið með lófataki og síðan gert 10 mínútna kaffihlé.

3. Skýrsla stjórnar.

Átta bókaðir fundir voru haldnir á starfsárinu auk funda með Umhverfisnefnd Garðabæjar og aðrir starfsfundir. Helstu verkefni ársins voru gerð tveggja gönguleiðaskilta fornra leiða í Gálgahrauni og hreinsun Óttarstaðanámu og hraunsins umhverfis Straum á degi íslenskrar náttúru 16. september 2011 í samstarfi við þrjá grunnskóla, sjálfboðaliðasamtök, fyrirtæki og bæjaryfirvöld. Ennfremur var boðið upp á vettvangsgöngur fyrir félagsmenn og aðra og stjórn félagsins sendi umhverfisráðherra ályktun vegna lögfestingar þriðju stoðar Árósarsamningins frá 1998.

4. Reikningar félagsins.

Tekjur voru 800.000 kr. í formi styrkja. Íslandsbanki, Ikea og Marel styrktu skiltagerðina í Gálgahrauni um 200.000 kr. hvert fyrirtæki. Álverið Rio Tinto Alcan í Straumsvík styrkti hreinsunarátakið um 200.000 kr. Rekstrargjöld voru 667.300 kr. og tekjuafgangur ársins 132.700 kr. sem þýðir að það er hagnaður af rekstirnum. Skuldir og eigið fé er 173.629 krónur í lok starfsársins. Ólafur Nilsson löggiltur endurskoðandi veitti aðstoð við uppsetningu reikninga sem eru undirritaðir af stjórn félagsins. Guðfinna Guðmundsdóttir spurði hvort félagið stefndi að því að safna miklum sjóðum, en því var svarað neitandi. Fjármunina á að nota til góðra verka. Ársreikningurinn var samþykktur samhljóða.      

5. Kjör til stjórnar.

Næst var gengið til stjórnarkjörs og óskaði fundarstjóri eftir tilnefningum. Pétur Stefánsson fráfarandi formaður bað um orðið og sagði að Jónatan Garðarsson ritari hefði beðist undan áframhaldandi stjórnarsetu vegna anna. Greindi hann jafnframt frá því að Guðfinna Guðmundsdóttir úr Hafnarfirði gæfi kost á sér í stað Jónatans sem annar tveggja fulltrúa Hafnarfjarðar. Aðrir stjórnarmenn gáfu kost á sér til áframhaldandi starfa. Ekki bárust fleiri tillögur og voru eftirfarandi kjörnir í stjórn Hraunavina: Pétur Stefánsson og Þorsteinn Þorsteinsson úr Garðabæ, Guðfinna Guðmundsdóttir og Reynir Ingibjartsson úr Hafnarfirði og Ólafur Proppé af Álftanesi.   

6. Skoðunarmaður reikninga.

Stungið var upp á að Steinar J. Lúðvíksson verði kjörinn skoðunarmaður reikninga og Margrét Guðmundsdóttir til vara. Tillagan var samþykkt samhljóða.

7. Önnur mál. 

a) Jóhannes Ágústsson bað um orðið og kynnti Náttúrverndarsamtök Suðvesturlands sem stofnuð voru 18. október 2011. Félagsmenn eru um 100 en stefnt er að því að félagar verði 1000 talsins. Allir geta gengið í samtökin og er félagsgjald 1500 kr. Hvatti Jóhann Hraunavini til að skrá sig í samtökin en þeir sem ganga í þau fyrir 1. janúar 2012 teljast stofnfélagar. Starfssvæði samtakanna nær yfir byggðirnar og landsvæðið milli Hvalfjarðar og Ölfusár að Reykjanesskaga og öllu suðvesturhorni landsins meðtöldu. Um 70% þjóðarinnar býr á þessu landsvæði og þar eru þó nokkuð umfangsmiklar víðáttur til útivistar sem þarf að vernda. Samkvæmt þingsályktun iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra um rammaáætlun sem ætlað er að marka stefnum um hvaða virkjanakostir komi til greina og hvaða svæði beri að friða, er gert ráð fyrir því að landsvæðið frá Reykjanestá að Nesjavöllum verði samfellt orkuvinnslusvæði í framtíðinni. Fyrsta verkefni Náttúruverndarsamtaka Suðurlands var að senda inn athugasemdir vegna þessa frumvarps, en umsagnafrestur rann út á miðnætti 11. nóvember 2011. Mörg önnur mál bíða og næsta verkefni er að skila athugasemdum vegna væntanlegra framkvæmda Hitaveitu Suðurnesja en athugasemdum þarf að skila fyrir 17. nóvember næstkomandi.  Náttúruverndarsamökin eru aðili að Landvernd og vonandi verða samtökin það vel stæð fjárhagslega innan tíðar að hægt verði að ráða starfsmann til að sinna vaktinni, því eins og er þurfa stjórnarmenn að leggja sig alla fram við að koma sér inn í flókin mál og rita athugasemdir í sjálfboðavinnu.

Jóhannes þakkaði Hraunavinum fyrir árvekni, frumkvæði og dugnað við að vekja athygli á því sem betur má fara í nánasta umhverfi félagsins. Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands horfa til stærra landsvæðis en Hraunavinir, en félögin eiga vissulega samleið í mörgum málaflokkum. Innan áhrifasvæðis Náttúruverndarsamtakanna eru einnig félögin Sól á Suðurlandi og Sól í Straumi, en það er full þörf er á öflugum svæðissamtökum sem starfa á líkan hátt og Landvernd gerir á landsvísu. Lögheimili samtakanna er í Hafnarfirði sem er miðsvæðis. Samtökin halda út fésbókarsíðunni Náttúruvernd á Reykjanesi.

b) Pétur Stefánsson tók næst til máls og vildi að ritari bókaði þakkir til Jónatans sem hann sagði að hefði verið burðarás í starfi Hraunavina og átt mikinn þátt í að skapa gott orðspor félagsins sem og í þeim ávinningum sem félagið hefur náð frá stofnun þess. Þorsteinn tók undir orð Péturs og sagði að leiðsögn Jónatans í vettvangsferðum hefði verið upplýsandi og áhugaverð. Var óskað eftir því að Jónatan héldi áfram að sjá um heimasíðu félagsins.

c) Lög Hraunavina eru barn síns tíma og nauðsynlegt þykir að yfirfara þau og gera tillögur að breytingum fyrir næsta aðalfund. Aðalfundurinn beinir því til stjórnar að hún skoði lögin og leggi fram tillögu að breytingum fyrir næsta aðalfund félagsins.

d) Fundurinn samþykkti að stjórnin kæmi þakklæti á framfæri við sveitarstjórn Álftaness fyrir að fá að halda aðalfundinn í Haukshúsi.  

Þorsteinn lauk fundarstjórn sinni á því að þakka fyrir það traust að vera endurkjörinn í stjórn félagsins og fól Pétri að slíta fundi. Pétur þakkaði fyrir góðan fund og sleit fundi kl. 12.55.

 Jónatan Garðarsson, fundarritari.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *