Stjórn Hraunavina var boðið að mæta í húsnæði Framkvæmdasviðs Hafnarfjarðarbæjar á Norðurhellu 2 þriðjudaginn 8. nóvember 2011. Ástæðan var sú eftirfarandi bókun hafði verið gerð á fundi Umhverfis- og framkvæmdasviðs 5. nóvember:
Skipulags- og byggingarráð og Umhverfis- og framkvæmdaráð fagna því hve vel tókst til með hreinsun hraunsins þann 16. september og færa þeim sem þar tóku þátt bestu þakkir fyrir þeirra framlag. Sérstaklega er Hraunavinum þakkað þeirra frumkvæði að þessu hreinsunarátaki. Lagt er til að 16. september verði árlega dagur hreinsunar og er umhverfisteymi ráðanna falið að vinna áfram að því máli.
Þrír stjórnarmenn sáu sér fært að mæta með svo stuttum fyrirvara, en það voru Pétur Stefánsson formaður, Ólafur Proppé gjaldkeri og Reynir Ingibjartsson meðstjórnandi. Jónatan Garðarsson ritari og Þorsteinn Þorsteinsson meðstjórnandi voru vant við látnir. Boðið var upp á kaffi og meðlæti og þökkuðu Guðmundur Rúnar Árnason bæjarstjóri og Magrét Gauja Magnúsdóttir formaður Umhverfis- og framkvæmdaráðs Hraunavinum fyrir að standa fyrir hreinsunarátakinu. Voru stjórnamenn leystir út með gjöf, en það er ný bók um Hrafna Flóka, sem er heimildarskáldsaga um stórhuga og áræðið fólk sem tók sig upp og flutti frá Noregi til Íslands stuttu áður en landnám hófst með formlegum hætti. Þótti þessi saga eiga vel við Hraunavini sem hafa sýnt áræðni og frumkvæði í umhverfismálum á undanförnum árum. Bókin er eftir norsku skáldkonuna Sylvelin Vatle og kom út í þýðingu Rúnu Gísladóttur hjá bókaútgáfunni Hólum. Bókin er fagurlega myndskreytt og eru myndirnar eftir Sveinbjörgu Hallgrímsdóttur.
Eins og fram kom í bókuninni hafa Umhverfis- og framkvæmdaráð og Skipulags- og byggingaráð lagt til að 16. september, sem er Dagur íslenskrar náttúru, verði árlegur dagur hreinsunar í bæjarlandi Hafnarfjarðar. Umhverfisteymi ráðanna hefur verið falið að vinna áfram að þessu máli og sjá til þess að nýta daginn til að sinna þessu mikilvæga verkefni. Þessi skipan mála er Hraunavinum mjög að skapi og sýnir svo ekki verður um villst að framtakið hafði tilætlaðan árangur. Hraunavinir eru staðráðnir í að halda áfram að vinna á þessum vettvangi á næstu árum, enda næg verkefni fyrir hendi. Sjálfboðaliðasamtökin SEEDS hafa boðist til að aðstoða Hraunavini á næsta ári eins og þau gerðu í haust. Að sjálfsögðu er öllum sjálfboðaliðum velkomið að taka þátt enda er full ástæða til að halda áfram að fjarlægja það rusl sem skilið hefur verið eftir á víðavangi og fegra umhverfi okkar, sem allt of margir hafa því miður litið á sem ruslakistu. Aðrir aðilar s.s. Gámaþjónustan, Sorpa og Fura sem lögðu til tæki sín og tól til að auðvelda hreinsunina hafa einnig tekið vel í að halda þessu verkefni áfram sem og þeir skólar sem tóku þátt að þessu sinni. Þetta samfélagsverkefni sýndi svo sannarlega að fjölmargir eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum þegar kemur að því að taka til hendinni og vinna að hreinsun og fegrun bæjarlandsins. Hraunavinri eru afar stoltir af þessu góða samstarfsfólki sem gekk rösklega til verka og afkastaði mikið á stuttum tíma þó svo að gríðarlega mikið magn af rusli sé enn fyrir hendi í hraununum sunnan og vestan við Straumsvík sem og á öðrum svæðum bæjarins. Vonandi verður þetta átak til þess að fólk hugsi sig tvisvar um áður en það kastar búslóðum, húsmunum og allskyns drasli út í næstu gjótu. Sorpa er rétti staðurinn fyrir fyrir þessháttar hluti og nýtir það sem nýtilegt er öðrum til góða.
Hraunavinir hafa lagt það til við bæjaryfirvöld að Rauðamelsnáman verði hreinsuð að fullu og síðan farið í að breyta henni í útivistarsvæði með skipulögðum hætti. Ein hugmyndin er að nemendur í landslags arkitektúr og skipulagsfræðum verði fengnir til að skoða námuna og vinna skipulagshugmyndir sem gætu nýst til að gera þetta merkilega svæði notendavænt. Vel mætti hugsa sér að halda þar tónleika, setja upp leiktæki, útbúa skemmtilegar þrauta- og æfingabrautir og sitthvað fleira. Þetta er einstakt svæði sem vel má nýta með margvíslegum hætti.