Óbrinnishólar eru vestan við miðbik Undirhlíða og liggur Bláfjallavegurinn sem tengir Hafnarfjörð við skíðasvæðið í Bláfjöllum á milli hólanna. Óbrinnishólar voru fjórir fallega mótaðir gíghólar sem heilluðu marga. Ferðafélag Íslands og Útivist voru með reglulegar ferðir á sumrin um tíma þar sem gengið var frá Kaldárseli að Óbrinnishólum og voru þessar ferðir ofstast fljölmennar.
Gísli Sigurðsson lögregluþjónn var gjarnan fararstjóri en fleir tóku að sér að leiða hópa um þessar slóðir. Óbrinnishólar urðu til í tveimur goshrynum með talsverðu millibili og rannsakaði Jón Jónsson jarðfræðingur hólana um miðjan og ritaði grein um þá sem birtist í Náttúrufræðingnum um miðjan 8. áratug 20. aldar. Hann taldi að talsvert langur tími hefði liðið milli gosanna tveggja og að eldra gosið hafi jafnvel verið um líkt leyti og gaus í Búrfelli, samkvæmt samsetningu þeirra steintegunda sem hann fann á báðum stöðum.
Óbrinnishólar voru með þeim glæsilegustu á Reykjanesskaganum öllum áður en þeim var að mestu eytt með óhóflegu malarnámi.
Fyrst í stað var eingöngu tekið gjall í smáum stíl, og um líkt leyti voru gerðar þó nokkrar rannsóknir á hólunum. Var grafið að vestanverður og kom þar í ljós undir tæplega eins metra þykku lagi af gjalli 5-8 sentimetra þykkt moldarlag, en undir því var gjall. Gróðurleifar fundust efst í moldarlaginu sem voru kolaðar. Það mun hafa gerst eftir að seinna gosið hófst. Neðra gjallþykknið náði alveg niður á jökulurð og fast berg. Hólarnir eru að mestu úr bósltrabergi og grágrýti og í seinna gosinu urðu til margar hraunkúlur sem eru allt frá því að vera mjög smáar upp í það að vera eins og smáboltar að stærð og nokkuð reglulega lagaðar.
Það er fátt sem minnir á hina formfögru hóla sem þarna stóðu um aldir, svo gersamlega hefur þeim verið spillt og það er í rauninni skömm að því hvernig þarna hefur verið gengið á merkar náttúruminjar.
Óbrinnishólar eru hluti af sprunurein sem liggur eftir endilöngum Reykjanesskaga. Víðsvegar á sprungunni eru mismunandi gamlir gígar sem hafa orðið til í mörgum goshrynum en fæstir þeirra eru stórir eða umfangsmiklir. Það er næsta auðvelt að þræða þessar gígaraðir og fylgja þeim frá Búrfelli og út á Reykjanestá eða því sem næst. Hólaröð Óbrinnishóla var einhverntíma mæld og reyndist vera 900 metra löng eða tæpur kílómetri.
Eins og nafnið gefur til kynna mynduðu hólarnir óbrennishólma sem yngri hraun hafa runnið í kringum og stóðu hólarnir eftir óbrenndir þar sem þeir voru hærra í landinu en nánasta umhverfi. Hæsti gígurinn var í 44 metra hæð yfir nærliggjandi umhverfi en miðað við hæð yfir sjó var hann í 144 metra hæð. Sigdalur eða hrauntjörn hefur myndast suðaustan við gígana við seinna gosið og gekk þessi dalur undir nafninu Óbrinnishólaslakki. Vestarlega í slakkanum er hellir sem er vel þess virði að skoða. Hlaðið hefur verið fyrir opið fyrir margt löngu en hellirinn er um 15-20 metra djúpur með bogadregnum lofti og þrengist eftir því sem innar dregur. Hann nefnist Óbrinnishellir en var líka nefndur Óbrinnishólaskúti. Þessi hellir var notaður um aldir sem fjárskjól yfir vetrartímann af bændum á Hvaleyri enda voru Óbrinnishólar í efri hluta Hvaleyrarlands. Birki- og víðihríslur uxu í vesturhluta nyrsta Óbrinnishólsins og sömuleiðis í hæðardragi skamm frá sem heitir Stakur en einna mestur var kjarrgróðurinn í sjálfum Undirhlíðum, enda heita þar Litli-Skógarhvammur og Stóri-Skógarhvammur. Nöfnin þurfa ekki nánari skýringa við, en þarna var kjörlendi fyrir vetrarbeit.
Óbrinnishólar eru ekki svipur hjá sjón en það má samt sem áður hafa ánægju af því að skoða hraunið umhverfis þá og þeir sem hafa gaman að því að rýna í litbrigði jarðar geta dundað sér við að skoða litina sem leynast í gígnámunum.