Hraun

Fallegir ískristallar

 

Fyrstu dagana í desember hefur náttúran skartað sínu fegursta í froststillunum sem hafa verið dögum saman á suðvesturhorninu. Ískristallar og héla mynda skrautlegar frostrósir á hraunklettum, stráum og lyngi hvert sem litið er. Jarðvegurinn er gaddfreðinn og kristallarnir glitra og sindra dulúðugu geislaflóð þá stuttu stund yfir daginn þegar sólin er enn á lofti. Það er vel þess virði að klæða sig í skjólgóðan fatnað og góða gönguskó og halda í gönguferð eitthvað út í náttúruna til þess eins að njóta þessa sérstæða náttúrufyrirbæris á meðan svona er ástatt. read more »

Greinar

Nytsemdarjurtin beitilyng

Beitilyngsmói í austanverðri Smalaskálahæð í september 2010.

Beitilyngið er áberandi í grónum hraunum og á heiðum landsins og all útbreidd nema á Vestfjörðum og miðhálendinu. Þetta er ein algengasta heiðaplantan á norðurlöndunum og á norðanverðu Bretlandi og víðast kölluð Heiðalyng (hedelyng/ heather).

Þegar búið var að eyða skógum á jósku og norðurþýsku heiðunum tók beitilyngið við. Með tímanum myndaðist sérstakt jarðvegslag, svonefndur lyngskjöldur og við það varð landið mjög ófrjótt. Með barrskógarækt og akuryrkju eyddu Danir heiðalynginu en skildu nokkur svæði eftir sem sýnishorn. Geldneyti var oft beitt á beitilyngið sem og hrossum og sauðfé. Kýr sem fengu beitilyng í bland við heytuggu mjólkuðu betur og Norðmenn tóku eftir því að riddarliðshross urðu fjörugri af beitilynginu, sem var ekki slæmt þegar til bardaga dró. read more »

Greinar

Vegurinn sem aldrei varð

Það litla sem eftir er af Járnbrauta- og vagnveginum frá 1918 sést á milli iðnaðarhverfisins í Molduhrauni og Flatahverfis.

Merkilegar hleðslur eru enn sjáanlegar í hrauninu suðuvestur af Flötunum, handan við Hraunsholtslækinn, sem heitir reyndar Vífilsstaðalækur örlítið ofar þar sem hann renndur úr Vífilsstaðavatni. Þessar hleðslur vitna um vegasögu 0kkar og hægt er að aldursgreina þær nákvæmlega því þarna voru vinnuflokkar að störfum fyrir hluta árs 1918 á sama tíma og mikil harðindi með frosthörkum gengu yfir landið og atvinnuleysi var í sögulegu hámarki. read more »

Félagsstarf

Fréttir af aðalfundi

Aðalfundur Hraunavina var haldinn í Haukshúsi á Álftanesi laugardaginn 6. nóvember og var vel sóttur. Fundarstjóri var Janus Guðlaugsson, ármaður á Álftanesi. Fráfarandi stjórnarmenn gáfu allir kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og voru þeir endurkjörnir. Þeir sem skipa stjórnina eru: Pétur Stefánsson og Þorsteinn Þorsteinsson úr Garðabæ, Ólafur Proppé af Álftanesi og Jónatan Garðarsson og Reynir Ingibergsson úr Hafnarfirði. Stjórnin mun skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi. Ármenn voru allir endurskipaðir. read more »

Félagsstarf

Ársskýrsla stjórnar Hraunavina

Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar sem Pétur Stefánsson fromaður Hraunavina flutti á aðalfundi félagsins sem haldinn var laugardaginn 6. nóvember í Haukshúsi á Álftanesi. Á fundinum voru tvö afskaplega fróðleg erindi flutt um deiliskipulag Garðahverfis og Heiðmerkur. read more »

Félagsstarf

Aðalfundur Hraunavina

Haukshús á Álftanesi

Aðalfundur Hraunavina verður haldinn í Haukshúsi á Álftanesi laugardaginn 6. nóvember kl. 14.00. Þetta er öðrum þræði fræðslufundur þar sem tveir mjög áhugaverðir fyrirlestrar um skipulagsmál verða haldnir. Þeir varða annarsvegar skipulagið á Garðaholti sem er afskaplega spennandi og hinsvegar skipulagið í þeim hluta Heiðmerkur sem tilheyrir Garðabæ.

Félagsmenn eru hvattir til að mæta og taka með sér gesti, því fundurinn er öllum opinn.

Dagskrá:

1. Fundur settur.

2. Halldóra Hreggviðsdóttir og Heiða Aðalsteinsdóttir hjá Alta fjalla um deiliskiplulag Garðahverfis á Garðaholti.

3. Þráinn Hauksson hjá Landslagi fjallar um deiliskipulag í Garðabæjarhluta Heiðmerkurlands.

4. Venjuleg aðalfundarstörf.

5. Önnur mál.

Greinar

Selhraun og selminjar

Selhraun vestan við Hvaleyrarvatn er hluti af dyngjuhrauni sem er mest áberandi í kringum Skúlatún, sem er grasi gróinn óbrennishólmi rétt vestan við Helgafell. Jarðfræðingar hafa kallað þetta hraun einu nafni Skúlatúnshraun, en það ber líka ýmis önnur nöfn. Þar sem hraunið rann fram í sjó myndar það eldra Hellnahraun og heitir á kafla Hvaleyrarhraun. Aldur Selhrauns er ekki kunnur en það er sennilega ekki eldra en 3000-4000 ára. Þegar það rann myndaðist fyrirstaða í tveimur dalkvosum sem varð til þess að Hvaleyrarvatn og Ástjörn urðu til. read more »

Hraun

Ný gönguleiðabók

Forsíða bókarinnar

Reynir Ingibjartsson, stjórnarmaður í Hraunavinum, gaf nýverið út bókina: Náttúran við bæjarvegginn – 25 gönguleiðir á höfuðborgarsvæðinu. Eins og nafnið gefur til kynna lýsir Reynir 25 hringleiðum á höfuðborgarsvæðinu. Flestar eru þær í námunda við vötn, ár eða strendur hér í nánasta umhverfi mesta þéttbýlissvæðis landsins. Þeir sem hafa áhuga á að kanna nýjar slóðir eða bæta við þekkingu sína á stöðum sem eru í snertifæri, ættu að tryggja sér eintak og fara út að ganga.    read more »

Hraun

Suðvesturlína – athugasemdafrestur til 28. júlí 2010. Þeir sem ekki gera athugasemd teljast samþykkir línulögninni.

Suðvesturlína fer inn á óraskað svæði í Almenningi

Ágæt mæting var í göngu Hraunavina um fyrirhugað línustæði Suðvesturlína í Almenningi sem farin var miðvikudagskvöldið 9. júní. Veður var milt en það rigndi aðeins á göngufólkið því það gekk á með skúrum. Veðrið var ekki til trafala, enda gott að fá rigningaskúr þar sem mjög þurrt hefur verið að undanförnu. Gróðurinn í Almenningi er óvenju snemma á ferðinni og gróskan með mesta móti. Allt birki- og víðikjarrið er löngu orðið grænt og sóttist ferðin seint vegna þess að víða þurfti að krækja fyrir þéttvaxnar kjarrbreiður. Gróðurinn hefur tekið gríðarlegan vaxtakipp síðasta áratuginn og eru margar birkirunnar orðnir rúmlega tveggja metra háir.

Fyrst var komið við í Fjárborginni, en ef valkostur B verður valinn fyrir Suðvesturlínur munu háspennumöstrin liggja suðaustan við Fjárborgina á skógræktarsvæði þar sem byrjað var að plantá út fyrir tæplega 60 árum. Ef þessi línuleið verður valin mun nýja spennistöðin vera nokkur hundruð metra frá Gjáseli og línan fara yfir mitt selið og mjög nærri Straumsseli og Óttarsstaðaseli.

Línuleið A er illskárri kostur en línuleið B, þó svo að báðar eigi að fara um mjög merkilegt og fallegt náttúru- og minjasvæði sem nýtur hverfisverndar samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025. Að mati margra Hraunavina eru báðir kostirnir ómögulegir og mun nær hefði verið að setja allar raflínurnar í jörðu í núverandi línuvegastæði eins og gildandi aðalskipulag gerir ráð fyrir.

Línuleið A mun sneiða mjög nærri þremur seljum

Göngufólk lýsti yfir undrun sinni yfir þessum áformum og spurði ítrekað hvaða öfl það væru sem óskuðu eftir að flytja háspennulínuna svo sunnarlega í þetta fallega og gróna land. Svarið er einfalt. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa óskað eftir færslu línunnar.

Hægt er að lesa athugasemdir tveggja stjórnarmanna Hraunavina sem eru báðir Hafnfirðingar, hér fyrir neðan. read more »

Félagsstarf

Gönguferð miðvikudagskvöldið 9. júní

Fjárborgin verður á vegi göngumanna

Hraunavinir efna til kvöldgöngu í Almenningi næstkomandi miðvikudag 9. júní kl. 20.00. Mæting er kl. 20.00 skammt sunnan við Rallýkrossbrautina við Krýsuvíkurveg. Safnast verður saman við vegslóða sem liggur að skógræktarsvæðinu í Almenningi, en við hann er nokkuð áberandi vatnsverndarskilti. Reikna má með að gangan taki um 2-3 tíma, en tekið verður mið af veðri, skyggni og aðstæðum. read more »