Um þessar mundir standa yfir tvær merkar myndlistarsýningar þar sem hraun koma við sögu. Sú fyrri var opnuð í Sverrissal í Hafnarborg laugardaginn 12. maí 2012 og nefnist Hús. Þar eru myndraðir af þremur húsum sem myndlistarmaðurinn Hreinn Friðfinnsson á heiðurinn að.
Hin sýningin var opnuð á Kjarvalsstöðum laugardaginn 2. júní og nefnist Gálgaklettur og órar sjónskynsins. Sýningin byggir að mestu nokkrum tugum málverka sem Jóhannes S. Kjarval málaði í Garðahrauni en þangað sótti hann í mörg ár og málaði oftar en ekki sömu klettana við mismunandi skilyrði. Á þeirri sýningu eru einnig verk eftir 20 aðra myndlistarmenn sem leggja út frá náttúrunni og náttúrusýn líkt og Kjarval var þekktur fyrir að gera.
Sýning Hreins Friðfinnsonar byggir á röð ljósmynda af þremur húsum sem hann hefur gert og komið fyrir á mismunandi stöðum. Fyrsta húsið reisti Hreinn ásamt félögum sínum í Smalaskálakeri í Hraunum árið 1974 og nefndi verkið House Project. Annað húsið var sett saman í Reykjavík og síðan flutt til Frakklandi þar sem það stendur í almenningsgarði. Þriðja húsið er einföld stálgrind og var sett á gjallhólinn í Smalaskálakeri síðsumars 2011 enda hafði fyrsta húsið orðið veðri og vindum að bráð nokkrum árum áður.
Fyrsta húsið var á röngunni, þ.e. veggfóður og annað sem vanalega er á innveggjum var utan á húsinu og bárujárnið innan í því. Þessi gjörningur átti ekki að standa lengi, en húsið stóð á sínum stað framyfir árið 2000, að vísu orðið býsna laskað undir það síðasta. Annað húsið er andhverfa við það fyrsta, bárujárn að utan og innviðir eins og í flestum öðrum húsum. Inni í því er lofsteinn og undir honum spegill og má segja að húsið geymi þar með hluta af alheiminum. Þriðja húsið er úr ryðfríu stáli og er eins og teikning af útlínum fyrsta hússins. Sýningarstjóri er Ólöf K. Sigurðardóttir.
Hin sýningin var opnuð á Kjarvalsstöðum 2. júní og byggir í grunninn á málverkum sem Jóhannes Sveinsson Kjarval málaði í Klettahrauni, þeim hluta Garðahrauns sem er næstur Gálgahrauni. Kjarval fór margsinnis á þennan stað til að mála og valdi sér oftast nær sömu klettana sem hann kallaði Gálgakletta, þó svo að þeir standi víðsfjarri hinum einu sönnu Gálgaklettum. Hann málaði á þessum slóðum á öllum tímum ársins og eru málverkin að minnsta kosti 50 talsins, jafnvel nokkuð fleiri því hann málaði einnig önnur mótíf í næsta nágrenni. Þessi staður hefur verið nefndur Kjarvalsflöt og klettarnir Kjarvalsklettar. Þetta eru einhver merkilegustu mótíf sem finna má í verkum Kjarvals héðan af suðvesturhorni landsins og full ástæða til að varðveita klettana og næsta nágrenni og friða þennan stað svo að komandi kynslóðir fái að njóta þeirrar náttúrufegurðar um ókomna tíð sem heillaði meistara Kjarval og var honum endanlaus uppspretta sköpunar. Sýningarstjóri er Ólafur Gíslason sem hefur jafnframt valið verk af ýmsu tagi eftir 20 aðra myndlistarmenn og finnur í endurómum myndverka Kjarvals á einn eða annan hátt.
Þess má geta að Jónatan Garðarsson mun verða leiðsögumaður í göngu sem farin verður á vegum Kjarvalsstaða fimmtudagskvöldið 14. júní næstkomandi. Gangan hefst við bílastæðið við Hraunvik skammt frá Sjálandshverfi fimmtudagskvöldið 14. júní og er förinni heitið að Kjarvalsklettum. Með í för verður Halldór Ásgeirsson myndlistarmaður sem á verk á sýningunni og mun hann segja frá sinni upplifun af staðnum og þeim verkum sem Kjarval málaði á Kjarvalsflöt. Boðið verður upp á rútuferð frá Grófarhúsinu kl. 19.30 fyrir þá sem það kjósa, en gangan hefst kl. 20.00. Aðrir geta geta mætt í Hraunvik sem er í jaðri Gálgahrauns á mótum Ásahverfis og Sjálandshverfis við Arnarvog í Garðabæ.