Það er ekki hægt að segja annað en málþingið um Búrfellshraun sem Hraunavinir stóðu fyrir ásamt Náttúrufræðistofnun Íslands og Hafnarfjarðarbæ og Garðabæ, hafi tekist mjög vel.
Það var haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunnar og gestir nálægt eitt hundrað.
Þingið var tileinkað minningu Guðmundar Kjartanssonar jarðfræðings en hann kortlagði og aldursgreindi Búrfellshraun á sínum tíma. Dóttir hans, Solveig minntist föður síns á málþinginu með sérlega hlýlegum hætti. Guðmundur bjó í Hafnarfirði og allan sinn starfstíma ferðaðist hann um á hjóli. Hann varaði mjög við röskun Búrfellshrauns, en Guðmundur lést árið 1972. Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur gerði svo grein fyrir starfsferli Guðmundar, sem kom víða við. Hann var m.a. frumkvöðull í gerð jarðfræðikorta af Íslandi. Síðan sagði Ragnheiður Traustadóttir frá fornminjum í Garðabæ, ekki síst í hraununum. Skráðar vörður eru næstum orðnar eitt hundrað talsins. Arinbjörn Vihjálmsson skipulagsstjóri gerði þessu næst grein fyrir friðunum lands á liðnum árum og næstu áformum í þeim efnum.
Reynir Ingibjartsson fór yfir samantekt Jónatans Garðarssonar um örnefni og þýðingu þeirra fyrir samhengið í sögunni. Þá las hann upp úr bók Stefáns Júlíussonar rithöfundar og skólamanns – Byggðin í hrauninu, en hann ólst upp á Mölunum í Hafnarfirði.
Loks fjallaði Sigmundur Einarsson jarðfræðingur um þær ógnir og rask sem hraun verða stöðugt fyrir. Þar er stundum um að ræða þá sem síst skyldi. Hann endaði á því að sýna mynd af nýja Suðurstrandarveginum, þar sem nýi vegurinn er lagður við hliðina á þeim gamla.
Málþinginu stjórnaði Ólafur G. Einarsson, fyrrverandi ráðherra og forseti Alþingis og naut hann sín vel í ræðustólnum.
Að málþingi loknu var haldið út á Bala, neðan og utan Hrafnistu þar sem bæjarstjórarnir; Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir í Hafnarfirði og Gunnar Einarsson í Garðabæ, innsigluðu samstarf bæjarfélagana um náttúruminjar á mörkum bæjarfélaganna m.a. á Bala. Þar er að finna landamerkjavörðu sem er að hruni komin. Samstarfið var innsiglað með innilegu faðmlagi.
Hraunavinir geta verið stoltir af þessu málþingi.