Selin í Hraunum

Straumssel loftmyndVíða í hraununum sunnan, austan og vestan Hafnarfjarðar eru tóftir sem minna á horfna búskaparhætti. Hlaðnar réttir, fyrirhleðslur við skúta, kvíar, fjárhellar og vörður eru hluti af þeim minjum sem mest er af í Almenningi, en svo nefnist hraunið ofan Straumsvíkur. Þar eru líka tóftir frá þeirri tíð þegar haft var í seli á nær hverjum einasta bæ og koti á landinu. Eitt þessara selja var Straumssel og þar eru myndarleg tóftarbrot sem gaman er að skoða.

Selin framlenging á heimajörðunum

Scan0010Selin höfðu stóru hlutverki að gegna í Hraunum sem annarsstaðar. Þau liggja nánast í beinni línu frá býlunum á miðjum Reykjanesskaga um 3-4 km sunnan við bæina í svonefndum Almenningi, suður af Flám og Seljahrauni. Meðal þeirra voru Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumssel, Gjásel og Fornasel. Að þessum selum lágu slóðir sem hétu ýmsum nöfnum s.s. Straumselsstígur, Hraungata og Skógarstígur. Um sauðburðinn var lambfé fyrst í stað haldið í heimatúninu, en lömbum í stekk svo þau gætu ekki sogið mæður sínar.  Síðan var féð rekið inn í stekkinn á kvöldin, lömbunum komið fyrir í lambakofa í stekknum og féð mjólkað að morgni. Gekk þetta svona til framyfir Jónsmessu, en þá voru ærnar rúnar áður en þær voru reknar í selið. Lömbum var haldið heima nokkru lengur, þar til þau voru rekin á afréttinn. Selráðskona eða matselja flutti sig um set í selið og hafði hún það hlutverk að mjólka féð og vinna matvöru úr mjólkinni. Úr ærmjólkinn var framleitt smjör, ostur og skyr. Selráðskonan hafði með sér eina eða tvær unglingsstúlkur og smala, sem sat yfir ánum, daga og nætur. Hann hafði oft það hlutverk að strokka smjör á meðan hann sat yfir ánum og stundum var strokkurinn bundinn við bak hans og hann látinn eltast við féð á meðan smjörið strokkaðist Bóndinn kom síðan á þriggja daga fresti til að sækja smjör, skyr og annað sem framleitt var í selinu og færði heim á bæinn. Við selin eru stekkir eða kvíar og jafnvel náttból þar sem fénu var haldið yfir nóttina og gat þá smalinn sofið rólegur í selinu, eða fjárskúta sínum. Í Hraunum eru húsakynni selanna eins; þrjú áföst hús, mjólkurhús, baðstofa og eldhús. Stundum var fénu haldið langt fram á haust í seli og jafnvel allan veturinn þegar snjólétt var, en annars var það flutt heim eftir réttir og beitt á fjörur.

Búseta í Straumsseli

Almennt var hætt að hafa í seli um miðja 19. öldina víðast hvar á landinu og lagðist sá siður því af. Þó hélt einn og einn bóndi því áfram og eru heimildir fyrir því að Hvaleyrarbóndi hafi haft í seli við Hvaleyrarvatn lengst allra sem bjuggu í nágrenni Hafnarfjarðar. Oft voru selin ágætlega húsuð og því kjörið að nýta húsakostinn eftir að selstöður lögðust almennt af. Þegar Guðmundur Guðmundsson hafði keypt Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist þá að í Straumsseli. Þetta mun hafa verið um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Þegar hann gerði Straumssel að bústað sínum klagaði leiguliði hans í Straumi búsetuna til sýslumanns. Leiguliðinn var Bjarni Einarsson en honum þótti það vera skerðing á fornum rétti landseta að skipta jörðinni upp með þessum hætti. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekk að sáttinni að því tilskyldu að bygging hins gamsa Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi, skyldu yfirvöld kæra. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 á með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Siguður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Eftir það fluttu þau í Hafnarfjörð og bjuggu í Kolfinnubæ sem stóð þar sem nú er Strandgata nr. 41. Farnaðist þeim vel í selinu þó kjörin væru kröpp. Bjarni sonur þeirra fæddist í Straumsseli 1857. Talið er að síðast hafi verið búið í Straumsseli 1890-1895. Guðmundur lét reisa myndarlegt bæjarhús í Straumsseli sem stóð fram undir aldamótin 1900 en þá mun það hafa brunnið. Selið fór eftir það í eyði en bæjartóftirnar eru all myndarlegar.

Fjárskilaréttir 

Á haustin voru leitir því geldfé sem gengið hafði á fjörubeit um veturinn var sleppt á vorin í Vorrettinúthaga, bæði sauðum og gemlingum. Einnig voru lömb látin ganga sjálfala í afrétti allt sumarið og þeim þurfti að koma heim á haustin til slátrunar. Var Gjárétt í Búrfellsgjá fjallskilarétt Álftnesinga lengi vel. Áttu allir fjáreigendur hreppsins hvort heldur voru búendur eða þurrabúðarmenn að gera fjallskil til Gjáréttar. Hraunamenn, Hafnfirðingar sunnan lækjar og Ásbóndinn fóru í svokallaða suðurleit, og höfðu náttstað í hellum við Kleifarvatn í Lambhaga.  Garðhverfingar, uppbæjarmenn, Hafnfirðingar norðan lækjar og Álftnesingar fóru í norðurleit og höfðu náttstað í Músarhelli við Valaból. Síðustu árin meðan byggð hélst í Hraunum var Guðjón Gíslason bóndi á Stóra-Lambhaga í Hraunum fjallkóngur suðurleitamanna. Þegar rétta þurfti í Hraunum var Þorbjarnarstaðarétt haustrétt fyrir Innhraunin eða Austur-Hraunbæina Litla- og Stóra Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot.   Rauðamelssrétt var vorrétt Hraunamanna og kallast þessu nafni þó hún hafi legið nokkuð frá melnum, en hún var skammt frá Réttargjá og voru réttir þessar aðallega notaðar til rúninga áður sem fóru oftast fram um fardagaleytið.

Hlunnindi og kvaðir

Ekki voru Hraunajarðirnar miklar hlunnindajarðir. Þó hefur kjarrskógur í Almenningi, eða Hraunaskógur, lengi talist til mestu hlunninda þessara jarða. Þar var hægt að gera kol til eldunar og stundum mátti fá þar stórvið. Kvaðir voru á jörðunum að færa nokkra hríshesta heim til Bessastaða ár hvert og jafnvel stórvið. Þessar kvaðir hafa íþyngt ábúendum jarðanna því árið 1703 kvartar Sigurður Oddleifsson ábúandi í Lónakoti við Árna Magnússon og Pál Vídalín ,,um að skógurinn í almenningum væri svo foreyddur að hann ei til treystist þar að safna kolviði til landskuldargjaldsins” til Bessastaða. Þegar birkihrís og einir eyddist voru bændur látnir rífa lyng og koma til Bessastaða. Var sortulyngið aðallega rifið því ekki mátti skerða krækiberjalyng eða bláberjalyng og enn síður beitilyngið þar eð sauðféð nærðist á því. Bændur áttu einnig að greiða afgjald til Bessastaða í dagsláttu, smjöri, fiskum, vaðmáli og mannsláni um vertíð og þurftu að fæða verkamennina að auki. Torfrista var engin, engjar voru ekki fyrir hendi og rekavon var lítil sem engin. Helstu hlunnindi voru fjörugrastekja, sölvafjara, hrognkelsatekja í lónum, selbitinn fiskur, skelfisksfjara til beitu og berjalestur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *