Fornar leiðir um Ísland eru merkileg heimild um sögu þjóðarinnar. Þær hafa margar hverjar glatast í tímans rás en á síðustu árum hafa menn gert sér far um að finna þær að nýju, tínt saman vörðubrot og reynt að ráða í landslag til þess að áætla spor genginna kynslóða.
Gálgahraun á Álftanesi er einstakt að því leyti, að þar eru óspilltar þjóðleiðir allt frá landnámi. Á nesinu voru tvö höfuðból, annars vegar kirkjustaðurinn Garðar og hins vegar höfuðstaður veraldlegs valds á Íslandi, Bessastaðir. Talið er að kirkja hafi verið að Görðum á Álftanesi frá því að kristni var lögtekin á Íslandi árið 1000. Bessastaðir byggðust við landnám og á því stórbýli sátu helstu höfðingjar í margar aldir allt þar til yfirstjórn landsins fluttist til Reykjavíkur.
Fógetagata eða Álftanesgata er merkasta þjóðleiðin til Bessastaða og meðal mikilvægustu fornminja á höfuðborgarsvæðinu. Hún liggur úr svokölluðu Hraunsviki í Arnarnesvogi og beina leið vestur að höfuðbólinu. Snorri Sturluson reið stíginn þegar hann kom úr Reykholti á 13. öld, Fjölnismenn gengu sama veg á leið í Besstaðaskóla sex hundruð árum síðar og þar beitti fáki sínum Grímur Thomsen undir aldamótin 1900. Allt er óbreytt enn í dag.
Þeir sem komu að austan á leið til Bessastaða héldu um Engidalsstíg. Hann hófst við Ófeigskirkju, álfaklett skammt fyrir vestan núverandi gatnamót Álftanesvegar og Hafnarfjarðarvegar, og hélt sem leið lá norðvestur eftir nesinu. Flatahraunsgata lá frá Ófeigskirkju í átt að Görðum. Þá leið hefur Jón Vídalín biskup í Skálholti líkast til farið í lok 17. aldar og riðið síðan Álftanesstíg og suður Stekkjargötu þegar hann vitjaði bernskuheimilis síns að Görðum eða haldið um Kirkjustíg. Þeir sem komu úr Reykjavík og hugðust halda að prestsetrinu hafa annað hvort tekið stefnuna beint úr Hraunsviki suður Móslóða að Vegamótum og þaðan um Kirkjustíg eða riðið Fógetagötu inn í Gálgahraun og síðan farið um Stekkjargötu til suðurs yfir á Garðaholtið. Hafnfirðingar og Suðurnesjamenn riðu Álftanesstíg úr kaupstað út á nesið.
Flestar þessara fornu þjóðleiða um Álftanes eru greinilegar enn þann dag í dag. Hraunavinir settu nýlega upp skilti sem vísa gangandi fólki veginn um helstu leiðir í Gálgahrauni. Annars hefur ekkert hefur verið gert til þess að halda leiðunum við eða gera þær aðgengilegar almenningi. Þvert á móti bendir allt til þess að leiðunum verði stórlega spillt. Fyrirhugað er að leggja nýjan Álftanesveg þvert yfir hraunið um Engidalsstíg. Til þess að bæta gráu ofan á svart er gert ráð fyrir öðrum vegi þvert yfir nesið úr Hraunsviki yfir að Görðum og þar með hoggið æði nærri Fógetagötu en Móslóði verður eyðileggingunni að bráð.
Í Gálgahrauni á Álftanesi hafa varðveist einstakar minjar um göngu- og reiðleiðir þjóðarinnar allt frá landnámi. Þeim má ekki granda. Þær mynda samfellt net, einstakt í sinni röð. Ekki er ólíklegt að svæðið ætti heima á heimsminjaskrá Unesco sem stórmerkilegt menningarlandslag á heimsvísu. Íslendingar ættu að standa vörð um þessar sameiginlegu menningarminjar þjóðarinnar. Hraunið er í landi Garðabæjar. Hér með er skorað á bæjarfélagið að slá alla vegagerð í Gálgahrauni út af borðinu, friða svæðið, merkja hinar fornu þjóðleiðir á myndarlegan hátt og opna þær almenningi. Gálgahraun er á náttúruminjaskrá og eignarhald á því er skýrt. Friðlýsing ætti ekki að kosta nema eitt pennastrik. Vilji er allt sem þarf.
Gunnsteinn Ólafsson
Greinin var endurskoðuð 5.6.2009