Hraunavinir vekja athygli á göngu sem farin verður á morgun, sunnudaginn 28. október kl. 14.00. Gengið verður um þann hluta Garðahrauns og Gálgahrauns þar sem hugmyndin er að leggja nýjan Álftanesveg um ósnortið og vel gróið hraun, samkvæmt áætlunum Vegagerðarinnar og meirihluta bæjarstjórnar Garðabæjar.Jónatan Garðarsson mun lýsa staðháttum og segja frá helstu kennileitum og örnefnum, Háskólakórinn tekur lagið við Kjarvalskletta og fulltrúi myndlistarmanna tekur til máls og segir frá því hvaða stöðu hraunið skipar í listasögu þjóðarinnar. Allir sem áhuga hafa á þessu máli eru hvattir til að mæta og taka þátt í göngunni, sem er ókeypis. Gengið verður um þær slóðir þar sem gert er ráð fyrir að vegurinn færist út í hraunið á 500-600 m kafla og síðan gengið til baka og hugað að þeim stað þar sem Hraunavinir leggja til að vegurinn verði lagður, en það eru liðin 3-4 ár síðan þær hugmyndir voru lagðar fyrir ráðamenn í Garðabæ. Gangan hefst við aðreinina að Prýðahverfi við Álftanesveg, skammt frá gatnamótum Hafnarfjarðarvegar og Álftanesvegar. Á þeim slóðum er gert ráð fyrir að útbúin verði viðamikil vegslaufutenging samkvæmt skipulagi Vegagerðarinnar.
Spáð er góðu veðri og um að gera að mæta og njóta þess að ganga um fallegt svæði í fylgd staðkunnugra.