Um 200 manns mættu til að mótmæla framkvæmdum í Gálgahrauni

Þrátt fyrir norðankulda og talsvert hvassviðri komu um 200 manns saman á bílastæðinu við Prýðahverfi við Álftanesveg sunnudaginn 15. september og gengu fylktu liði með græna fána og íslenska fánann í áttina að Garðastekk.

Gengið var að þeim stað þar sem skurðgrafa vann óbætanlegt tjón á hraunjaðri Gálgahrauns föstudaginn 13. september. Þar var fánum komið fyrir í sárinu eftir gröfuna. Í lok göngunnar var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Ályktun samþykkt í mótmælagöngu um Gálgahraun 15. september 2013:

Við mótmælum harðlega þeirri aðför sem gerð er að fágætri náttúru á höfuðborgarsvæðinu með lagningu nýs Álftanesvegar um Gálgahraun.

Við krefjumst þess að engar framkvæmdir verði við veginn fyrr en dómstólar hafa kveðið upp úr um lögmæti framkvæmdanna.

Ennfremur mótmælum við því harðlega að sýslumaðurinn í Reykjavík skuli ekki viðurkenna gildistöku Árósasamningsins hér á landi þar sem skýrt er kveðið á um rétt náttúruverndarsamtaka til að leita réttar síns fyrir dómstólum í málum sem varða umhverfisvernd. Umhverfismatið fyrir nýjan Álftanesveg rann út árið 2012.

Við gerum þá afdráttarlausu kröfu að framkvæmdir verði lagðar á ís þar til nýtt mat hefur verið framkvæmt þar sem hagsmunir náttúruverndar verði hafðir að leiðarljósi.

Við krefjumst þess að núverandi Álftanesvegur verði endurbyggður og að Gálgahrauni verði hlíft við frekari eyðileggingu. P1070306

P1070303

One comment

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *