Sólstöðuganga fyrir alla 21. júní kl. 20.00

Fimmmtudagskvöldið 21. júní kl. 20.00 verður ókeypis sólstöðuganga í Hraunum við Straumsvík í boði Hraunavina. Safnast verður sama við húsið Gerði skammt frá álverinu. Auðveldast er að komast þangað með því að beygja út af Reykjanesbrautinni í áttina að Gámasvæðinu þegar komið er á móts við miðjan álversskálann. Síðan er ekið eftir gamla Keflavíkurveginum í suðvesturátt þar til komið er að húsinu Gerði sem nokkurnvegin þar sem framkvæmdir standa nú yfir á Reykjanesbrautinni, en þar er verið að útbúa mislæg gatnamót við innkeyrsluna að álverinu.

Reynir Ingibjartsson sem gaf nýlega út bókina 25 gönguleiðir á Reykjanesskaga mun fara fyrir hópnum og fræða göngufólk á leiðinni. Gamla Alfaraleiðin verður gengin frá Gerði að Kristrúnarborg og síðan haldið til baka og gengið eftir gamla Keflavíkurveginum að Gerði. Þessi leið er merkt nr. 2 í gönguleiðabók Reynis þannig að göngufólk fær smjörþefinn af því hverskonar leiðir um er að ræða. Gangan tekur 2-3 tíma og er nokkuð létt, en það er rétt að vera vel skóaður því gengið er í hrauni stóran hluta leiðarinnar og skynsamlegt er að hafa meðferðis hlífðarfatnað í samræmi við veðurútlit.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *