Hraunavinir fagna Vetrarsólstöðum sem voru 22. desember að þessu sinni og nú er sólin farin að hækka á lofti á nýjan leik. Nýtt tungl, sjálft jólatunglið, kviknaði 24. desember og þar með hófst 10. vika vetrar. Stutt er til áramóta en að fornu voru áramót við þessi tvenn tímamót þegar sól tók að hækka á lofti og jólatunglið kviknaði.
Svo vel vill til að margar þjóðir halda hátíðir um þessar mundir til að fagna væntanlegum umskiptum náttúrunnar og einnig til að einblína á kærleikann, nýtt og betra líf og bjartari framtíðarhorfur.
Oft getur það smáa í náttúrunni verið alveg jafn merkilegt og það stóra. Ískristallar eru stórmerkileg fyrirbæri og um leið og við beinum sjónum okkar að magnaðri samsetningu þeirra er full ástæða til að gaumgæfa hversu stórkostlegir hlutir finnast víðast hvar í náttúrunni. Þar er jafnvægi hlutanna mikilvægt og þessvegna eigum við að gæta að jafnvæginu áður en ráðist er á náttúruna með óafturkræfum framkvæmdum. Göngum varlega um gleðinnar dyr, gætum hófs og íhugum hvert einasta skref áður en haldið er af stað út í óvissuferð.
Hraunavinir senda félögum og öllum öðrum landsmönnum nær og fjær hugheilar óskir um gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár, með von um að nýja árið verði friðsælt og gefandi.