Kapellan er lítið byrgi sem stendur á hraunhól í Kapelluhrauni á móts við mitt álverið sem stendur við Straumsvík. Þangað liggur hliðarvegur af Reykjanesbraut sem er merktur Gámasvæðinu. Lítið ber á kapelluhólnum en þegar nær er komið sést hann. Fara þarf niður litla brekku og þar er bifreiðastæði og skilti með upplýsingum um heilaga Barböru.
Kapellutóftin stendur á hraunhólnum fyrir miðju svæðinu og auðvelt að ganga upp á hann. Hún líkist þaklausu smáhúsi sem hlaðið er úr hraunhellu
m og standa veggirnir ágætlega, því þeir voru endurhlaðnir um miðja 20. öld en þekjan sem var löngu fallin var ekki sett upp aftur. Enn sést lítill hluti Alfaraleiðarinnar sem lá við hliðina á Kapellunni. Hraunið nefnist einu nafni Nýjahraun eða Bruninn en Kapelluhraun umhverfis Kapelluna. Hraunið rann frá gígum sem norðan undir Undirhlíðum og Sveifluhálsi við Vatnsskarð. Talið er að hraunið hafi komið upp í goshrinu sem hófst um 1151 og endaði um 1180 og hefur verið nefnd Krýsuvíkureldar. Þar með tók fyrir gamla leið milli Suðurnesja og Innnesja, en um leið og hraunið kólnaði nægjanlega mikið virðist leiðin hafa verið opnuð aftur með því að ryðja götu gegnum Brunann sem var um 1,5 m að breidd. Kapellan hefur líkast til verið hlaðin í miðju hrauninu sem bænhús en hefur sennilega breyst í förumannaskjól eftir siðaskiptin. Sjálf húsatóftin er um 2×2,2 metrar að ummáli og snýr dyraopið í vestur.
Kapellan var líklega helguð heilagri Barböru, sem var verndari sjófarenda, ferðamanna auk þess sem gott var að heita á hana til verndar gegn hvers konar háska af eldsvoða. Sagnir voru um að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna og var hún því stundum kölluð Dysin eða Kapelludys. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður rannsakaði kapelluna 1950 og fann m.a. efri helming af litlu líkneski heilagrar Barböru og var Kapellan friðlýst sem fornminjar eftir það. Líkneskið var mjög lítið en samskonar líkneski úr pípuleir hefur fundist við vegkappellu í Utrecht í Hollandi, en þar nærri var leirgerðarsmiðja þar sem verndargripir voru framleiddir á miðöldum. Stækkuð eftirgerð af líkneskinu er í kapellunni og er mikil helgi á staðnum. Kapellan er bænastaður kaþólskra og aðrir sækja þennan sérkennilega stað einnig heim með reglulegu millibili.
2 Comments
Pingback: Barbara mey og píslarvottur (3. öld) « Helgisetur