Stjórnarfundur nr. 50

Fundur stjórnar haldinn 3. október 2012 kl. 17.00 í Haukshúsi á Álftanesi.

Þorsteinn Þorsteinsson tók að sér ritun fundargerðar í forföllum ritara.

Sérstakir gestir á stjórnarfundinum voru Gunnsteinn Ólafsson, Bjarni Bjarnason, Hrafn Sigurðsson og Gunnar Júlíusson og bauð formaður þá velkomna á fundinn.

1. Fundargerð.

Fundargerð 49. fundar, 19.09.2012, var samþykkt.

 

2. Álftanesvegur, nokkur álitamál varðandi stjórnsýslu.

Rætt var um stöðu mála varðandi fyrirhugaðan Álftanesveg (415). Pétur gerði grein fyrir þessum álitamálum varðandi stjórnsýslu:

a. Umhverfismat 2002 er fallið úr gildi

b. Framkvæmdin, sem umhverfismatið fjallar um, er ekki hafin

c. Framkvæmdaleyfi er útrunnið 

c. Rannsóknarskylda skipulagsstofnunar er ótvíræð

d. Eldhraun njóta sérstakrar verndar skv. náttúruverndarlögum.

Bjarni Bjarnason, einn fulltrúi íbúa í Prýðishverfi, greindi frá því að íbúar hefðu fallið frá beiðninni um að færa veginn lengra inn í hraunið til norðurs. Hann greindi einnig frá viðræðum við bæjarstjóra, bæjarfulltrúa og ýmsa embættismenn bæjarins. Málþing ehf. sendi Erlingi Ásgeirssyni, formanni bæjarráðs og Hreini Haraldssyni, vegamálastjóra, bréf dags. 1. okt. 2012. Í bréfinu er gerð krafa um að bæjaryfirvöld í Garðabæ biðji um nýtt umhverfismat þar sem forsendur fyrra mats séu gjörbreyttar.

Farið var yfir gang mála undanfarna daga og rætt um næstu aðgerðir.

Ákveðið var að athuga betur lagalega stöðu Gálgahrauns sem eldhrauns á náttúruminjaskrá.

 

3. Álftanesvegur, almannatengsl.

Pétur fór yfir þessi atriði er snerta kynningu o.fl. varðandi málið:

      a. Greinaskrif

      b. Undirskriftasöfnun

      c. Facebook síða

      d. Auglýsingar

      e. Forseti Íslands

Ýmsar hugmyndir um þessi atriði voru ræddar.

Gunnsteinn greindi frá því að rúmlega 900 manns hefðu skráð sig á undirskriftarlistann www.alftanesvegur.is

Þá var farið yfir auglýsingu sem Gunnar Júlíusson hefur gert. Samþykkt var að hafa textann í auglýsingunni með þessum hætti:

Eldhraun njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum.
Gálgahraun er á náttúruminjaskrá.
Í Gálgahrauni málaði Kjarval mörg sín þekktustu verk.
Gálgahraun tengist sögu Bessastaða frá landnámi.
Umhverfismat nýs Álftanesvegar er fallið úr gildi.
Gálgahraun er einstök útivistarparadís – Henni má ekki spilla.

Ákveðið að leita leyfis erfingja Jóhannesar S. Kjarvals til að nota mynd Kjarvals í auglýsingunni. Ákveðið að birta auglýsinguna í Morgunblaðinu, Garðapóstinum og Fjarðarpóstinum, svo og á heimasíðu félagsins og dreifa henni sem víðast í netheiminum.

Þá var samþykkt að biðja Jónatan Garðarsson að minna félagsmenn á að taka þátt í undirskriftarsöfnuninni.

 

4. Álftanesvegur, hönnun.

Rætt var um ýmsa valkosti við lagningu vegarins. Fram kom að fulltrúar Vegagerðarinnar og fleiri aðilar hafa slegið á þá hugmynd að leggja hluta vegarins í stokk með því að fullyrða að slík framkvæmd auki kostnað allt að því tífalt. Það hefur hins vegar vakið furðu manna að hugmyndin um lagningu hluta vegarins í stokk (400-500 m) skyldi ekki hafa verið metin vandlegar og kostnaður reiknaður við slíka framkvæmd.

5. Álftanesvegur, aðgerðaáætlun.

Rætt var um hugmynd að ljósmyndasamkeppni þar sem þemað yrði haust í Gálgahrauni. Gunnsteinn lagði fram blað með lýsingu á fyrirkomulagi ljósmyndasamkeppninnar.

 6. Önnur mál.

  • Engin önnur mál.

Fundi slitið kl. 19:00.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *