Fundargerð nr. 44

Stjórnarfundur nr. 44, haldinn 1. febrúar 2011

 1. Fundargerð.

Fundargerð 43. fundar, 12.12.2011, var samþykkt.

2. Álftanesvegur

Pétur og Þorsteinn hafa rætt við Guðmund Guðmundsson verkfræðing framkvæmdastjóra ISS (en hann ólst upp í Gimli við Álftanesveg) um veginn og vegstæðið. Þá ræddu þeir við Eystein Haraldsson bæjarverkfræðing Garðabæjar um stöðu málsins. Þar kom fram að Vegagerðin líti svo á að framkvæmdaleyfi vegna nýs Álftanesvegs sé enn í gildi og að bæjaryfirvöld í Garðabæ hafi ekki mótmælt því. Varðandi áframhaldandi framkvæmdir verktaka mun vera beðið eftir samþykkt nýrrar vegaáætlunar á Alþingi. Ákveðið var að senda eftirfarandi bréf undirritað af stjórn Hraunavina til innanríkisráðherra, umhverfis­ráðherra, formanns umhverfis- og samgöngu-nefndar Alþingis, vegamálastjóra, bæjarstjóra Garðabæjar og bæjarstjóra Álftaness:

 

Stjórn Hraunavina beinir þeim tilmælum til Innanríkisráðuneytis, Umhverfis­ráðuneytis, umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, Vegagerðar ríkisins og bæjarstjórna Garðabæjar og Álftaness að taka til endurskoðunar fyrirhugaða lagningu Álfta­nesvegar í gegnum Gálgahraun í Garðabæ. Umrædd veglína styðst að stofni til við 20 ára gamalt skipulag sem að okkar mati samræmist ekki viðteknum hugmyndum varðandi umhverfis- og náttúruvernd.

Þessi fyrirhugaða framkvæmd mun valda ómældum spjöllum í einstæðri náttúru sem hefur að geyma margar sögulegar minjar með æva­gömlum örnefnum. Á svæðinu eru margar óvenjulegar hraunmyndanir sem gleðja augu þeirra sem ganga þarna fornar götuslóðir, s.s. Fógetagötu, Móslóða, Saka­manna­stíg o.fl. Jóhannes Kjarval, listmálari, málaði margar af sínum fallegustu myndum í hrauninu á þessu svæði og fleiri listmálarar hafa leitað þar fanga, s.s. Eiríkur Smith, Guðmundur Karl og Pétur Friðrik.

Þá ber þess að geta að þarna er afar fjölskrúðugt líf mófugla og varpsvæði kría, grágæsa, æðafugls, tjalds, hrafna, máva o.fl. tegunda.

Hraunið á þessum stað er einstæð náttúruperla nánast inni í miklu þéttbýli. Það er óvenjulegt.

Fjölmargir íbúar í grennd við svæðið hafa miklar áhyggjur af fyrir­huguðum vegi og eiga bágt með að trúa því að náttúrufegurðin verði burtu tekin með afar miklu jarðraski í hrauninu.

Vegna mikillar umferðar og ófullnægjandi öryggis telja Hraunavinir mikilvægt að Álfta­nesvegur verði allur lagaður til samræmis við gildandi staðla en að jafnframt sé brýnt að byggja hann í sátt við hið sérstæða umhverfi Garðabæjar og sem flesta íbúa bæjarins. Ný veglína, ef til kemur, færi væntanlega um lágsléttu „milli hrauns og hlíðar“ en síðan í gegnum íbúðasvæði Garðabæjar á 500 – 600 m kafla. Sá kafli mundi væntanlega kalla á sérlausn eða lausnir. 

Mikilvægt er að okkar mati að þessi leið verði ítarlega skoðuð og hugsanlegar lausnir metnar af reyndum aðilum.

Lagning vegarins um lágsléttuna ásamt hentugri lausn gegnum íbúðabyggðina mundi varðveita  náttúruperluna og , ef vel er að staðið, sætta öll sjónar­mið, þ.e. þeirra sem  vilja einungis beinan og greiðan veg og hinna sem láta sér annt um fallegt umhverfi og eru áhyggjufullir og jafnvel sárir og reiðir.

„Festina lente.“ Flýtum okkur hægt því stórframkvæmdir í fallegu hrauni valda spjöllum sem aldrei verða bætt.

Hraunavinir er félag fjölmargra áhugamanna um náttúruvernd og byggðaþróun í Hafnar­firði, Garðabæ og á Álftanesi. Félagið hefur m.a. beitt sér fyrir samvinnu við sveitar­­stjórnir o.fl. til að skipuleggja ýmsar fram­kvæmdir í góðri sátt við íbúa og með virðingu fyrir fallegu umhverfi.

Þá var ákveðið að leita eftir viðtali við innanríkisráðherra til að fylgja bréfinu eftir. Einnig var ákveðið að Pétur hefði samband við Ístak til að fá grófa vísbendingu um kostnað við að leggja Álftanesveg í stokk í núverandi vegstæði meðfram nýrri byggð í hrauninu. 

3. Önnur mál.

  • Reynir gaf skýrslu um táknræna athöfn við Grænavatn í Krýsuvík sem haldin var að frumkvæði Hraunavina til þess að minnast þess, á 100 ára afmælisdegi Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings 8. jan. sl., að fyrstu lög um náttúruvernd  voru sett. Sigurður hafði á sínum tíma frumkvæði að slíkri löggjöf. Athöfnin tókst vel og vakti athygli fjölmiðla. Tíu félög stóðu að athöfninni og á annað hundrað manns mættu á staðinn þrátt fyrir erfiða færð.
  • Rætt var um hugmynd um endurvinnslugjald fyrir skothylki. Ákveðið var að ræða málið betur á næsta fundi stjórnarinnar.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *