Hreinsun gekk vel – en mikið verk er enn fyrir höndum

Dagur íslenskrar náttúru var haldinn 16. september 2012 í annað sinn og heppnaðist vonum framar. Fjöldi fólks víða um landið tók þátt í verkefnum dagsins á einn eða annan hátt og það er nokkuð ljóst að þessi dagur verður í hávegum hafður næstu árin.

Hraunavinir efndu til hreinsunarátaks í Hraunum sunnan Straumsvíkur í fyrra á þessum merka degi, sem er afmælisdagur Ómars Ragnarssonar. Þá voru hreinsuð nokkur tonn af drasli úr gjótum, námum og klettaskorum, en það sá varla högg á vatni þar sem umgengnin hefur verið mjög slæm í marga áratugi á þessu landsvæði. Skólabörnin sem tóku þátt í fyrra sýndu að þau voru vandanum vaxin og leikurinn endurtók sig í ár. Krakkarnir voru stórkostlegir, allir með tölu, og það þarf ekki að kvíða framtíðinni ef æska landsins sýnir jafn mikinn dugnað og þessir krakkar gerðu. Nemendur úr þremur grunnskólum í Hafnarfirði mættu föstudaginn 14. september ásamt kennurum og öðru starfsliði skólanna og skiluðu frábæru starfi.

Laugardaginn 15. september og sunnudaginn 16. september tóku sjálfboðaliðar við verkinu, en það hefðu að ósekju fleiri mátt mæta því það er mikið verk að vinna.

Reynir Ingibjartsson stjórnarmaður Hraunavina fór fyrir þessu verkefni og segir hann að þrír ánægjulegir dagar hafi liðið afskaplega hratt. Veðrið lék við Hraunavini og alla aðra sem komu að hreinsuninni og er mikið af rusli komið í gáma og poka og enn er hægt að bæta við því draslið leynist víða. 

Gríðarlegt magn kom upp úr hraunglufu vestan við Rauðamelsnámuna í jaðri gamla Keflavíkurvegarins, en þar hafa einhverjir borgarar lagst svo lágt að skilja eftir sófasett, innréttingar og hreint út sagt ótrúlegustu húsmuni. Það er með ólíkindum að sjá allt þetta drasl á svona fallegum stað og vitnar vonandi um tíma sem eru liðnir, enda hægt að fara með svona úrgang í endurvinnslustöðvar Sorpu. Það tókst að hreinsa sprunguna að mestu og sömuleiðis var sjónum beint að óhemju magni af drasli sem hefur safnast fyrir í gjótu í Lónakotslandi við Keflavíkurveginn í áranna rás. Þetta rusl fyllir að minnsta kosti tvo stóra 2 gáma.

Ekki tókst að fara í Óttarstaðanámuna hjá Kristrúnarfjárborg eins og til stóð, en vonandi verður hægt að gera það á mánudag eða þriðjudag, því ætlunin er að halda aðeins áfram, enda ekki vanþörf á. Þar er járnarusl, bílhræ, steypuúrgangur og sitthvað fleira.

Vegurinn á móts við Lónakots afleggjarann hefur verið lokaður í eitt ár með stóreflis grjóthnullungum. Hann var opnaður núna svo að auðveldara væri að komast að svæðunum sem þurfti að hreinsa. Þetta varð til þess að fjöldi fólks lagði leið sína á þennan stað. Sumir komu til að taka þátt í hreinsuninni, en aðrir til að fara í berjamó, taka þátt í Ratleik Hafnarfjarðar eða til að viðra sig og hundana sína. Þetta er kjörið gönguland og ótrúlega fallegt um að litast í hrauninu núna þegar haustlitirnir eru komnir á bláberjalyngið. Það er full þörf á því að hafa svæðið opið og útbúa bílastæði svo að fólk geti notið þess í ríkara mæli en nú er. Það þarf að skapa aðstöðu til að leggja bílum en það litla svæði sem myndaðist á vegslóðanum þegar honum var lokað var engan vegin nægjanlega gott.

Hraunavinir eru hvattir til að gefa sér tíma næstu daga og hjálpa til við að hreinsa rusl því það er af nógu að taka og margar hendur vinna létt verk. Látum hendur standa fram úr ermum og hvetjum aðra til að gera slíkt hið sama.

Hraunavinir þakka grunnskólum Hafnarfjarðar fyrir að taka svona vel í þetta verkefni og einnig Hópbílum sem sáu um að flytja skólabörnin á staðinn og aftur til síns heima. Jafnframt fá eftirfarandi aðilar kærar þakkir fyrir að styðja við hreinsunarverkefnið með beinum hætti á margvíslegan hátt: Sorpa, Gámaþjónustan, Fura, Rio Tinto Alcan, Innnes og Hafnarfjarðarbær.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *