Sunnudaginn 22. apríl standa Hraunavinir, Fugla- og náttúruverndarfélag Álftaness og Félag áhugamanna um sögu Bessastaðaskóla að gönguferð um Hraunin að Lónakoti kl. 13:30. Allir eru hvattir til að mæta og uppgötva þennan stórmerkilega stað með fjölda náttúru- og mannvistarminja svo nærri höfuðborgarsvæðinu.
„Lónakot er eitt þeirra eyðibýla í Hraunum þar sem fólkið treysti alfarið á sjósókn og fjárbúskap sem byggði á útigangi enda var ekki um nein fjárhús að ræða fyrr en eftir 1870. Þess sjást ennþá merki að hellar og skútar með fyrirhleðslum voru fjárskjól. Hraunafólkið nýtti landið og stýrði beitinni af einstakri útsjónarsemi. Búið var í Lónakoti með hléum frá því um 1400 að talið er fram að seinni heimsstyrjöldinni. Víða er hægt að sjá fornar minjar um mannlíf á heimajörðinni og í úthaganum – hraunlandslagið þarna er víða stórbrotið. Lónakotsvatnagarðar eða Lónin – nefnast ferskvatnstjarnirnar sem eru merkileg náttúrufyrirbæri og eru þær allra stærstu sinnar tegundar í Hraununum.“
Lagt verður af stað kl. 13:30 frá Straumi (burstabænum við Straumsvík). Álftnesingar sem vilja sameinast í bíla, mæti við Íþróttamiðstöð Álftaness klukkan 13:00. Leiðsögumaðurinn, Reynir Ingibjartsson, er höfundur bókarinnar „25 gönguleiðir á höfuðborgarsvæðinu“. Þeir sem eiga bókina eru hvattir til að hafa hana meðferðis.
Allir eru velkomnir og leiðin greiðfær. Áætlaður tími 2 –2 1/2 klst. Ekkert þátttökugjald, en gestir eru hvattir til að koma með nesti og búa sig eftir veðri.