Samþykktir Hraunavina

Samþykktir Hraunavina er hægt að lesa með því að smella á viðkomandi stað hér að neðan. Það styttist í aðalfund sem verður haldinn í október. Þeir sem hafa áhuga á að starfa í félaginu geta sent okkur tölvupóst. Netföngin er að finna undir liðnum: Hraunavinir.

SAMÞYKKTIR: 

 Hraunavina 

1. grein. 

Félagið heitir Hraunavinir og er félagsskapur sem lætur sér annt um byggðaþróun og umhverfismál í Álftaneshreppi hinum forna, einkum hið sérstæða umhverfi, hraun, vötn og strendur sem teljast til bæjarlands í Garðabæ, Hafnarfirði og  á Álftanesi. Heimili og varnarþing er í Garðabæ.

 2. grein.

Hér er um fágæt  umhverfisverðmæti að ræða sem vernda ber eins og kostur er, okkur sem  nú lifum og komandi kynslóðum til lífsfyllingar og skilnings á náttúrunni í kringum okkur.

 3. grein.

 Markmið hópsins er að láta meta verndargildi hinna ýmsu náttúrufyrirbæra og landslagsheilda og fylgjast náið með skipulagsmálum og framkvæmdum í þessum bæjarfélögum með ofangreind sjónarmið í huga og grípa til aðgerða, gerist þess þörf. 

 4. grein.

Tryggja ber aðkomu almennings í þessum bæjarfélögum svo og umhverfissamtaka að  ákvarðanatöku um náttúruverðmæti, ekki síst hraunin og að þeim verði ekki raskað, nema brýna nauðsyn beri til vegna byggðar og samgangna og að undangenginni ítarlegri kynningu meðal íbúanna.

 5. grein.

Nauðsynlegt er að löggjöf um umhverfisvernd og skipulagsmál, tryggi aðkomu íbúa að ákvarðanatekt, þar sem um umtalsverðar breytingar á umhverfi og landsslagi er að ræða í einstökum sveitarfélögum eða í samstæðum byggðarlögum.

 6. grein.

Stuðla þarf að því að gera hraunin og umhverfi þeirra sem aðgengilegast til útivistar, lýðheilsueflingar og náttúruskoðunar og safna saman upplýsingum og fróðleik um sögu þeirra og sérkenni.

 7. grein

Hraunavinir byggja á sjálfboðastarfi, engin félagsgjöld  verða innheimt, en heimilt er að afla styrkja til að fjármagna einstök verkefni. Félagaskrá skal byggjast upp af netföngum og upplýsingum safnað saman á  heimasíðu fyrir hópinn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *