Sunnudaginn 22. apríl 2012 efndu Hraunavinir, Fugla- og náttúruverndarfélag Álftaness og Félag áhugamanna um sögu Bessastaðaskóla til göngu um Hraunin að Lónakoti.
Klukkan hálf tvö var fjölmenni mætt á bílaplanið hjá listamiðstöðinni í Straumi eða 55 manns og síðan var gengið um Straums- og Óttarstaðaland og að Lónakoti í blíðskaparveðri. Oft var stoppað á leiðinni og skoðaðar minjar um búsetu í Hraunum og fræðst um mannlíf að fornu og nýju. Er hægt að fullyrða að allt þetta svæði kom fólki þægilega á óvart.
Á bæjarhólnum í Lónakoti var nestissnæðingur og á leiðinni til baka var hugað frekar að ströndinni og minjum þar. Þá höfðu göngumenn með sér svarta ruslapoka og fylltust þeir allir af ýmis konar plastrusli. Ekki var hins vegar hreyft við rekavið og netakúlum.
Þetta var því hin besta þrifaferð og viðkomandi félögum til sóma.