Dagur íslenskrar náttúru var haldinn hátíðlegur með ýmsu móti föstudaginn 16. september á 71. árs afmælisdegi Ómars Ragnarssonar fjölmiðlamanns og náttúruunnanda. Var þetta í fyrsta sinn sem Dagur íslenskrar náttúru var haldinn og Hraunavinir notuðu tækifærið og efndu til hreinsunarátaks í hrauninu sunnan og vestan Straumsvíkur í góðri samvinnu við Framkvæmdasvið Hafnarfjarðarbæjar, landeigendur, skóla, sjálfboðaliða og nokkur fyrirtæki. Félagsmenn fjölmenntu í Hraunin eins og svæðið heitir frá fornu fari og nutu liðsinnis fjölda sjálfboðaliða við að hreinsa allskyns rusl og drasl sem hefur verið skilið eftir úti á víðavangi í fallegri náttúrunni. Vakti þetta athygli fjölmiðlanna og var fjallað um hreinsunarátakið í kvöldfréttum RÚV og Stöðvar 2 á föstudag og í laugardagsblaði Morgunblaðsins.
Unga fólkið lét ekki sitt eftir liggja því u.þ.b. 200 nemendur úr Hvaleyrarskóla, Hraunvallaskóla og Áslandsskóla mættu í Straum á föstudagsmorgun kl. 9.30 í langferðabifreiðum Hópbíla en fyrirtækið var eitt þeirra sem studdu verkefnið. Nemendurnir voru með kennurum sínum sem fylgdu þeim í þessu verkefni sem var skipulagt og stjórnað af félagsmönnum Hraunavina. Nemendurnir röðuðu sér niður á svæðið milli Straums og Óttarsstaða samkvæmt fyrirfram ákveðnu skipulagi og tóku rösklega til hendinni. Krakkarnir sýndu og sönnuðu að þeir voru verkinu vaxnir og mikils má vænta af æsku landsins ef mið er tekið af því hvernig þau unnu þennan dag. Skólabörnin fóru eins og stormsveipur um hraunin og fínkembdu svæðið frá fjöru og upp að veginum sem liggur milli Straums og Óttarsstaða. Ekki þarf að kvíða framtíðinni þegar æskulýðurinn gengur jafn vasklega fram eins og þessi ungmenni gerðu á föstudaginn.
Haukur Halldórsson og Sverrir Sigurjónsson sem reka Víkingahringinn í Straumi opnuðu húsakynni sín svo að krakkarnir og aðrir sjálfboðliðar ættu þar öruggt húsaskjól í rigningunni og nepjunni þennan dag. Góðviljaðir aðilar buðu krökkunum upp á svaladrykki og eitthvað til að maula á og Rio Tinto Alcan lagði einnig sitt af mörkum svo að hreinsunarátakið gengi sem best fyrir sig. Gámaþjónustan útvegaði stóra gula poka og bláa gáma sem draslinu var safnað í. Pokarnir voru fluttir á brott í lok dags en gámarnir látnir standa leingur. Þeir verða tæmdir á endurvinnslustöð Sorpu á Breiðhelluí næstu viku. Starfsfólk Sorpu kom einnig að þessu verkefni á myndarlegan hátt og sá til þess að skilagjaldið var fellt niður. Allt þetta skiptir máli í svona átaksverkefni.
Ofan Reykjanesbrautar voru liðsmenn SEEDS sjálfboðaliðasamtakanna mættir um líkt leyti og skólabörnin og létu hendur standa fram úr ermum í Rauðamelsnámunni gömlu. Þar hefur safnast fyrir reiðinnar býsn af haglaskothylkjum, spítnarusli, heimilistækjum, garðaúrgangi, heimilissorpi, járnarusli, bílhræjum og ótrúlegustu hlutum svo sem sundurskotnum myndbandsspólum, tölvum, sjónvörpum, flöskum af öllum gerðum og ótalmörgu öðru. Þarna hafa menn stundað skotæfingar í leyfisleysi svo árum skiptir. Þeir virðast hafa tekið með sér allskonar hluti til að skjóta í tætlur en þessu til viðbótar hafa óprúttnir aðilar séð sér leik á borði og hent allrahanda rusli í kringum vegslóðann og í námuna. Það er varla hægt að ímynda sér hvernig fólki hefur dottið í hug að koma með allt þetta drasl á þennan afskekkta stað, þegar endurvinnslustöð Sorpu er svo skammt frá. Bílhræin sem þarna hafa safnast saman eru alveg sér kapituli sem varla er hægt að skilja almennilega. Furumenn fluttu 10 tonn af járnarusli af svæðinu en auk þess var öðru rusli safnað í nokkra gáma.
Sjálfboðaliðarnir stóðu sig mjög vel og hreinsuðu svæðið en samt sem áður er ótrúlega mikið eftir að skothylkjum og hverskonar rusli. Tómas J. Knútsson formaður Bláa hersins mætti á staðinn og lagði sitt af mörkum, en hann og hans liðsmenn hafa unnið þrekvirki í hreinsun strandlengjunnar á Reykjanesskaganum á undanförnum árum. Starfsmenn Furu mættu einnig með tæki sín og tól og söfnuðu saman járnarusli og öðrum málmhlutum sem vógu um 10 tonn samtals þegar allt var saman komið. Starfsmenn Gámaþjónustunnar hirtu upp allt draslið sem grunnskólakrakkarnir höfðu safnað saman og létu hreinsunarfólkinu í té gáma sem búið er að fylla af rusli sem verða fluttir af staðnum mánudaginn 19. september og frameftir vikunni.
Húsgögn og annar húsbúnaður leynist enn í hraunsprungu sunnan við Rauðamelsnámuna við gamla Keflavíkurveginn. Sama má segja um Óttarsstaðamelsnámuna sem er skammt frá Kristrúnarfjárborg en þar er talsvert af rusli sem þarf að tína saman. Og svo er sittlítið af hverju við gamla Keflavíkurveginn í Lónakotslandi þar sem hann hverfur undir Reykjanesbrautina. Ekki hefur enn gefist tími til að fara um Lónakotsland norðan Reykjanesbrautar en þar er hellingur af drasli sem þarf að safna saman og svo er umtalsvert af hlutum sem hafa fokið og skorðast í gjótum og sprungum í hrauninu hér og þar.
Ágætur fjöldi mætti kl. 10.00 að morgni laugardagsins 17. september og fleiri bættust við kl. 13.00. Sannarlega hefur mikið áunnist á ekki lengri tíma en samt sem áður er full ástæða til að halda áfram sunnudaginn 18. september. Mestu skiptir að taka til hendinni í Rauðamelsnámunni þar sem enn eru tugþúsund hylkja utan af haglaskotum. Þar morar allt í glerbrotum og brotnum leirdúfum sem eru eins og skæðadrífa um allt. Þetta rusl ber skotmönnum ekki gott vinti, því miður. Mikilvægt er að sem flestir mæti og hjálpist að við að hreinsa svo að sómi verði að og auðvitað ættu þeir sem þarna hafa æft skotfimi að sjá sóma sinn í að taka til hendinni. Þeir yrðu menn af meiri ef þeir létu sjá sig.
Náman er merkileg fyrir margra hluta sakir og þar er auðvelt að gera sér grein fyrir því hvernig Hrútadyngjuhraun rann í sjó fram fyrir 4-6 þúsund árum síðan. Komið hefur fram sú hugmynd að halda tónleika í námunni á næstu árum þegar búið verður að hreinsa umhverfið. Hugmyndin er að vísu ekki alveg ný af nálinni en vel mætti hugsa sér að framkvæma hana. Svo má ekki gleyma því að landið umhverfis námuna er einstakt útivistarsvæði.
Hraunavinir eru stoltir og ánægðir með það hversu margir sáu sér fært að taka þátt í þessu hreinsunarátaki. Full ástæða er til að þakka fyrir þátttökuna og hrósa öllum þeim sem brugðust svo vel við ákalli félagsins og lögðu verkefninu lið.
Enn á eftir að klára verkið og betur má ef duga skal, eða eins stendur einhversstaðar: Lofa skal mey að morgni. Hraunavinir hvetja alla félagsmenn sína og aðra sem unna náttúrunni og umhverfinu til að halda áfram að hreinsa hraunin í nágrenni okkar sem og alla aðra staði þar sem taka þarf til.
Virðum umhverfið, göngum vel um landið okkar og umfram allt látum aldrei rusl eða annan úrgang liggja á víðavangi.