Sólstöðuganga Hraunavina var að þessu sinni eftir Alfaraleiðinni sunnan og vestan Straumsvíkur, gömlu leiðinni milli Innnesja og Suðurnesja. Ganga hófst hjá Gerðistjörn og gengið var í tvo og hálfan tíma í afbragðs gönguveðri.
Staldrað var fyrst við á rústum Þorbjarnarstaða og komið við í Stekknum, sunnan Þorbjarnarstaða. Síðan gengið um Draugadali og Þrengsli að Gvendarbrunni og margir fengu sér þar sopa, enda stóð vatn hátt í brunninum. Haft var á orði að þar þyrfti að koma fyrir ausu með löngu skafti til að auðvelda göngufólki að svala þorstanum.
Gengið var út af Alfaraleiðinni hjá Löngubrekkum og að Smalaskálakeri í Smalaskálahæð. Þar blasti við ,,hús“ Hreins Friðfinnssonar, myndlistarmanns og var ekki laust við að undrunarsvipur kæmi á göngufólk. Húsið er reyndar aðeins stálgrind, eftirlíking af grindinni í húsi sem Hreinn byggði á þessum stað árið 1974, þar sem grindverkið var klædd með bárujárni að innan og veggfóðri að utan. Í Hafnarborg í Hafnarfirði stendur nú yfir sýning á húsum Hreins.
Næst var gengið að hinni fallegu fjárborg, Kristrúnarborg og þeir sem höfðu nestað sig til ferðarinnar, kláruðu sitt. Síðan lá leiðin til baka eftir gömlu vegunum til Suðurnesja og litið var við hjá Rauðamel og stóru gryfjunni sem Hraunavinir og fleiri, hreinsuðu upp úr þann 16. september sl. á afmælisdegi Ómars Ragnarssonar – degi íslenskrar náttúru. Lýstu margir í hópnum yfir áhuga á að mæta í haust og halda hreinsunarátakinu áfram.
Alls voru 15 í göngunni og það var létt yfir göngufólki við göngulok og í norðvestri skartaði Snæfellsjökull sínu fegursta. Varla var hægt að biðja um meira.