Ganga sunnudaginn 2. desember kl. 11:00

Hraunavinir efna til gönguferðar um Gálgahraun sunnudaginn 2. desember, fyrsta sunnudag í aðventu. Safnast verður saman við innkeyrsluna inn í Prýðahverfi við Álftanesveg kl. 11:00 og gengið að Garðastekk. Á leiðinni verður staldrað við á nokkrum merkum stöðum og sagt frá því helsta sem fyrir augu ber. Öllum er frjálst að mæta og taka þátt í göngunni. Meðal annars verður komið við hjá Kjarvalsklettum en þeir eru á meðal allra merkilegustu fyrirmynda Jóhannesar Kjarvals myndlistarmanns sem kom að þessum klettum á hverju einasta ári í rúmlega 20 ár og málaði þar fjölmörg málverk sem eru til víða um landið. Nokkur málverk frá þessum stað eru í eigu erlendra safna, þjóðhöfðingja og listaverkasafnara.

Garðastekkur er ekki síður merkilegur en þar eru fornar mannnvistarminjar. Stekkurinn eða Garðarétt eins og hann var stundum kallaður er mjög gamall og er á meðal merkustu minja í hraunjaðrinum. Garðastekkur er í vesturjaðri Gálgahrauns og var notaður af ábúendum í Görðum, prestum og leiguliðum hans um aldir. Síðast var réttað í Garðarétt eða stekknum nokkru eftir 1930 en það veit í rauninn enginn hversu gamall stekkurinn er. Hætt var að nota réttina að mestu sem fjárskilarétt Garðhverfinga eftir að breska setuliðið kom sér upp herbúðum á Garðaholti og útbjó þar byssuhreiður og skotbyrgi, enda þótti ótækt að hafa lausagöngufé innan um vopnaða menn sem sáu meinta óvini á bakvið hvern einasta stein. Á hraunhól rétt norðaustan við stekkinn eru leifar fornrar hringhlaðinnar fjárborgar sem er fyrir löngu fallin. Sunnan og vestan við Garðarstekk er túnflekkur sem var afgirtur og nýttur fram yfir miðja 20. öld. Norðvestan við stekkinn eru  jarðlægar húsatóftir, sennilega gamalt sel eða sauðahús, en þessar minjar hafa ekki verið rannsakaðar. Stekkurinn er þannig staðsettur að þar er skjólsælt fyrir norðanáttinni enda var fjárbeit á vetrum í hrauninu og ekki ósennilegt að smalar hafi átt náttstað í húsunum sem voru við stekkinn. Norðvestur af húsatóftunum er ferhyrningslagaður ílangur hleðslugarður sem er gamall kartöflugarður. Líkum hefur verið leitt að því að þetta sé gamli reiturinn þar sem fyrstu tilraunir með ræktun á kartöflum og öðrum rótarávöxtum voru gerðar sunnanlands á sama tíma og Björn prestur í Sauðlauksdal gerði sínar ræktunartilraunir. Rannsaka þarf garðhleðslurnar umhverfis þennan ræktunarreit nánar til að varpa ljósi á aldur þeirra. Ef ráðist verður í færslu Álftanesvegar mun hann liggja á mikilli undirfyllingu á þessum slóðum og þá hverfa þessar minjar um jarðeplarækt endanlega. Þarna eru fleiri minjar sem þarf að kanna betur og það er með ólíkindum að það hafi ekki enn verið gert.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *