Hraun

Listin í hrauninu

Myndlistarmenn leita oft fanga í nánasta umhverfi sínu að fyrirmyndum til að mála eða nota liti og form náttúrunnar til að vinna óhlutbundin listaverk. Stundum orka fyrirmyndirnar svo sterkt á listamenn að þeir dragast að þeim aftur og aftur. Sama á við um útivistarfólk sem sækist eftir því árið um kring að komast aðeins út í óbyggðir til að dást að listasmíð náttúrunnar sem getur verið svo gefandi á margvíslegan hátt. Allsstaðar eru heillandi staðir sem veita innblástur og eru nærandi fyrir líkama og sál, ef maður gefur sér smá tíma til að gaumgæfa og njóta þess sem í boði er á hverjum stað á mismunandi árstímum. Slíkir staðir þurfa ekki að vera svo langt í burtu því stundum nægir að fara rétt aðeins út fyrir byggðamörkin til að finna heillandi náttúru, merkar minjar, fagurt landslag, skjólsæla laut eða góða útsýnisstaði, allt eftir því hvernig liggur á manni.     read more »

Strönd

Fiskeldi og sumardvöl við Straumsvík

Nokkrir sumarbústaðir voru byggðir í Hraunum við Straumsvík nokkru fyrir miðja 20. öldina. Meðal þeirra sem heilluðust af þessu sérstæða og að margra mati fallega landsvæði voru þrír félagar, bræðurnir Marinó og Kristinn Guðmundssynir sem voru báðir málarameistarar og Björn Jóhannesson doktor í jarðvegsfræði sem hafði mikinn áhuga á hegðun laxfiska. Þeir voru afar heillaðir af Lónakoti og tjörnunum sem þar eru en þar gátu þeir ekki fengið land á leigu eða til kaups. Gengu þeir þá eftir strandlengjunni frá Lónakoti og inn fyrir Straumsvík til Hafnarfjarðar og þaðan út á Álftanes í leit að ákjósanlegum stað til að reisa sumarkofa eins og þeir kölluðu það. Eftir að hafa grandskoðað strandlengjuna voru þeir sammála um að innsti hlutinn við norðaustanverða Straumsvík væri ákjósanlegasti staðurinn. Þar hafði staðið kotbýlið Litli-Lambhagi á tanga sem heitir Stróki og skammt frá honum voru Hólmarnir og Straumsvatnagarðar. Þar voru aflögð útihús og merkiklega vel hlaðið eldhús úr hraungrjóti frá því seint á 19. öld. Eftir nokkra eftirgrenslan  fengu þremenningarnir leyfi til að reisa lítið íveruhús innarlega á Stróka. Bjarni Bjarnason skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni átti þetta land allt, en hann eignaðist jarðirnar Straum og Þorbjarnarstaði ásamt Litla- og Stóra-Lambhaga árið 1919. Rak hann um árabil ágætis bú í Straumi og nytjaði allar jarðirnar til heyskapar og beitar. Bjarni lét byggja Straumshúsið sem enn stendur árið 1927 úr steinsteypu eftir að gamli bærinn brann. Sá sem teiknaði húsið var Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins, en húsið ber svipmót burstabæjar, en Guðjón hafði áhuga á að skapa nýja íslenska byggingarhefð með skírskotun til fyrri tíma. read more »

Fundargerðir

Fundargerð nr. 44

Stjórnarfundur nr. 44, haldinn 1. febrúar 2011 read more »

Félagsstarf

Viltu gerast félagi í Hraunavinum

Hraunavinir er félag fjölmargra áhugamanna um náttúruvernd og byggðaþróun í Hafnar­firði, Garðabæ og á Álftanesi. Félagið leggur einkum áherslu á hið sérstæða umhverfi, hraun, vötn og strendur sem teljast til bæjarlanda þessara þriggja sveitarfélaga. Skiplagsmál snerta félagsmenn til jafns við umgengni við náttúruna og nærumhverfið. Félagið leggur áherslu á samvinnu við sveitastjórnir og aðra um að skipulag framkvæmda fari fram í góðri sátt við íbúana og með virðingu fyrir fallegu umhverfi og náttúru.

Þeir sem skipa stjórn Hraunavina eru:

Pétur Stefánsson, formaður pshs@internet.is

Ólafur Proppé, ritari proppe@hi.is

Þorsteinn Þorsteinsson, gjaldkeri thorst@fg.is

Guðfinna Guðmundsdóttir, meðstjórnandi gudfinna@hafnarfjordur.is

Reynir Ingibjartsson, meðstjórnandi reyniring@internet.is

Ef þú hefur áhuga á að gerast félagi getur þú sent tölvupóst á netfang einhvers stjórnamanna eða á Jónatan Garðarsson umsjónarmann heimasíðu Hraunavina jonatang@simnet.is. Ekkert félagsgjald er innheimt.

Það sem þarf að koma fram í tölvupóstinum er nafn, kennitala, heimilisfang, netfang og símanúmer.

Fundargerðir

Fundargerð 12. desember 2011

Stjórnarfundur nr. 42. 12. desmber 2011 read more »

Félagsstarf

Grænavatnsganga í tilefni aldarminningar Sigurðar Þórarinssonar

Þann 8. janúar 2012 verða liðin 100 ár frá fæðingardegi Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings, eins ástsælasta vísindamanns þjóðarinnar á síðustu öld.

Á þessum degi ætla félög og samtök sem tengjast náttúruvísindum, náttúruvernd og útiveru að efna til blysfarar kringum Grænavatn í Krýsuvík.  

Brottför með rútu frá skrifstofu Ferðafélags Íslands Mörkinni 6 kl. 14, sunnudaginn 8. janúar. Fargjald í rútur er kr. 1000 og greiðist við brottför.  Þeir sem fara á einkabílum greiða ekki gjald.  Þátttakendum í gönguferðinni eru útveguð blys en fólk er einnig hvatt til að taka með sér eigin blys eða kyndla.  read more »

Félagsstarf

Gleðileg jól

Hraunavinir fagna Vetrarsólstöðum sem voru 22. desember að þessu sinni og nú er sólin farin að hækka á lofti á nýjan leik. Nýtt tungl, sjálft jólatunglið, kviknaði 24. desember og þar með hófst 10. vika vetrar. Stutt er til áramóta en að fornu voru áramót við þessi tvenn tímamót þegar sól tók að hækka á lofti og jólatunglið kviknaði.

Svo vel vill til að margar þjóðir halda hátíðir um þessar mundir til að fagna væntanlegum umskiptum náttúrunnar og einnig til að einblína á kærleikann, nýtt og betra líf og bjartari framtíðarhorfur. read more »

Hraun

Hrútagjá og samnefnd dyngja

Hraunflæmið frá Straumsvík að Vatnsleysuvík að norðan og suður að Sveifluhálsi er að mestu komið frá dyngju sem er í um það bil tveggja kílómetra fjarlægð vestur af Vatnsskarði. Dyngjan er nefnd eftir mikilli gjá sem liggur umhverfis hana en norðvestasti hluti hennar heitir Hrútagjá og dyngjan þar af leiðandi Hrútagjárdyngja. Nafnið er frá þeim tíma þegar bændur á Hraunabæjunum héldu hrúta sína í gjánni allt fram undir jólaföstuna og smalar gættu þeirra sem og sauða sem voru í nærliggjandi Sauðahelli í Sveifluhálsi. Annar hluti gjárinnar sem er suðaustan við dyngjuna heitir Grænklofi og þar skammt frá er bílastæði við Djúpavatnsveg þar sem kjörið er að leggja áður en gígsvæðið er skoðað. read more »

Félagsstarf

Hraunavinir fá viðurkenningu

Stjórn Hraunavina var boðið að mæta í húsnæði Framkvæmdasviðs Hafnarfjarðarbæjar á Norðurhellu 2 þriðjudaginn 8. nóvember 2011. Ástæðan var sú eftirfarandi bókun hafði verið gerð á fundi Umhverfis- og framkvæmdasviðs 5. nóvember:  

Skipulags- og byggingarráð og Umhverfis- og framkvæmdaráð fagna því hve vel tókst til með hreinsun hraunsins þann 16. september og færa þeim sem þar tóku þátt bestu þakkir fyrir þeirra framlag. Sérstaklega er Hraunavinum þakkað þeirra frumkvæði að þessu hreinsunarátaki. Lagt er til að 16. september verði árlega dagur hreinsunar og er umhverfisteymi ráðanna falið að vinna áfram að því máli.

read more »

Fundargerðir

Fundargerð ársfundar 2011

Ársfundur Hraunavina var haldinn í Haukshúsi á Álftanesi laugardaginn 12. nóvember 2011 og hófst hann klukkan 11:00. Hér er hægt að lesa fundargerð ársfundarins. read more »