Gunnsteinn Ólafsson skrifar:
Skýrt er kveðið á um það í lögum að eldhraun á Íslandi njóti sérstakrar verndar. Allar framkvæmdir í eldhrauni eru því strangt til tekið ólöglegar. Gálgahraun á Álftanesi er eldhraun og auk þess á náttúruminjaskrá sem eykur enn á verndargildi þess. Garðabær fer með skipulagsvald í Gálgahrauni. Bærinn hefur þegar látið reisa heilt íbúðahverfi í hrauninu. Ennfremur á að leggja nýjan Álftanesveg þvert yfir hraunið og aðra stoðbraut í kross frá norðri til suðurs. Bærinn sá reyndar sóma sinn í að friða nyrsta hluta Gálgahrauns en tveimur þriðju hlutum þess á að fórna undir vegi og lóðir.
Komið er að ögurstundu í baráttunni um verndun Gálgahrauns. Nú skal á það reynt hvort lög um náttúruvernd á Íslandi hafi eitthvert gildi. Vegagerðin hefur fleytt umhverfismati nýs Álftanesvegar í gegn um allar eftirlitsstofnanir ríkisins athugasemdalaust, líkt og skraddararnir sem prönguðu „nýjum fötum“ upp á keisarann forðum án þess að nokkur þyrði að andmæla. Enginn hefur haft bein í nefinu til þess að benda á þá einföldu staðreynd, að það varði við lög að siga jarðýtum á eldhraun, hvað þá á eldhraun á náttúruminjaskrá. Rökstuðningur Vegagerðarinnar fyrir nýjum vegi er blátt áfram aumkvunarverður. Þar segir að í Gálgahrauni sé ekki að finna neinar hraunmyndanir sem ekki megi finna annars staðar á Íslandi. Þetta eru merkileg tíðindi því einn helsti listmálari þjóðarinnar, Jóhannes Kjarval, lagði hraunið að jöfnu við þjóðgarðinn á Þingvöllum.
Ónýtt umhverfismat fallið úr gildi
Umhverfismat nýs Álftanesvegar rann úr gildi 22. maí sl. Því er haldið fram að nýtt hringtorg á Álftanesi og lagfæringar á gangstétt í Engidal í Hafnarfirði endurnýi sjálfkrafa umhverfismatið. Það er ekki rétt. Umhverfismatið á aðeins við um veginn sjálfan. Forsendur þessa 10 ára gamla mats eru líka gjörbreyttar. Ekkert verður af 8.000 manna byggð í Garðaholti og því síður að 22.000 bílar aki um veginn á sólarhring. Matið gerir ráð fyrir mislægum gatnamótum við Prýðahverfi eins og tugþúsundir íbúa leynist þar í gjótum og sprungum. Ekkert er minnst á menningarsögu hraunsins og þýðingu þess fyrir þjóðina. Margir Garðbæingar, Álftnesingar og Hafnfirðingar muna eftir að hafa notið útiveru og friðsældar í Gálgahrauni. Þangað sóttu menn hrís til eldiviðar fyrr á öldum og vertíðarmenn teymdu austur á bóginn hesta sína klyfjaða fiski. Byrgi og skútar vitna um fjárbeit í árhundruði og Gálgaklettar gnæfa yfir til minnis um þá sem dæmdir voru til dauða á Bessastöðum. Slóðar og stígar geyma spor Snorra Sturlusonar, Fjölnismanna, Jóns Vídalíns biskups og alþýðu manna sem átti erindi við helstu höfðingja landsins allar götur frá landnámi. Svo virðist sem matsmönnum hafi hvorki verið ljós saga Álftaness né haft hugmynd um menningarminjar í Gálgahrauni, hvað þá gert sér grein fyrir gildandi lögum um eldhraun á Íslandi.
Álftanesi gjörbreytt
Fáir átta sig á því hversu umfangsmikil framkvæmd er hér á ferðinni. Algjörlega nýr veruleiki blasir við að henni lokinni. Það er ekki aðeins verið að leggja nýjan veg fyrir hundruði milljóna króna heldur þarf að skera tugmetra vegaxlir í hraunið báðum megin vegar og hlaða hálfs kílómetra hljóðmön sunnanmegin. Tilgangslaus en rándýr mislæg gatnamót breyta náttúruvin í steingeldan steypumúr. Álftanes verður gjörbreytt. Þetta veit Vegagerðin og þegir þunnu hljóði. Ekki eru birtar þrívíddarmyndir af mislægu gatnamótunum né heldur veginum sjálfum, ekki einu sinni fyrir umhverfismatið. Unnið skal í skjóli þagnar og myrkurs, í þeirri von að við sofum eyðilegginguna af okkur. Hrauninu sunnan nýs Álftanesvegar verður breytt í lóðir, hraunmyndanir sem líkjast Dimmuborgum sprengdar í loft upp og Kjarvalsklettarnir frægu jafnaðir við jörðu.
Senn leggja vígtenntar vinnuvélar til atlögu við Gálgahraun. Almenningur hefur engra annarra úrkosti en að verja það með öllum tiltækum ráðum. Enginn má láta sitt eftir liggja þegar lög á Íslandi eru þverbrotin. Nýr vegur um Gálgahraun er táknmynd lögleysu, eyðileggingar, tilgangsleysis, fáfræði, græðgi og hroka og má aldrei verða að veruleika.
Þeir sem vilja mótmæla nýjum Álftanesvegi um Gálgahraun geta skráð nafn sitt á www.alftanesvegur.is. Einnig má fylgjast með gangi mála á facebook-síðunni Verndum Gálgahraun.
Gunnsteinn Ólafsson